Hoppa yfir valmynd
01. desember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Orkumál eru fullveldismál

Það er hátíð í dag. Tilefnið er sjálft fullveldið, en við fögnum því að fyrir 104 árum var viðurkennt að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki og hefur því 1. desember sérstöðu í sögu og menningu okkar. Með sambandslögunum milli Íslands og Danmerkur, sem gildi tóku 1. desember 1918, urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar sem mörkuðu upphaf að samfelldri framfarasögu hennar.

Tímamót sem þessi gefa færi á að líta um öxl og til framtíðar, þakka fyrir það sem vel hefur tekist og hugleiða hvernig takast skuli á við áskoranir framtíðarinnar. Fullveldi þjóða er ekki sjálfsagður hlutur og verður ekki til af sjálfu sér. Það er drifið áfram af þrám og löngunum þjóða til þess að fara með stjórn á eigin málum; trúin á að með slíku fyrirkomulagi náist fram betra samfélag á forsendum þjóðfélagsþegnanna sjálfra.

Á undanförnum misserum höfum við verið minnt á það með óhugnanlegum hætti hversu brothætt fullveldi ríkja getur verið. Grimmileg innrás Rússa inn í hina frjálsu og fullvalda Úkraínu er skýrt dæmi um brot á fullveldi ríkis með skelfilegum afleiðingum. Ísland ásamt bandalagsþjóðum sínum mun áfram standa heilshugar með Úkraínu gegn þeirri ólöglegu innrás sem geisar í landinu.

Það sem stríðið í Úkraínu hefur meðal annars varpað ljósi á og vakið umræðu um eru öryggismál í víðu samhengi. Til að mynda orku- og fæðuöryggi sem er gríðarlega mikilvægt að huga að. Ég vil meina að hvert það nútímaþjóðfélag, sem ekki getur tryggt greiðan aðgang að fæðu og orku, geti teflt eiginlegu fullveldi í tvísýnu.

Íslendingar hafa borið gæfu til þess að byggja hér upp eitt öflugasta velferðarþjóðfélag heimsins sem hefur meðal annars grundvallast á sjálfbærri orkuöflun. Við eigum að halda áfram á þeirri braut að auka orkuöryggi sem mun leiða til enn meiri sjálfbærni hagkerfisins og treysta stöðu landsins sem fullvalda ríkis enn frekar. Sú staðreynd að raforkukerfi landsins er ekki tengt raforkukerfi Evrópu kemur sér sérstaklega vel í því árferði sem nú ríkir og bregður ljósi á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði í orkumálum. Það sjáum við til dæmis með því að líta á þróun raforkuverðs annars staðar á Norðurlöndum, sem hefur hækkað mikið. Ísland hefur alla möguleika á að ná fullu sjálfstæði í orkumálum með aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku til þess að standa undir rafvæðingu í samgöngum í lofti, á láði og legi. Þrátt fyrir allt það frábæra samstarf í alþjóðamálum, sem við tökum þátt í, er það gæfuspor fyrir þjóðina að vera ekki í Evrópusambandinu. Með fullu forræði á stjórn efnahags- og peningamála sem og orkumála hefur Íslendingum vegnað vel, eins og alþjóðlegur samanburður sýnir glögglega á ýmsum sviðum. Á þeirri braut skulum við halda áfram. Ég óska landsmönnum öllum til hamingju með fullveldisdaginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum