Hoppa yfir valmynd
2. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Ísland í forystu á alþjóðavettvangi

Utanríkisráðherra ávarpar mannréttindaráð SÞ - mynd

Í ár er Ísland í forystuhlutverki í ýmsum ráðum, stjórnum og nefndum á alþjóðavettvangi sem veitir einstakt tækifæri til að upplýsa um helstu hagsmunamál og afla sjónarmiðum þjóðarinnar stuðnings. Ísland er formennskuríki í Norrænu ráðherranefndinni og einnig í samstarfi norrænna utanríkisráðherra (N5) og utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8). Í næstu viku tekur Ísland við formennskukeflinu í Norðurskautsráðinu. Þá tekur Ísland sæti í stjórn Alþjóðabankans í Washington fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) um mitt sumar 2019. 

Í fyrra var Ísland kjörið í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna til ársloka 2019. Um er að ræða eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hefur gegnt á alþjóðavettvangi. Áherslur Íslands í ráðinu lúta að jafnréttismálum, réttindum hinsegin fólks (LGBT+), réttindum barna, umbótum á starfsemi mannréttindaráðsins og tengslum mannréttinda við umhverfismál. „Framganga Íslands hefur raunar vakið athygli á heimsvísu og er til marks um hve mikil áhrif lítil ríki geta haft. Besta dæmið er vafalaust forysta Íslands á vettvangi ráðsins þegar ástand mannréttinda í Sádi-Arabíu var gagnrýnt,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þegar hann kynnti Alþingi skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál í vikunni. 

„Gagnvegir góðir“ er yfirskriftin á yfirstandandi formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og vísar til vináttu norrænu þjóðanna. Ungt fólk, sjálfbær ferðaþjónusta og lífríki hafsins eru þau málefnasvið sem Ísland hefur sett í forgang í formennskuáætlun sinni með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Ráðgert er að um 180 norrænir fundir og viðburðir verði haldnir á árinu undir stjórn Íslands. Formennska Íslands í samstarfi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna leggur áherslu á þrjú málefnasvið: öryggismál, mannréttindamál og mikilvægi alþjóðalaga og alþjóðastofnana, og málefni hafsins. 

 

Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í næstu viku tekur Ísland við formennsku til tveggja ára undir yfirskriftinni „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“. Norðurskautsráðið er mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og alþjóðapólitískt vægi formennskunnar hefur aukist til muna á undanförnum árum. „Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi mun íslenska formennskan meðal annars beina kastljósinu að málefnum hafsins, loftslagsmálum og endurnýjanlegri orku, auk stuðnings við samfélög á norðurslóðum,“ sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni á Alþingi. Á fyrsta ári formennskunnar er ráðgert að fjórir meginfundir Norðurskautsráðsins verði haldnir á Íslandi, víðsvegar um land.

Um mitt sumar tekur Ísland síðan við stjórnarsæti í Alþjóðabankanum og leiðir starf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um tveggja ára skeið. Geir H. Haarde, sendiherra í Washington, tekur stöðu aðalfulltrúa í stjórninni fyrir hönd kjördæmisins. Alþjóðabankinn er stærsta þróunarsamvinnustofnun í heiminum og hlutverk hans er að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarríkja. Íslendingar eiga líka í miklu tvíhliða samstarfi við Alþjóðabankann, einkum á sviði jarðhita, orkumála, fiskimála og jafnréttis- og mannréttindamála.

Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum en jafnframt hefur verið gefið út sérstakt hefti með útdrætti úr skýrslunni. Fjölmargar tölulegar upplýsingar koma fram í skýrslunni sem settar eru fram á myndrænan hátt. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum