Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. apríl 2023 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Byggjum brýr - ávarp á brúarráðstefnu Vegagerðarinnar

Byggjum brýr - ávarp á brúarráðstefnu Vegagerðarinnar 26. apríl

Góðir ráðstefnugestir.

Það er mér mikil ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu um byggingu brúa, enda eru brýr mér mikið hugðarefni, eins og reyndar allar samgöngubætur. En málefnið er líka brýnt, mikið hefur verið unnið á undanförnum árum en jafnframt er mikið verk fram undan.

Í íslenska vegakerfinu , sem er nærri 13.000 km langt, eru 1.185 brýr. Af þeim eru 645 einbreiðar. Á Hringveginum einum eru 229 brýr og hluti þeirra enn einbreiður. Þær einbreiðu brýr sem verða á vegi okkar þegar farið er um Hringveginn voru flestar byggðar í kringum miðja síðustu öld og því byggðar í vegakerfi þar sem þarfir, viðmið og umferðarhraði var allt annar en nú.

Mikið hefur áunnist á síðustu 30 árum frá því að síðasta nýja einbreiða brúin var opnuð á Hringveginum árið 1985, en verkefnið er enn knýjandi.

Umferð hefur margfaldast, m.a. vegna gríðarlegrar fjölgunar erlendra ferðamanna, og þá hafa þungaflutningar aukist mikið sömuleiðis. Þar að auki hefur hlutfall ökumanna sem hvorki er vanur malarvegum né einbreiðum brúm stóraukist. Árið 2015 var brúin á Jökulsá á Sólheimasandi til dæmis eina einbreiða brúin þar sem ársdagsumferðin var yfir 1.000 ökutæki. Árið 2016 voru 16 einbreiðar brýr með ársdagsumferð yfir 1.000 bílar.

Fækkun einbreiðra brúa er og hefur verið áherslumál stjórnvalda enda um gríðar mikilvægt umferðaröryggismál að ræða. Verkefnið hefur gengið vel undanfarin ár og einbreiðum brúm fækkað hratt á Hringveginum. Árið 1990 voru einbreiðu brýrnar á Hringveginum hátt í 140 talsins. Þeim fækkaði hratt og voru orðnar um 60 í kringum 2006 og 39 árið 2016.

Árið 2019 voru byggðar sjö nýjar brýr í stað einbreiðra brúa á landinu öllu. Árið 2021 var lokið við fjórar brýr á Hringveginum og síðan þá hafa bæst við nýjar brýr yfir Jökulsá á Sólheimasandi og yfir Hverfisfljót.

Einbreiðar brýr á Hringveginum í dag eru því 30 talsins. Unnið er að byggingu nýrrar brúar yfir Núpsvötn og þegar framkvæmdum við Hringveg um Hornafjörð lýkur fækkar einbreiðum brúm um þrjár til viðbótar.

Brúargerð er fjárfrek og árangur í fækkun einbreiðra brúa takmarkast af þeim fjárhagsramma sem helgaður er samgöngum. Það er því til mikils að vinna að leita leiða til að auka hagræði í byggingu þeirra.

Í hvítbók um samgöngur sem birt var til samráðs í samráðsgátt fyrir rúmum mánuði síðan eru áform um að rýna hönnunarforsendur við uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á umferðarminni vegi. Markmiðið er að flýta fyrir fækkun malarvega.

Tækifæri gætu leynst í svipaðri rýni fyrir brýr, ekki síst minni brýr, þar sem kanna mætti hvort tækifæri eru í að draga úr kostnaði.

En verkefni okkar snúa ekki aðeins að breikkun brúa. Við þurfum jafnframt að endurnýja eldri brýr. Ein mikilvægasta samgönguframkvæmd næstu ára verður ný brú yfir Ölfusá en um löngu tímabæra framkvæmd er að ræða.

Gamla brúin er glæsileg, setur mikinn svip á Selfoss og hefur þjónað landsmönnum í áratugi samhliða því að standa af sér stóra jarðskjálfta. Umferðin um hana hefur hins vegar vaxið hratt undanfarin ár og nú er svo komið að hún annar henni ekki.

Útboðsferli nýju brúarinnar er nýhafið og stefnt er að því að ný Ölfusárbrú opni fyrir umferð 2026.

Góðir ráðstefnugestir. Fram undan í dag er áhugaverð dagskrá þar sem reifuð verða sjónarmið tengd brúargerð frá mörgum sjónarhornum. Ég vænti þess að ráðstefnan skili okkur góðu veganesti til að halda áfram á þeirri braut að byggja góðar og hagkvæmar brýr sem mæti þörfum samfélagsins til næstu framtíðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum