Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. september 2008 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Áhættuhegðan ungra ökumanna

Ávarp Kristjáns L. Möller samgönguráðherra á morgunverðarfundi Lýðheilsustöðvar, Slysavarnaráðs og Umferðarráðs um áhættuhegðun ungra ökumanna 9. september 2008

Góðir ráðstefnugestir.

Ungt fólk á hraðri ferð í gegnum lífið er áhættuhópur í umferðinni. Tölur frá Evrópulöndum sýna að helsta dánarorsök fólks í aldurshópnum 17-24 ára eru umferðarlys. Hjá okkur í fyrra voru það tveir af 15 látnum og árið 2006 átta af 31 látnum í umferðinni. Við þurfum að leita allra leiða til að lækka þessar tölur og koma í veg fyrir að við séum að missa unga fólki okkar vegna byrjendamistaka.

 

Svokölluð núllsýn sem bæði Svíar og Norðmenn hafa varðandi umferðarslys gengur meðal annars út á að aðstæður í umferðinni séu þannig að sem minnstar líkur séu á umferðarslysi og að afleiðingar verði sem minnstar ef til þeirra kemur. Sérhver manneskja er einstök og ekki er hægt að sætta sig við að fólk bíði bana í umferðarslysum. Vegakerfið skal vera þannig úr garði gert að það leiði til öruggrar umferðar og að menn séu varðir gegn alvarlegum afleiðingum mistaka í umferðinni og að vegfarendur og yfirvöld beri sameiginlega ábyrgð á umferðaröryggi.

 

Ungum og óreyndum ökumönnum er hættara við að lenda í slysi en þeim sem lengri reynslu hafa og það er kannski ekkert skrýtið. Við þurfum þá einfaldlega að taka á því og íhuga hvað má bæta í þeim efnum. Með góðri ökukennslu og góðum undirbúningi undir þennan mikilvæga þátt í lífi okkar flestra er hægt að draga mjög úr þessari áhættu enda er það ávallt markmiðið að nýir ökumenn komi sem best undirbúnir út í raunveruleikann í umferðinni. Endurskoðun umferðarlaga, sem nú stendur yfir í samgönguráðuneytinu, felur einmitt í sér að farið er sérsaklega yfir þátt ökukennslu og ökunáms.

 

Við vitum vel að okkar mannlega hegðun skiptir miklu máli í öllu daglegu lífi. Við getum verið misjafnlega vel upplögð til verka og segjum að við nennum ekki hinu eða þessu eða séum ekki í stuði til að gera þetta eða hitt. Hver kannast ekki við þetta hjá sjálfum sér í umferðinni. Einmitt þar sprettur fram hjá okkur svo margs konar hugarástand sem getur jafnvel leitt okkur í gönur.

 

Það er einmitt þessi mannlegi þáttur sem við þurfum að rannsaka betur. Hver er rótin að breytni okkar í umferðinni og rótin að því að við hegðum okkur ekki alltaf sem skyldi? Mannlegi þátturinn hefur í áratugi verið mikið rannsakaður þegar flugslys eru annars vegar. Þær rannsóknir skila ákveðnum umbótum og því skyldum við ekki líka taka það upp í umferðinni.

 

Við teljum okkur oft geta meira og vera klárari en við erum og við teljum okkur líka oft vita betur og meira en aðrir sem eru í kringum okkur. Þetta byrjar í æsku, heldur áfram á unglingsárum og fylgir okkur trúlega alla ævi. En okkur er hollt að taka mið af því sem þeir sem reyndari eru vilja miðla okkur og sú afstaða gildir ekki síst í umferðinni.

 

Hér á eftir tala þrír sérfræðingar um hin ýmsu svið er varða unga ökumenn sérstaklega. Þeir munu fjalla um leiðir til aukins öryggis, hlutfall óhappa hjá nýliðum í umferðinni og um áhrif akstursbanns sem ökumenn með bráðabirgðaskírteini þurfa að sæta ef þeir gerast brotlegir við umferðarlög og fá fjóra refsipunkta.

 

Þetta eru allt mál sem við þurfum að kanna rækilega. Við þurfum að skoða það ofan í kjölinn hvar má breyta og bæta hvað varðar sérstaklega unga ökumenn. Ég á von á því að hér verði flutt áhugaverð og fróðleg erindi. Ég á líka von á því að í framhaldinu geti skapast frjóar umræður enda er alltaf gagnlegt að ræða málin og skiptast á skoðunum.

 

Ég óska fundarmönnum góðs gengis og vænti þess að við förum öll fróðari héðan en við komum. Ég þarf því miður fljótlega að hverfa af þessum fundi og á fund ríkisstjórnarinnar en veit að fulltrúar mínir hér halda mér upplýstum um það sem fram fer.

 

Góðar stundir.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum