Hoppa yfir valmynd
04. júlí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tími til að lesa!

Nú styttist óðum í að stelpurnar okkar spili sinn fyrsta leik á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Bretlandi. Í tilefni af þátttöku Íslands á mótinu skipuleggur menningar- og viðskiptaráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið lestrarhvatningarherferðina Tími til að lesa sem ætluð er fyrir lesendur á grunnskólaaldri í sumar.

Hvatningin er skemmtileg og innblásin af þátttöku stelpnanna okkar á EM. Að þessu sinni snýst lestrarhvatningin um bæði lestur og sköpun. Börn og foreldrar gera með sér samning um ákveðinn mínútufjölda í lestri fyrir hvern leik og hvert mark sem stelpurnar okkar skora á EM. Þá geta krakkar einnig tekið þátt í að skapa og skrifa sögu til þess að senda inn – en sagan þarf að innihalda bolta. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni www.timitiladlesa.is.

Mikilvægi lesturs og lesskilnings er ótvírætt. Við höfum lagt á það ríka áherslu síðustu ár að bæta læsi, ekki síst hjá börnunum okkar. Orðaforði og lesskilningur eykst með auknum lestri og því er ómetanlegt fyrir börn að lesa, taka glósur og spyrja út í orð sem þau þekkja ekki. Orðaforði barna skiptir miklu máli fyrir vellíðan og árangur í skóla og býr þau undir virka þátttöku í samfélaginu. Með aukinni menntun eykst samkeppnishæfni þjóðarinnar og geta hennar til að standa undir eigin velferð.

Sumarið er tími samverunnar, útivistar og leikja en það er mikilvægt að minna á lesturinn líka. Það er staðreynd að ef barn les ekkert yfir sumartímann getur orðið allt að þriggja mánaða afturför á lestrarfærni þess í sumarfríinu. Góðu fréttirnar eru þó að það þarf ekki mikið til að börn viðhaldi færninni eða taki jafnvel framförum. Rannsóknir sýna að til þess að koma í veg fyrir þessa afturför dugar að lesa aðeins 4-5 bækur yfir sumarið eða lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn.

Tími til að lesa er ein leið til þess að hvetja börn til lesturs en gleymum því ekki að bestu fyrirmyndir barnanna þegar kemur að lestri eru foreldarnir. Það er vænlegra til árangurs ef fleiri taka sér bók í hönd á heimilinu en börnin. Sem fyrr læra þau það sem fyrir þeim er haft og þess vegna þurfum við öll að muna eftir því að lesa líka. Setjum lesturinn á dagskrá í sumar, samhliða því að hvetja stelpurnar okkar áfram í Bretlandi með ráðum og dáð.

Höfundur er menningarráðherra og varaformaður Framsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum