Hoppa yfir valmynd
25. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Íslenskan á öld gervigreindarinnar

Málefni gervigreindar hafa verið talsvert í þjóðfélagsumræðunni hér í landi í kjölfar þess að bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI, eða Opin gervigreind á íslensku, tilkynnti að tungumálið okkar hefði verið valið í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Þetta þýðir að við getum átt samræður við líkanið á íslensku og spurt það spjörunum úr um hin ýmsu málefni og fengið svör á íslensku. Þessi ákvörðun fyrirtækisins var mikil viðurkenning fyrir menningu okkar og þá miklu heimavinnu sem lagst hefur verið í hér á landi til að gera þetta mögulegt.

Nýverið ritaði Bill Gates, einn stofnenda Microsoft, grein þar sem hann fer yfir að öld gervigreindarinnar sé runnin upp og að tæknin eigi eftir að hafa miklar þjóðfélagsbreytingar í för með sér. Þannig rekur hann hvernig gervigreindin eigi eftir að breyta störfum fólks, námi, ferðalögum, heilbrigðisþjónustu og samskiptum svo dæmi séu tekin. Hann nefnir meðal annars að tilkoma gervigreindarinnar sé jafn byltingarkennd og tilkoma farsímans, alnetsins og einkatölvunnar.

Það skiptir máli að Ísland verði gerandi og taki virkan þátt í þróun og innleiðingu yfirstandandi tæknibreytinga til þess að bæta samfélagið en á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið stór og framsækin skref til þess að huga að þessum breytingum með einmitt það í huga. Má þar til að mynda nefna stefnu Íslands um gervigreind sem var unnin árið 2021 að beiðni forsætisráðherra. Þar var mótuð skýr framtíðarsýn um hvernig íslenskt samfélag geti unnið með gervigreind, öllum til hagsbóta. Í stefnunni er meðal annars farið yfir ýmsa snertifleti gervigreindar við íslenskt samfélag, til að mynda réttindi Íslendinga gagnvart nýrri tækni, þau gildi sem hafa þarf til hliðsjónar við innleiðingu hennar og hvernig leysa beri úr álitamálum henni tengdri.

Það skiptir höfuðmáli að mannfólkið stjórni tækninni en ekki öfugt. Eitt af þeim stóru atriðum sem Bill Gates ræðir meðal annars í grein sinni er mikilvægi þess að gervigreindin sé nýtt til góðs en ekki til illvirkja. Þar hefur hann svo sannarlega lög að mæla.

Segja má að eitt framsæknasta skref sem stjórnvöld hafa stigið í seinni tíð hafi verið að fjárfesta í mikilvægum innviðum á sviðum máltækni í gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda og undirbyggja þannig að íslenskan gæti orðið gjaldgeng í heimi tækninnar. Þannig var Ísland virkur gerandi í því að þróa tækni til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki hér á landi sem og erlendis og leggja sitt af mörkum til þess að auka notagildi gervigreindar á okkar eigin forsendum. Eftir þessu var meðal annars tekið þegar ég, ásamt forseta Íslands og sendinefnd, heimsóttum OpenAI í fyrra og töluðum máli íslenskunnar. Það er sannarlega ánægjulegt að sjá árangur vinnu undanfarinna ára skila sér með fyrrnefndum hætti. Við þurfum hins vegar að halda áfram að standa vaktina og tryggja að tæknin skili okkur bættum lífskjörum á okkar forsendum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum