Hoppa yfir valmynd
04. apríl 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Viðspyrna gegn verðbólgu

Það er afar jákvætt að vextir á ríkisskuldabréfum hafi lækkað verulega í kjölfar aukins taumhalds peningastefnu samhliða nýrri ríkisfjármálaáætlun. Tiltrú fjárfesta á aðgerðum stjórnvalda er að aukast. Aðhald og skýr forgangsröðun er meginstef í nýkynntri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ásamt því að styðja við brýn verkefni og standa vörð um almannaþjónustuna. Ríkisfjármálin þurfa að vinna með peningastefnu Seðlabankans til að ná jafnvægi í efnahagslífinu og ná verðbólgunni niður. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára sýnir þá stefnu stjórnvalda að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti til að ná niður verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda.

Á sama tíma er lögð áhersla á að verja grunnþjónustuna, styðja áfram við viðkvæma hópa og vernda lífskjör almennings. Skuldahlutföll ríkissjóðs lækka á tímabilinu og afkoma batnar. Lagður verður á 1% tímabundinn viðbótarskattur á lögaðila á árinu 2024 til að sporna gegn þenslu. Auk þess er gert ráð fyrir auknum tekjum af ferðaþjónustu með skattlagningu á skemmtiferðaskip sambærilegri við gistináttagjald sem og auknum tekjum af fiskeldi og sjávarútvegi ásamt breytingum á skattlagningu ökutækja og eldsneytis.

Á umliðnum árum hefur verið fjárfest myndarlega í ýmsum málaflokkum á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem hefur skilað sér í betra samfélagi og staðinn verður vörður um. Í nýkynntri fjármálaáætlun er að finna ýmsar áherslur komandi ára í þeim málaflokkum. Má þar nefna hið mjög svo brýna verkefni að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla með skattalegum stuðningi til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði í samræmi við stjórnarsáttmála. Með nýjum aðgerðum viljum við skapa hvata og auka samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

Stefnt er að því að leggja fram nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 á haustþingi 2023. Áfram verður lögð áhersla á öflun áreiðanlegra gagna og innviðauppbyggingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið.

Þá er gert ráð fyrir að 50 m.kr. verði varið í að auka aðgengi að túlkaþjónustu til að auka lífsgæði heyrnarskertra og heyrnarlausra. Lögð verður fram tillaga til þingsályktunar um íslenskt táknmál og aðgerðaáætlun vegna hennar. Barnamenningarsjóður verður festur í sessi með 100 m.kr. árlegu framlagi ásamt verkefninu List fyrir alla og aukinn þungi verður settur í neytendavernd og unnið að heildarstefnumótun sem áætlað er að ljúki fyrir árslok 2024.

Starfsumhverfi listamanna og umgjörð starfslauna listamanna verður bætt á tímabilinu. Á undanförnum misserum hefur verið unnið að tillögum í þá veru og nú er komið að því að hrinda fyrsta fasa þeirra í framkvæmd. Markmið stjórnvalda er að starfslauna- og verkefnasjóðir tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar, stuðli að meiri fjölbreytni í úthlutunum, auknu og jöfnu aðgengi mismunandi listgreina og raunsærri viðmiðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum