Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þjóðminjasafn í 160 ár

Um helgina verður haldið upp á 160 ára afmæli Þjóðminjasafns Íslands en safnið telst stofnað 24. febrúar 1863 þegar Jón Árnason, þá stiftsbókavörður, færði stiftsyfirvöldum bréf frá Helga Sigurðssyni á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi þess efnis að hann vilji gefa Íslandi 15 gripi með því fororði að þeir marki upphafið að safni íslenskra fornminja. Á þessum tíma hafði varðveisla á íslenskum gripum einkum farið fram í dönskum söfnum, því var vissulega um tímamót að ræða.

Í fyllingu tímans hefur safnið vaxið með þjóðinni og tekið breytingum. Þannig var safnið til að mynda yfirleitt nefnt Forngripasafnið fram til 1911 þegar það hlaut lögformlega nafnið Þjóðminjasafn Íslands, sem það hefur heitið allar götur síðan. Safnið hefur komið víða við og verið til húsa á ýmsum stöðum, má þar nefna Dómkirkjuna, gamla Tugthúsið við Skólavörðustíg, Alþingishúsið og Landsbankahúsið við Austurstræti þar til safnið fékk aðstöðu á lofti Landsbókasafnsins við Hverfisgötu árið 1908. Þar átti það eftir að vera til húsa í rúm 40 ár. Það var svo við lýðveldisstofnun árið 1944 að Alþingi Íslendinga ákvað að reisa Þjóðminjasafninu eigið hús við Suðurgötu í Reykjavík og flutti safnið þangað árið 1950.

Nýja húsnæðið markaði vatnaskil í starfsemi safnsins en með því gafst kostur á að útvíka starfsemi þess. Fram að þeim tímapunkti samanstóð safnkosturinn mestmegnis af jarðfundnum forngripum, kirkjugripum og listmunum frá fyrri öldum. Eftir flutningana á Suðurgötum gafst safninu kostur á að hefja einnig söfnun á almennum nytjahlutum sem ekki voru listgripir, svo sem verkfærum og búsáhöldum af ýmsu tagi sem endurspegluðu daglegt líf fólks hér á landi og tækniminjum síðar meir.

Árið 2004 var svo nýuppgert Þjóðminjasafn opnað á ný eftir gagngerar endurbætur á húsnæði safnsins við Suðurgötu, húsnæðið eins og við þekkjum það í dag.

Þjóðminjasafnið gegnir lykilhlutverki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðarinnar með því að annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á menningararfi þjóðarinnar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önnur minjasöfn. Á sama tíma hefur safnið aukið og miðlað þekkingu á menningararfi og sögu þjóðarinnar og gert hana aðgengilegri fyrir gesti og gangandi með áhugaverðum hætti. Í dag teygir starfsemi safnsins sig um allt land, meðal annars með Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands sem veitir innsýn í húsakost þjóðarinnar á seinni öldum og þróun húsagerðar. Það er enginn vafi í huga mér að við værum fátækari sem þjóð ef ekki hefði verið fyrir framsýni Helga og fleiri um að hefja söfnun forngripa fyrir 160 árum. Ég hvet því sem flesta til þess að leggja leið sína í Þjóðminjasafnið um helgina þar sem þessum merkisáfanga verður fagnað með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum