Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Mikilvægi Eddu

Íslenska þjóðin er bókaþjóð og eru bókmenntir samofnar sögu okkar og tungumáli. Við vorum einmitt minnt á það í liðinni viku þegar Hús íslenskunnar var vígt með formlegum hætti og því gefið hið fallega nafn Edda. Í Eddu verða handritin, okkar merkasti menningararfur og framlag til heimsbókmennta, geymd. Handritin og sá vitnisburður sem þau hafa að geyma um fræðastarf, myndlistar- og menningarsögu, trúmál, sagnaarf og ýmis hugðarefni fólks á þessum fyrri tímum í sögu þjóðarinnar eru stórmerkileg. Sú staðreynd að öll handritin í safni Árna Magnússonar séu á varðveisluskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir Minni heimsins undirstrikar menningarlegt mikilvægi þeirra á heimsvísu.

Þetta er staðreynd sem við getum verið stolt af. Okkur ber að auka veg og virðingu menningararfsins enn frekar, að sýna handritin, ræða þau, rannsaka og miðla til komandi kynslóða. Um 700 handrit eru í vörslu á söfnum í Danmörku, en sáttmáli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Danmerkur. Ég tel að fleiri íslensk handrit eigi að koma til Íslands frá Danmörku og hef unnið að auknu samstarfi ríkjanna á þessu sviði. Þannig mun Árnasafn við Kaupmannahafnarháskóla taka þátt í nýrri handritasýningu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum með langtímaláni á handritum. Þá munu löndin tvö efna til átaks til að styrkja rannsóknir, stafræna endurgerð og miðlun á fornum íslenskum handritum með sérstakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.

Með Eddu – Húsi íslenskunnar munu skapast tækifæri til þess að lyfta menningararfi okkar enn frekar en byggingin mun hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum: tungu, bókmenntum og sögu. Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum sem færa handritin til almennings, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.

Það var orðið löngu tímabært að verðugt hús yrði reist til að varðveita handritin okkar og sýna þeim þá virðingu sem þau eiga skilið. Húsið hefur fengið frábærar viðtökur, þannig lögðu milli tólf og fjórtán þúsund manns leið sína á opið hús í Eddu á sumardaginn fyrsta til að virða fyrir sér þetta nýja heimili íslenskra bókmennta og langþráð lögheimili íslenskrar tungu. Með þeirri glæsilegu aðstöðu sem fyrirfinnst í Eddu erum við betur í stakk búin til þess að taka við fleiri handritum heim til Íslands og sinna menningararfi okkar enn betur til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum