Hoppa yfir valmynd
01. apríl 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Til varnar lýðræðinu

Fall Berlínarmúrsins er ein sterkasta minning mín úr æsku. Ég man það eins og í gær þegar hundruð Austur-Þjóðverja þyrptust að táknmynd einræðisins og Berlínarmúrinn var mölvaður niður. Ég sat með pabba og horfði á þennan sögulega viðburð í beinni útsendingu og geðshræringin var mikil. Sovétríkin voru fallin og með þeim þeir einræðisstjórnarhættir sem ráðið höfðu ríkjum handan járntjaldsins. Fólkið braust út úr fjötrum hræðilegs stjórnarfars, sem elur ekkert af sér annað en ótta og kúgun. Ekki bjóst ég við því að um rúmum aldarfjórðungi síðar væri Evrópa að fást við fasisma í túnfæti sínum.

Rætur einræðis

„Einræðishyggja er ekki pólitísk hugmyndafræði heldur aðferð til hrifsa til sín völd og halda þeim,“ þannig skilgreindi fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og prófessorinn Madeleine Albright viðfangsefnið. Þessi pólitíska aðferðafræði er að vísu leyti fremur óljós en hefur verið beitt bæði af stjórnmálamönnum lengst til hægri og vinstri. Uppsprettu einræðishyggju má oft rekja til óánægju eða reiði almennings, hvort heldur vegna tapaðs stríðs, glataðra landsvæða, atvinnumissis eða einhverrar blöndu þessara þátta. Þekktustu leiðtogar einræðishyggju hafa oft búið yfir ákveðum persónutöfrum sem gera þeim kleift að tengjast fjöldanum tilfinningaböndum, breyta reiði almennings í huglæga samstöðu og tilgang. Ásamt því hafa leiðtogar þeirra lagt ofurvald á að hafa stjórn á upplýsingum í ríkjum sínum. Hvort heldur með umfangsmiklum áróðri, upplýsingaóreiðu eða falsfréttum. Markmiðið er í raun að bæla frjálsa hugsun.

Hrikalegar afleiðingar einræðishyggju 20. aldarinnar
Sagan hefur sýnt okkur að fasistar komast sjaldnast til valda með valdaránstilraun heldur taka þeir eitt skref í einu og fylgja oft leikreglum lýðræðisins. Eftir misheppnað valdarán í Bæjaralandi árið 1923 í suðurhluta Þýskalands einbeitti Nasistaflokkurinn sér að því að komast löglegu leiðina að völdum en tók þátt í kosningasvindli sem leiddi að lokum til þess að Adolf Hitler var skipaður kanslari. Í kjölfarið réðst hann gegn stofnunum ríkisins, ógnaði pólitískum andstæðingum og kom á alræðisstjórn. Ítalía var undir fasískri stjórn í rúma tvo áratugi, þar sem Benito Mussolini réð ríkjum. Afleiðingar stjórnarfarsins í Þýskalandi og Ítalíu voru hrikalegar. Þýskaland hóf seinni heimsstyrjöldina og þegar yfir lauk er talið að um 80 milljónir manna hafi látist í átökunum, sem náðu alla leið til Asíu, og þar af að minnsta kosti sex milljónir Gyðinga og aðrir minnihlutahópar sem voru skipulega myrtir í helförinni.

Lýðræði er farsælasta stjórnarfarið en stuðningur minnkar

Lýðræði er hornsteinn farsældar í vestrænum samfélögum. Stjórnarfyrirkomulagið er ekki gallalaust. Hins vegar hefur ekkert stjórnarfar reynst betra enda byggist það á skýrum lögum, frelsi einstaklinga til athafna og tjáningar, valddreifingu og sjálfstæðum dómstólum ásamt reglubundnum kosningum. Þessi grundvallaratriði stjórnarfars hafa skapað mikil auðæfi og velsæld í þeim samfélögum sem hafa virt og hlúð að lýðræðinu. Staða lýðræðis á heimsvísu er þó brothætt. Mikil eftirvænting og bjartsýni greip um sig við fall Berlínarmúrsins og þá tilfinningu að lýðræði væri að ná yfirhöndinni. Því miður er vaxandi skoðun að annað stjórnarfar en lýðræði geti búið til betri lífskjör. Lýðræðisvísir tímaritsins „The Economist“, sem fylgist með lýðræði um allan heim og byggir á mælikvörðum á borð við virðingu fyrir réttri málsmeðferð og trúfrelsi, gefur til kynna að heilsu lýðræðis hafi farið hrakandi í 70 löndum frá árinu 2017. Samhliða því hafa skoðanakannanir sýnt að þótt flestir trúi á fulltrúalýðræði telur einn af hverjum fjórum jákvætt að leyfa leiðtoga að stjórna án aðkomu þings eða dómskerfis. Einn af hverjum fimm er hlynntur herstjórn. Að sama skapi kom fram í nýjustu greiningu Lýðræðis margbreytileikans að um 72% íbúa heimsins búa við einræði, samanborið við 50% fyrir áratug. Í fyrsta sinn í meira en tvo áratugi eru fleiri einræðisríkisstjórnir en lýðræðisríkisstjórnir.

Orsakir dvínandi tiltrúar á lýðræði á 21. öldinni

Það er öfugsnúið að eina skýringu á þessari þróun í samtímanum má rekja til þeirra umfangsmiklu tækniframfara sem við njótum á hverjum degi. Segja má að sjaldan hafi einstaklingurinn upplifað eins miklar framfarir á jafn skömmum tíma. Gervigreindin, sem tröllríður öllu um þessar mundir, er einnig spennandi en margar áskoranir munu fylgja þessum breytingum sem hún hefur í för með sér. Það er þó einkum tvennt sem fylgir þessu tækniumbreytingaskeiði sem minnkar tiltrúna á lýðræðið. Í fyrsta lagi þróunin á vinnumarkaðnum. Mikil tilfærsla er að eiga sér stað í hagkerfinu með nýrri tækni. Hefðbundin störf líkt og í fjármálafyrirtækjum, leigubílstjórar, prentarar og fleiri hafa upplifað að störfin séu úrelt eða miklar breytingar á starfsumhverfi sínu í fjórðu iðnbyltingunni. Þessi þróun er ekki ný af nálinni og ekki svo ólík þeirri sem var uppi í kjölfar iðnaðar- og tæknibyltinga á fyrri tímum. Í sumum ríkjum í Evrópu er eitt af hverjum fjórum ungmennum án atvinnu og hlutfallið er enn hærra hjá innflytjendum. Það er því skiljanlegt að efi geti farið að myndast gagnvart lýðræðinu, sem virðist ekki finna þessum einstaklingum stað í tilverunni. Í öðru lagi mikið magn af upplýsingaóreiðu og falsfréttum og verri staða ritstýrðra fjölmiðla. Þessi fyrirbæri eru þó ekki ný af nálinni. Frægt er í sjálfstæðisstríði Bandaríkjanna, þegar sjálfur Benjamín Franklín notaði prentvélina til að dreifa „falsfréttum“ um voðaverk Breta. Í þá daga var það mikil fyrirhöfn að koma slíkum sögum af stað og náði til takmarkaðs fjölda. Annað dæmi er hvernig nasistar í Þýskalandi gáfu hverju heimili útvarp til að breiða út áróður. Á öld samfélagsmiðla er staðan hins vegar allt önnur. Í dag er auðvelt og ódýrt að dreifa „falsfréttum“ til breiðs hóps einstaklinga. Nánast ómögulegt er að átta sig á því hvort fréttir á Facebook komi frá ábyrgum blaðamanni, áhrifavaldi, erlendri ríkisstjórn eða er framleidd af gervigreind. Sambland efnahagslegrar óvissu og skorts á úrræðum í þeim efnum frá lýðræðislega kjörnum stjórnmálamönnum getur verið gróðrarstía fyrir fasisma. Efnahagslegur og pólitískur óstöðugleiki óx í framhaldi af fjármálakreppunni 2008. Aukin óánægja hefur þó víða kraumað undir frá því fyrir aldamót þar sem ýtt hefur verið undir þá skoðun að hnattvæðing hafi leitt til aukins efnahagslegs ójafnaðar og flutnings á hefðbundnum störfum. Slíkar skoðanir hafa víða kynt undir gremju og óánægju.

Hlutverk fjölmiðla stórt í lýðræðislegri umræðu

Frjálsir fjölmiðlar veita stjórnvöldum, stofnunum og atvinnulífinu nauðsynlegt aðhald. Án traustra og óhlutdrægra fjölmiðla minnka líkurnar á að framkvæmd lýðræðislegra kosninga sé traust og þá dregur jafnframt úr pólitískri ábyrgð. Tekjuöflun þeirra hefur átt verulega undir högg að sækja vegna samfélagsmiðla og stórra efnisveitna, þar sem auglýsingatekjur hafa í vaxandi mæli farið til þessara fyrirtækja. Að mínu mati eru bergmálshellar samtímans og algrímar ekki til þess fallnir að styðja við lýðræðislega umræðu.

Til að styðja við frjálsa fjölmiðla á Íslandi er unnið að nýrri fjölmiðlastefnu til ársins 2030 sem ætlað er að styrkja og styðja við rekstrarumhverfi fjölmiðla. Frumvarp um rekstrarstyrki til fjölmiðla liggur fyrir Alþingi og gert er ráð fyrir auknum stuðningi í formi skattalegra ívilnana í nýrri ríkisfjármálaáætlun, sem nemur tæpum 2 mö. kr. á tímabilinu. Auk þess sem unnið verður að því að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði. Köld rökvísi segir okkur að núverandi staða á fjölmiðlum er ekki sjálfbær.

Lokaorð

Tíu vikum eftir dauða Franklins Roosevelts og tæpum tveimur mánuðum eftir uppgjöf Þjóðverja flaug Harry Truman forseti Bandaríkjanna til San Francisco til að ávarpa fulltrúa hinna nýstofnuðu Sameinuðu þjóða. Ræða hans einkenndist af mikilli bjartsýni og vonarneista um bjartari tíma en að sama skapi hafði hann uppi sterk varnaðarorð: „Einræðishyggja dó ekki með Mussolini“ varaði hann við og hann hélt áfram: „Hitler kann að vera dauður, en fræin sem hans sjúki heili sáði náðu því miður fótfestu í hugum of margra. Staðreyndin er sú að auðveldara er að losa sig við harðstjóra og eyðileggja fangabúðir heldur en að drepa hugmyndirnar sem urðu kveikjan að þeim.“ Harry Truman var einkum að vísa til þeirrar hugmyndafræði að eigin þjóð byggi yfir eiginleikum og réttindum umfram alla aðra. Seinni heimsstyrjöldin var hugmyndafræðilegt stríð, þar sem lýðræðisöflin börðust við fasista. Næsta stríð sem háð var, kalda stríðið, var einnig stríð hugmynda, þ.e. lýðræði gegn kommúnisma. Þriðja hugmyndafræðilega stríðið er hafið með innrás Rússa í Úkraínu.

Það kemur óþægilega á óvart að sjá uppgang fasískrar hugmyndafræði og hreyfinga á 21. öldinni í ljósi þeirra hörmulegu afleiðinga sem slíkar stjórnir höfðu á 20 öldinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum