Hoppa yfir valmynd
07. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýr kafli í flugsögu Íslands

Mikill árangur hefur náðst í því að styðja við uppbyggingu beins millilandaflugs á landsbyggðinni. Líkt og greint var frá í fréttum nýverið verður metfjöldi erlendra áfangastaða í boði á landsbyggðinni í ár en hægt verður að fljúga beint frá Akureyri til Kaupmannahafnar, Düsseldorf, Tenerife, Alicante, Zürich og Frankfurt - sem einnig verður í boði frá Egilsstöðum.

Þetta er ánægjuleg þróun sem skiptir máli fyrir þjóðarbúið allt og staðfesting á því að stefna stjórnvalda sé að virka. Markvisst hefur verið unnið að því að styðja við uppbyggingu millilandaflugs á landsbyggðinni og opna þannig fleiri gáttir inn í landið. Flugþróunarsjóður var settur á laggirnar til þess að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Þá tók ég ákvörðun um að veita sérstaklega fjármunum til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til þess að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og setja aukinn slagkraft í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Samhliða þessu hafa stjórnvöld fjárfest í uppbyggingu fluginnviða á svæðunum, til að mynda stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, sem gerir flugvöllinn betur í stakk búinn til þess að þjónusta millilandaflug. Þá var einnig ráðist í endurbætur á Egilsstaðaflugvelli en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um að stækka flughlað og leggja akbrautir.

Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að opna fleiri gáttir inn í landið og nýta þau tækifæri sem því fylgja. Flugsaga Íslands er farsæl og sá árangur sem náðst hefur í að byggja upp greiðar og tíðar flugsamgöngur til og frá landinu hefur aukið samkeppnishæfni þess verulega. Það er til mikils að vinna að styðja við uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni. Beint millilandaflug virkar sem vítamínsprauta fyrir atvinnuþróun á Norður- og Austurlandi og eykur verulega möguleika á að styrkja ferðaþjónustu á svæðunum; lengja ferðatímabil erlendra ferðamanna og minnka árstíðasveiflur, stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið og skapa tækifæri til þess að nýta betur fjárfestingar í innviðum og afþreyingu í ferðaþjónustu en nú þekkist. Aukinheldur eykur þetta lífsgæði íbúanna á svæðunum sem geta nýtt sér þessar greiðari samgöngur – en hundruð tengiflugsmöguleika eru í boði frá þeim áfangastöðum sem flogið verður til.

Þessi jákvæða þróun skiptir miklu máli fyrir samfélagið allt og tryggja verður að hún verði viðvarandi. Með það fyrir augum hafa stjórnvöld ákveðið að festa Flugþróunarsjóð í sessi til þess að skapa hvata til áframhaldandi leiðarþróunar til Akureyrar og Egilsstaða. Ég bind vonir við að þessi nýi og spennandi kafli í flugsögu Íslands verði landinu gæfuríkur og skapi ný tækifæri fyrir land og þjóð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum