Hoppa yfir valmynd
7. maí 2008 Forsætisráðuneytið

Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið

Geir H. Haarde forsætisráðherra kynnir UT-stefnu
Geir H. Haarde forsætisráðherra kynnir UT-stefnu

Ríkisstjórnin gaf í dag út nýja stefnu um upplýsingasamfélagið og var hún kynnt í fyrsta sinn á UT-ráðstefnunni sem haldin var í tilefni dags upplýsingatækninnar. Stefnan ber yfirskriftina „Netríkið Ísland" og er hún vegvísir hins opinbera að þróun rafrænnar stjórnsýslu og nýtingu upplýsingatækni á árunum 2008-2012.

Í stefnunni er fólgin sú framtíðarsýn að Íslendingar verði fremstir þjóða í rafrænni þjónustu og nýtingu upplýsingatækni. Þar eru jafnframt tilgreind fjölmörg þróunarverkefni í upplýsingatækni á vegum hins opinbera sem miða að því að bæta og auka rafræna þjónustu hins opinbera við almenning og fyrirtæki. Leiðarljós Netríkisins Íslands er að þjónusta hins opinbera verði notendavæn og skilvirk án biðraða.

Geir H. Haarde forsætisráðherra kynnti stefnuna á UT-ráðstefnunni. Í ávarpi í formála stefnunnar segir hann m.a. að talsvert hafi skort á framboð á þjónustu af hálfu opinberra aðila á Netinu og Ísland því dregist aftur úr samanburðarríkjunum. „Mikilvægt er að breyting verði þar á og þjónusta er því rauði þráðurinn í hinni nýju stefnu. Framtíðarsýnin er sú að Íslendingar verði fremstir þjóða í rafrænni þjónustu og nýtingu upplýsingatækni. Til mikils er að vinna fyrir fólk og fyrirtæki sem með bættri þjónustu geta sparað bæði tíma og fjármuni. Auk þess eykst skilvirkni í ríkisrekstri til hagsbóta fyrir samfélagið í heild," segir Geir í ávarpinu.

Meðal helstu verkefna sem nefnd eru í stefnu ríkisstjórnarinnar eru aukin áhersla á sjálfsafgreiðslu á Netinu. Einstaklingar og fyrirtæki eigi að geta afgreitt sig sjálf í auknum mæli, t.d. með rafrænum umsóknum, vottorðum, tilkynningum og tímapöntunum. Þar með muni gögn ferðast milli stofnana en ekki fólk og biðraðir í þjónustustofnunum heyra sögunni til. Jafnframt eigi fólk að geta nálgast upplýsingar um sig sem geymdar eru í kerfum opinberra aðila.

Samkvæmt stefnunni verða tekin í notkun rafræn skilríki, rafrænar greiðslur og rafræn innkaup á tímabilinu auk þess sem gögn verða samnýtt og dregið úr margskráningu upplýsinga. Upplýsingatækni verður notuð í auknum mæli við nám og kennslu samkvæmt stefnunni, auk þess sem hana á að nýta til að auka möguleika fólks til lýðræðislegrar þátttöku. Í því skyni er stefnt að tilraun með rafrænar kosningar í tveimur sveitarfélögum í kosningum árið 2010. Jafnframt verður lögð áhersla á útvistun og notkun upplýsingatækni til að bæta alþjóðlegt samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Hægt er að lesa nýja stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið á vefnum ut.is og nálgast gögn frá UT-ráðstefnunni, þar sem fjallað var um nokkur mikilvæg verkefni sem hrint verður í framkvæmd á næstu árum.

Nánari upplýsingar veitir: Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti.

Reykjavík 7. maí 2008

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum