Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. september 2023 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2023

Ávarp á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 21. september 2023

Kæru gestir.

Ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur með þessum hætti í ár en vegna mjaðmaskiptaaðgerðar held ég mig enn á heimavelli en er óðum að ná fyrri styrk og fljótlega farið þið að sjá mig á vettvangi.

Fjármálaráðstefna er afar mikilvægur vettvangur fyrir allt sveitarstjórnarfólk. Hér gefst tækifæri til að bera saman bækur sínar, heyra af reynslu annarra og horfa til framtíðar – ekki síst er varðar fjármál sveitarfélaga. 

Sjálfbærni er lykilhugtak þegar kemur að fjármálum og það þurfum við öll að hafa í huga þegar við vélum um fjármál sveitarfélaga eða ríkissjóðs. Langtímasýn er mikilvægt og einnig vönduð áætlunargerð, þó vissulega geti tímabundin frávik og aðstæður sett strik í reikningana. 

Það á t.d. við einmitt núna þegar verðbólgan, landsins forni fjandi, hefur náð sér á strik og Seðlabankinn beitir sínum stjórntækjum fast, ekki síst vaxtahækkunartækinu. Við sjáum það í ársreikningum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga að þessar aðstæður eru krefjandi, það á líka við um heimilin og fyrirtækin í landinu. 

Því er mikilvægt að við tökum öll höndum saman og vinnum markvisst að því að ná verðbólgunni niður svo við getum komið okkur á betri stað hvað vaxtastigið varðar. 

Staða efnahagsmála og fjármál sveitarfélaga

Það er aðalviðfangsefni ríkisstjórnarinnar að ná niður vöxtum og verðbólgu. Frumvarp til fjárlaga er helgað því viðfangsefni þó svo að ríkisstjórnin sé samtímis einbeitt að varðveita og viðhalda þeirri félagslegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað á umliðnum árum, tryggja áframhaldandi uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, bæta velsæld íbúanna og verja mikilvæga grunninnviði. Frumvarpið ber vel með sér þessar áherslur, ábyrg fjármálastjórn en samfélagslegar farmfarir.

Fjármálaráðherra hefur farið yfir þessi atriði með ykkur í morgun og því ætla ég ekki að bæta fleiru við hér.

Mikilvægt er að sveitarfélög horfi til þessara áherslna einnig – ríkisstjórnin hefur lagst á sveif með Seðlabankanum að vinda ofan af verðbólgunni með umfangsmiklum aðhaldsaðgerðum. Dregið er úr opinberum útgjöldum þar sem hægt er, aukið aðhald er sett á stjórnsýsluna og verkefnum frestað. 

Sveitarfélögin þurfa að gera slíkt hið sama – velta við öllum steinum í sínu bókhaldi, verja grunnþjónustuna og kjaraverkefnin, en fórna því sem skiptir minna máli og hægt er að komast af með.

Samvinna og samlegð eru einnig lykilhugtök – getum við nýtt fjármuni betur með því að auka samvinnu og samlegð – svo ekki sé talað um sameiningu lítilla rekstrareininga.

Innviðaráðuneytið lýsir sig reiðubúið til að vinna náið með sveitarfélögunum að því að greina tækifæri til að auka aðhald í rekstri þeirra, bæta nýtingu tekjustofna og þróa meiri gæði við gerð langtímaáætlana. 

Legg ég til að slíkt samstarf verði rætt á vettvangi samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga – svokallaðri Jónsmessunefndar – sem eftir atvikum komi með tillögur um tilhögun á slíkri vinnu.

Samskipti við sveitarfélög – stefna í sveitarstjórnarmálum

Mikilvægt er að samstarf og samvinna sveitarfélaga sé góð, ekki síst á tímum sem þessum. 

Við áttum í mjög góðu samstarfi á tímum heimsfaraldursins, þar snérum við bökum saman og þannig tókst okkur að standa af okkur þá erfiðu tíma. Við gerðum sérstakar ráðstafanir gagnvart sveitarfélögum, m.a. að taka fjármálareglur sveitarfélaga úr sambandi, og nú er kominn tími til að virkja þær aftur. Það ættum við að geta gert ári fyrr en upphaflega stóð til, það væri alla vega skynsamlegt í mínum huga, og þá hægt að hugsa sér einhverja aðlögun gagnvart þeim sveitarfélögum sem verst standa.

Við fórum líka í margvísleg átök til að halda uppi starfsemi í landinu, t.d. á sviði samgöngumála.

Þetta sýnir að góð og hreinskiptin samskipti milli ríkis og sveitarfélaga eru mikilvæg og þau vil ég rækta sem sveitarstjórnarráðherra. 

Mótun stefnu fyrir sveitarstjórnarstigið er dæmi um góða afurð sem kemur út úr farsælu samstarfi okkar, en fljótlega mun ég flytja Alþingi tillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir næstu fimm ár.

Fyrsta stefna ríkisins í málefnum sveitarfélaga var samþykkt á Alþingi árið 2020. Þungi hennar fólst í því markmiði ríkisvaldsins að í engu sveitarfélagi byggju færri en 1.000 íbúar. Með því er í senn stuðlað að því að gera sveitarfélögunum betur kleift að sinna lögbundnum skyldum sínum, efla þau hvert og eitt og þar með sveitarstjórnarstigið í heild sinni.

Nú er komið að nýrri útgáfu og eru markmið stefnunnar skýr. Annars vegar að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi. Hins vegar að sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt ásamt því að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Stefnumörkuninni fylgir aðgerðaáætlun með 18 tölusettum aðgerðum til að vinna að þessum markmiðum. 

Helstu nýjungar nýrrar aðgerðaáætlunar felast annars vegar í áherslu á sjálfbærni og umhverfis- og loftslagsmál og hins vegar í útvíkkun aðgerðaáætlunarinnar inn á fagsvið annarra ráðuneyta í þágu ungra barna, fólks með fötlun og innflytjenda. Í samræmi við vilja samráðsaðila og í þéttu samstarfi við viðkomandi ráðuneyti geymir nýja aðgerðaáætlunin aðgerðir á sviði málaflokks fatlaðs fólks, barna og innflytjenda.

Ég vil leyfa mér að sjaldan eða aldrei hefur farið fram jafn víðtækt samráð um stefnumótun við sveitarstjórnir, íbúa og aðra hagsmunaaðila eins og við endurskoðun sveitarstjórnaráætlunarinnar. Fyrst ber að nefna að 35 sveitarfélög með 87% íbúa í landinu á bakvið sig svöruðu ítarlegum spurningarlista á sviði skipulags-, húsnæðis- og sveitarstjórnarmála um mitt ári 2022. Með sama hætti skráðu sig yfir 360 manns á rafrænar vinnustofur undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman síðasta haust.

Síðast en ekki síst fólst samráðið í viðhorfskönnun meðal 400 ungmenna á aldrinum 16 til 20 ára til málaflokka ráðuneytisins í byrjun þessa árs. Ótalið er hefðbundið opið samráð í gegnum samráðsgátt stjórnvalda um grænbók og drög að stefnuskjali í hvítbók. Í umsögnum um báðar skýrslurnar tókust á gagnrýnið viðhorf fulltrúa nokkurra fámenna sveitarfélaga gagnvart aðgerðum ríkisvaldsins til að stuðla að sameiningu sveitarfélaga og sjónarmið fulltrúa atvinnulífs og samtaka fatlað fólks um að ganga þurfi lengra í sameiningu sveitarfélaga.

Þannig að ég vænti þess að tillaga til þingsályktunar fái góðar viðtökur á hinu háa Alþingi.

Húsnæðismálin

Við myndun nýrrar ríkisstjórnar á haustmánuðum 2021 varð nokkur uppstokkun á ráðuneytum. Nýtt innviðaráðuneyti hefur sameinað undir einum hatti sveitarstjórnarmál, byggðamál, samgöngumál, skipulagsmál og húsnæðismál. Með þessari breytingu náðist betri sýn yfir það sem er að mínu mati mikilvægasta verkefni samtímans: Uppbyggingu húsnæðis í takti við þörf.

Þessi yfirsýn og ábyrgð er nauðsynleg svo hægt sé að vinna að krafti að því að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Ég lagði strax áherslu á það að ríki og sveitarfélög næðu sameiginlegri sýn á verkefnið og mokuðu ofan í skotgrafirnar en eins og við þekkjum öll hefur umræðan síðustu árin helst einkennst af því að hver bendir á hinn. Það er ekki gjöful aðferð til árangurs að skammast.

Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga sem hefur það yfirmarkmið að ná jafnvægi og auknu réttlæti á húsnæðismarkaði felur meðal annars í sér að á tíu árum skuli byggðar 35 þúsund nýjar íbúðir. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að verðbólgan og þeir háu vextir sem settir hafa verið til höfuðs hennar er okkur Þrándur í götu.

Fyrstu skrefin hafa verið stigin með verulegum stuðningi við byggingu nýrra íbúða fyrir tekju- og eignaminni með breytingum á hlutdeildarlánum og auknu fjármagni til stofnlána í almenna íbúðakerfinu. Þessi skref eru varfærin en gríðarlega mikilvæg fyrir viðkvæma hópa, en uppbygging húsnæðis fyrir tekju- og eignaminni er forgangsmál næstu ára.

Fyrsti samningur ríkisins við sveitarfélag var gerður við Reykjavíkurborg en fleiri samningar eru í farvatninu.

Þessi aukna samvinna ríkis og sveitarfélaga er gríðarlega þýðingarmikil svo hægt sé að ná jafnvægi og auknu réttlæti á þessum mikilvæga markaði. Aukið framboð á byggingarhæfum lóðum og markviss beiting þeirra verkfæra sem ríkið hefur byggt upp gefur góða von um að árangur náist í náinni framtíð. Í því sambandi má nefna að ég mun endurflytja mál á Alþingi nú í haust sem er ætlað að tryggja framboð hagkvæms húsnæðis með því að lögfesta heimild sveitarfélaga til að skilyrða notkun lands til uppbyggingar hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði, óháð eignarhaldi lóða.

Samgöngumálin

Á síðustu árum hefur ríkið fjárfest í samgöngum af meiri krafti en áður, ekki síst meðan heimsfaraldurinn heltók samfélagið. Við höfum séð gríðarlega uppbyggingu á Vestfjörðum, svæði sem setið hafði eftir um langt skeið. Miklar framfarir hafa orðið í uppbyggingu á umferðarþyngstu köflum hringvegarins út frá höfuðborgarsvæðinu eins og sést einna best á nýjum og glæsilegum vegi milli Hveragerðis og Selfoss. Síðast en ekki síst hefur uppbygging samkvæmt Samgöngusáttmálanum komist á skrið þótt hraði verkefna hefði mátt vera meiri. Frá þeim tíma sem samningurinn var gerður hafa nokkrar stórar framkvæmdir klárast og aðrar eru í framkvæmd. 

Samgöngusáttmálinn var undirritaður árið 2019 og markaði tímamót að því leyti að um langt árabil hafði verið frost í uppbyggingu stofnvegakerfis höfuðborgarsvæðisins. Samgöngusáttmálinn er sáttmáli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu stofnbrauta og innviða fyrir almenningssamgöngur. Endurskoðun sáttmálans hefur staðið yfir frá því síðasta vetur þar sem líkt og í öðrum samgönguverkefnum hafa kostnaðaráætlanir hækkað. 

Samgöngusáttmálinn er gríðarstórt verkefni. Enda vandinn sem blasir við íbúum höfuðborgarsvæðisins á hverjum degi. Það er augljóst að sá vandi verður ekki leystur með hókus pókus aðferðum. Verkefnið er stórt og umfangsmikið og það er kostnaðarsamt, líkt og aðrar samgönguframkvæmdir hringinn í kringum landið. Í sáttmálanum sem undirritaður var af samgönguráðherra, forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og öllum bæjarstjórum höfuðborgarsvæðisins og borgarstjóra var kostnaðarskiptingin nokkuð hagfelld sveitarstjórnarstiginu. Hluti af fjármögnuninni er breytt gjaldtaka af umferð, þar á meðal voru sérstök tafa- og umferðargjöld en þeirri vinnu hefur ekki miðað nógu vel áfram. Vinna sérstakrar verkefnastofu fjármálaráðuneytis og innviðaráðuneytis er nú komin á gott skrið.

Við getum ekki frestað vandanum heldur verðum við að horfast í augu við hann. Það kostar líka mikið að loka augunum og bíða eftir einhverjum óskilgreindum tæknilegum töfralausnum.

Víða um land eru áætluð samvinnuverkefni. Þeirra stærst er Sundabraut og er unnið hörðum höndum að undirbúningi hennar. Verið er að leggja nýjan veg um Hornafjarðarfljót og ný Ölfusárbrú hefur farið í forval sem er lokið. Þeir sem komast í gegnum forvalið geta tekið þátt í útboði sem fer af stað núna í september. 

En nýframkvæmdir eru ekki eina verkefni vegagerðar á Íslandi. Það eru fjölmargar áskoranir sem mæta okkur. Viðhald og þjónusta þurfa meira fjármagn og hefur sérstök aðgerðaáætlun verið rædd í ríkisstjórn.

Á vorþingi varð að lögum frumvarp mitt um sérstakt varaflugvallargjald sem mun gjörbreyta stöðu innanlandskerfisins. Uppbygging á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík verður með auknu fjármagni markvissari og tengir byggðirnar betur. 

Allt kallar þetta á samráð og samvinnu og treysti ég því að ég muni áfram eiga gott samstarf við sveitarstjórnarfólk um allt land.

Skipulagsmálin

Unnið hefur verið að endurskoðun landsskipulagsstefnu og hyggst ég leggja tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi síðar í haust. Lokafrágangur á hvítbók stendur yfir og fer hún í samráðsgáttina á næstu dögum Grænbók var til umsagnar í sumar og bárust margar góðar og gagnlegar ábendingar, m.a. og ekki síst frá sveitarfélögunum. Hvet ég ykkur til að skoða Hvítbókina vel – því hún er lokahnykkurinn áður en þingsályktunartillaga Landskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 verður lögð fyrir Alþingi.

Meðal lykiláskorana hvað varðar landsskipulagsstefnuna að mínu mati eru 

Í fyrsta lagi loftslagsbreytingar - sem fela í sér áskoranir í landnotkun og hinu byggða umhverfi og til að takast á við þær þarf að hafa til þess verkfæri og byggja á bestu fáanlegu gögnum hverju sinni.

Í öðru lagi jafnvægi í uppbygging húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi – en tryggja þarf fjölbreytt íbúðarframboð sem stuðlar að sjálfbærni og félagslegri samheldni með tilliti til efnahags. 

Í þriðja lagi uppbygging þjóðhagslegra mikilvægra innviða – sem eru forsenda fyrir þróun byggðar og kröftugu atvinnulífi. 

Í fjórða lagi landnotkun í dreifbýli – en land er takmörkuð auðlind og landbúnaðarland sem hentar vel til ræktunar matvæla og fóðurs er verðmætt.  

Í fimmta lagi er skipulag vindorkunýtingar nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum en í ríkisstjórnarsáttmála er lög áhersla á að vinduorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum til þess að tryggja örugga afhendingu orkunnar.

Og að lokum við ég nefna landnotkun á miðhálendi Íslands sem hefur verið nýtt sem almenningur um aldaskeið og er enn. Með vaxandi ferðaþjónustu er aukin ásókn á miðhálendið með vaxandi álagi. Aukið álag getur meðal annars falið í sér þörf fyrir uppbyggingu  innviða fyrir samgöngur og ferðaþjónustu en samhliða slíkri uppbyggingu þarf að gæta að sjálfbærri gróðurframvindu, tryggja vernd óbyggðra víðerna, mikilvægra landslagsheilda og náttúru miðhálendisins. 

Það verður áhugavert að fá álit ykkar – og við munum síðan fjalla ítarlega um þessa stefnumörkun á Skipulagsdeginum sem er fyrirhugaður snemma í október.

Málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Fyrir liggur frumvarp sem felur í sér heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, og er það afrakstur mikillar vinnu undangenginna ára. Með frumvarpinu er einnig lagt til að reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og starfsemi hans verði færð úr lögum um tekjustofna sveitarfélaga og að sett verði ný heildarlög um sjóðinn.

Aðaltillagan er nýtt líkan sem leysir tiltekin framlög Jöfnunarsjóðs af hólmi og sameinar það í eitt almennt jöfnunarframlag.

Hér er komin fram tillaga sem margir hafa kallað eftir lengi, fyrsta alvöru tillagan að því að ná settum markmiðum um 

  • einföldun og gagnsæi kerfisins,
  • og sanngjarnara kerfi – sem jafnaði betur stöðu sveitarfélaga með lægri tekjur í samanburði við sambærileg sveitarfélög, þannig að allir íbúar landsins fái notið samskonar þjónustu frá sínu sveitarfélagi, sama hvar þeir búa.

Allar breytingar eru umdeildar og þau sveitarfélög sem fá lægri tekjur í samkvæmt nýja líkaninu eiga erfitt með að sætta sig við það. Þau verða þó að hafa í huga að aðstæður geta breyst – líka til hins verra – og þá er gott að búa við sanngjarnara kerfi sem er næmara á slíkar breytingar og grípur sveitarfélögin betur en í núverandi kerfi.

Þá er rétt að innleiðing kerfisins fari fram á nokkrum árum svo einstök sveitarfélög eigi auðveldar með að aðlaga sig að breyttum veruleika.

Þá verður tekið tillit til sérstakra áskorana og byggðasjónarmiða – og hef ég lagt ríka áherslu á það að hægt verði að bregðast við skyndilegum áföllum í rekstri sveitarfélaga og eins að vinna með svæðum sem hafa veikan tekjugrundvöll en talsverða útgjaldaþörf er snýr að grunnþjónustu og megin skyldum þeirra.

Í frumvarpinu er nýtt ákvæði sem kveður á um að skerða skuli framlög til þeirra sveitarfélaga sem ekki fullnýta útsvarið sitt. Vissulega mjög umdeilt – en sanngirnismál.

Hér er tekið fyrir það að sjóðurinn – og þar með tekjulægri sveitarfélögin – niðurgreiði útsvar fyrir þau sveitarfélög sem kjósa að hafa útsvarið lægra en almennt gerist. 

Það er bara gott eitt um það að segja ef sveitarfélög geta haft álögur á íbúa í hófi og þurfa ekki að nýta sér tekjustofna sína að öllu leyti til að sinna þjónustu við þá, en það er hins vegar ekki eðlilegt að þau haldi fullum framlögum úr Jöfnunarsjóði á sama tíma.

Frumvarpið hefur nú verið sent Alþingi og á ég von á því að geta mælt fyrir því innan tíðar. Það er síðan Alþingis að taka endanlega ákvörðun um þetta fyrirkomulag – en ég vona að þar náist samstaða um þessar veigamiklu og tímabæru breytingar.

Það er ánægjulegt að segja frá því að útkoma Jöfnunarsjóðs sé góð. Ég sagði frá því í gær á ársfundi sjóðsins að ég hefði að tillögu ráðgjafanefndar tekið ákvörðun um að hækka útgjaldajöfnunarframlög ársins um einn milljarð króna. Það eru góð tíðindi.

Lokaorð

Góðir gestir.

Þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir eru margar og margvíslegum toga. Það eru alltaf tækifæri til umbóta. Stærsta verkefnið er þó baráttan við verðbólguna. Við verðum að taka höndum saman í þeirri baráttu og skapa hér að nýju umhverfi lágra vaxta. Við verðum að taka utan um viðkvæmustu hópana en skapa um breiðan grundvöll fyrir öfluga atvinnu land allt. Íslenskt samfélag hefur upplifað alls konar áföll og áskoranir á síðustu árum en okkur hefur alltaf auðnast að vinna okkur hratt út úr erfiðum aðstæðum. Við gefumst ekki upp. Við verðum að vinna saman að lausnum. Verðum að vinna saman að því að komast hratt út úr verðbólgunni. Með samvinnu eru okkur allir vegir færir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum