Hoppa yfir valmynd
04. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Alþjóðaviðskipti hagur allra þjóða og sérstaklega Íslands

Gervifótur í Beirút, sáraplástur í Washington DC, þorskur í Kína, Vök á Egilsstöðum og Sigurrós í San Jose. Allt eru þetta dæmi um íslenskan útflutning á heimsvísu. Kenningar Adams Smith og Davids Ricardo í alþjóðahagfræði um algjöra og hlutfallslega yfirburði þjóða frá 18. öldinni eiga enn við í dag. Allar útflutningsgreinar íslenska hagkerfisins hafa verið að sækja í sig veðrið á heimsmörkuðum, sem gerir okkur kleift að njóta fjölbreytts innflutnings. Hagur Íslands hefur alltaf verið að styðja við alþjóðaviðskipti og það heldur áfram að vera eitt okkar helsta hagsmunamál.

Hagsagan styður við hnattvæðingu …

Alþjóðaviðskipti eiga engu að síður undir högg að sækja um þessar mundir. Það er dapurleg þróun fyrir hagsæld þjóða. Hagsagan hefur kennt okkur að þegar viðskipti ríkja minnka, þá versna lífskjör. Tökum tvö dæmi úr hagsögunni. Fyrst ber að nefna þær skelfilegu hungursneyðir sem geisaðu í Evrópu bæði á 18. og 19. öldinni og ollu miklum fólksflutningum til Vesturheims. Þetta áfall á framboðshlið hagkerfisins leysti samt líka ýmsa krafta úr læðingi og gríðarleg nýsköpun og tækniumbylting átti sér stað í kjölfarið. Á þessu tímabili kemur gufuvélin fram, rafmagnið og miklar framfarir í öllum samgöngum. Í annan stað er það olíukreppan upp úr árinu 1970 en í framhaldi hennar fór af stað umfangsmikil nýsköpun í endurnýjanlegum orkugjöfum, líkt og virkjun á fallvötnum, þróun á vindmyllum, jarðvarmavirkjanir og beislun sólarorkunnar.

Þessir hagsögulegu atburðir eiga það sameiginlegt að mikil verðbólga kom í kjölfarið í báðum tilvikum, en ný tækni hafði góð áhrif á þann framboðsskort sem myndaðist og leiddi til aukinnar samvinnu þjóða og minnkandi verðbólgu. Þannig varð mikil verðbólguáskorun til þess að þjóðríki unnu betur saman með afar víðtækum hagrænum ávinningi.

... en horfurnar eru að versna og vísir að einangrunarhyggju að myndast

Hið þriðja skeið heimsviðskipta síðustu hundrað ára er hafið. Hið fyrsta er skilgreint frá 1945-1975 og einkennist af auknu viðskiptafrelsi meðal þróaðra hagkerfa og þeirra sem voru nátengd Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Lýsandi fyrir annað tímabilið, eða frá 1980 og eftir fall Sovétríkjanna, er enn meira viðskiptafrelsi og um heim allan. Tilkoma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar árið 1995 og innganga Kína árið 2001 mörkuðu þáttaskil í sögu þessa tímabils. Þriðja tímabilið sem gengið hefur í garð einkennist af meiri óróleika og óvissu í samskiptum þjóða. Ýmis teikn eru á lofti um þessar mundir og því miður er að hægjast á vexti heimsviðskipta. Tími alþjóðavæðingar eins og við þekkjum hana í dag virðist hafa mögulega runnið sitt skeið á enda. Hlutfall vöru- og þjónustuútflutnings á heimsvísu af vergri landsframleiðslu náði hámarki árið 2008 og hefur síðan þá farið lækkandi. Að mati Alþjóðabankans náði bein erlend fjárfesting hámarki árið 2007 þegar hún var 5,3 af hundraði af vergri landsframleiðslu heimsins og fór niður í 1,3 af hundraði árið 2020. Sjá mynd.

Bandaríkin hafa leitt heim hinna frjálsu viðskipta en virðast vera að snúa af þeirri braut. Síðasti áratugurinn í Bandaríkjunum hefur einkennst af auknum öfgum í pólitískri umræðu. Heiftugar deilur hafa verið milli demókrata og repúblikana um ríkisfjármál, jafnréttismál og frjáls viðskipti. Verkafólk í Bandaríkjunum hefur borið skarðan hlut frá borði vegna hnattvæðingar, sem hefur falist í því að mikið af bandarískum störfum hefur flust til ríkja þar sem launakostnaður var mun lægri. Raunlaun þessa hóps hefur að mestu staðið í stað meðan útgjöld vegna húsnæðis og menntunar hafa vaxið mikið. Þessi þróun hefur leitt af sér óþol gagnvart vaxandi hnattvæðingu í Bandaríkjunum. Stjórnmálin hafa því síðustu misseri einbeitt sér að því að flytja störf aftur heim. Tímabil sem hófst í forsetatíð Trumps og ríkisstjórn Bidens hefur ekki snúið af þeirri braut og stutt þessa stefnu með auknum fjárhagslegum stuðningi (IRA). Mun harðari innflytjendastefna var tekin upp og hefur sett þrýsting á vinnumarkaðinn, sem er að valda verðbólgu. Talið er að víða sé að myndast skortur á vinnuafli og því munu stýrivextir þurfa að vera hærri en ella hefði verið. Tvö stærstu hagkerfi heims, Kína og Bandaríkin, hafa orðið æ fjandsamlegri hvort í garð annars. Stjórnvöld beggja ríkja hafa markvisst unnið að því að gera efnahagskerfi sín minna háð hvort öðru. Á sama tíma eru önnur ríki heims í auknum mæli að grípa til verndaraðgerða í viðskiptum og er staðan sú að fimmfalt fleiri verndaraðgerðum hefur verið hrint í framkvæmd samanborið við aðgerðir sem miða að auknu frelsi í viðskiptum.

Staða Íslands í breyttri heimsmynd

Grunnurinn að mikilli velsæld Íslands eru alþjóðaviðskipti. Frá landnámi hafa alltaf verið stunduð umfangsmikil viðskipti að undanskildu einokunarverslunartímabilinu. Landfræðileg lega landsins hefur skipt höfuðmáli í því að búa til verðmæti í gegnum alþjóðaviðskipti. Færa má rök fyrir því að Íslandi hafi auðgast á tólftu og þrettándu öld á viðskiptum með vörur frá Grænlandi eins og fálkum, rostungstönnum og náhvalstönnum. Ásamt því voru handrit flutt út til Noregs og skapandi greinar voru því þegar farnar að skila miklum útflutningsverðmætum.

Stefna íslenskra stjórnvalda á ávallt að miða að því að styðja við aukna verðmætasköpun og tryggja greið alþjóðaviðskipti. Færa má fyrir því sannfærandi rök að mesta hnignunarskeið þjóðarinnar hafi hafist við siðaskipti 1550 þegar dönsk stjórnvöld fóru að þrengja að viðskiptum Íslands við þýska Hansakaupmenn og Breta með sjávarfang og bækur. Konungur Dana, Kristján IV., sá svo til þess að komið var í veg fyrir öll viðskipti við aðrar þjóðir en þau dönsku með einokunarversluninni árið 1602. Hagsæld minnkaði verulega í kjölfarið og ákveðið hnignunarskeið hófst sem ekki var undið ofan af fyrr en með fullveldi árið 1918 og síðan með fullu sjálfstæði árið 1944. Ísland hefur orðið alþjóðlegra með hverju árinu og eru þjóðartekjur á Íslandi einar þær hæstu í veröldinni og jöfnuður mikill. Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið hefur þjónað þjóðinni vel og aðild Íslands að öllum helstu alþjóðastofnunum sem styðja og greiða fyrir alþjóðaviðskiptum.

Blikur eru nú á lofti í tengslum við íslenskan flugiðnað vegna þess gjalds sem sett hefur verið á losunarheimildir frá flugi. Ljóst er að nauðsynlegt er að fá undanþágu frá þessu sökum landfræðilegrar legu landsins. Ísland hefur verið miðstöð tengiflugs í Norður-Atlantshafinu um áratuga skeið og því hafa fylgt gríðarlega góðar flugsamgöngur, sem hafa bæði þjónað íbúum landsins vel og flutningum á vöru og þjónustu. Ferðaþjónustan býr til mestar útflutningstekjur og nema þær rúmum 1,6 milljörðum króna á hverjum einasta degi. Það er augljóst að verði þessi gjörningur að veruleika þá mun það koma mjög illa niður á þjóðarbúinu en íslensk stjórnvöld vinna af fullum krafti við að tryggja farsæla niðurstöðu í málinu.

Í hverfulum heimi alþjóðaviðskipta stendur Ísland engu að síður traustum fótum og ég tel framtíð landsins bjarta. Við eigum að halda áfram að styðja við aukin alþjóðaviðskipti, verðmætasköpun og útflutning. Það mun tryggja stoðir okkar góða samfélags enn betur til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum