Hoppa yfir valmynd
17. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lýðveldið og framtíðin

Það var framsýnt og þýðingarmikið skref sem Alþingi Íslendinga steig fyrir 79 árum, þegar tekin var ákvörðun um stofnun lýðveldisins Íslands. Þar með lauk baráttu þjóðarinnar fyrir fullu frelsi og nýr kafli í sögu hennar hófst. Það er enn rík ástæða til þess að fagna þessum tímamótum. Við fögnum þessum áfanga í dag en hverjum þjóðhátíðardegi má líkja við vörðu á vegferð frelsis og framfara til þess að gera íslenskt þjóðfélag betra í dag en það var í gær.

Saga framfara

Sumum þótti það svaðilför og fjarstæðukennt á sínum tíma að þjóð sem taldi innan við 130 þúsund manns í svo stóru og víðfeðmu landi gæti dafnað og vaxið sem sjálfstæð þjóð. Þegar litið er yfir tímabilið frá lýðveldistöku þá er niðurstaðan skýr og ótvíræð. Íslendingum hefur farnast vel við að reisa þróttmikið og öflugt samfélag sem þykir einkar farsælt til búsetu. Allar götur frá lýðveldisstofnun hafa alþjóðatengingar verið sterkar og þjóðartekjur á hvern íbúa eru með þeim mestu í veröldinni og lífskjör mjög góð í alþjóðlegum samanburði. Staða Íslands er sterk í sögulegu samhengi þegar flestir velsældarmælikvarðar eru kannaðir og skapandi greinar blómastra. Slíkur árangur er ekki sjálfgefinn heldur liggur að baki þrotlaus vinna kynslóðanna sem byggt hefur landið.

Ábyrgð stjórnmálanna

Stjórnmálamönnum hvers tíma er falin mikil ábyrgð að halda á því fjöreggi sem stjórn landsins er. Hermann Jónasson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, komst vel að orði í blaðagrein sinni Lýðveldið og framtíðin í 17. júní útgáfu Tímans árið 1944. Þar ritar Hermann; „Í stað baráttunnar fyrir því að öðlast sjálfstæðið, hefst ný barátta því til varnar. Það er sá þáttur, sem nú er að hefjast. Það verður meginhlutverk okkar, er nú lifum, – að tryggja hinu fengna frelsi öruggan, efnalegan og menningarlegan grundvöll og skila því síðan óskertu til óborinna kynslóða“. Þetta eru orð að sönnu sem ávallt eiga erindi við stjórnmálin. Að undanförnu höfum við verið minnt á að frjáls samfélagsgerð er ekki sjálfgefin, meðal annars með ófyrirleitinni og ólöglegri innrás Rússlands í Úkraínu. Árásin vekur upp ófriðardrauga fortíðar frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og kalda stríðsins. Þessi ógnvekjandi atburðarás alþjóðamálanna hefur sýnt enn frekar fram á mikilvægi breiðrar samvinnu þjóða til að rækta þau grunngildi sem mestu máli skipta: Frelsi, lýðræði og mannréttindi.

Aðalsmerki þjóðarinnar

Tveir af hornsteinum lýðræðissamfélagsins eru frjálsar kosningar og öflugir fjölmiðlar. Það er engum vafa undirorpið að öflugir fjölmiðlar skiptu sköpum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Miðlun frétta á þjóðtungunni okkar, íslensku, var ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og að sjálfstæðiskröfur okkar væru réttmætar. Vék Hermann Jónasson einnig að þessu í fyrrnefndri þjóðhátíðarútgáfu Tímans árið 1944: „Eitt er víst. Blaðakostur á Íslandi er tiltölulega sterkur. Hann mótar móðurmálið okkar, sem er aðalsmerki þjóðarinnar og grundvallarréttur hennar til sjálfstæðis. Það eru og blöðin sem ráða langmestu um góðvilja milli manna og flokka. Blöðin ráða miklu um það, hvaða stefnu áhugamál almennings taka. Þau hafa eins, eins og nú er komið, mikil áhrif á hugsanir alls almennings, móta þær eða setja á þær sinn blæ viðkomandi mönnum og málefnum. Þau eru skóli og uppeldisstofnun þjóðar – góður eða vondur.“ Það er áhugavert að lesa þessi orð Hermanns, 79 árum eftir að hann ritaði þau, og heimfæra upp á samtímann þar sem örar tæknibreytingar, eins og í gervigreind, hafa leitt af sér stórar áskoranir fyrir fjölmiðla hér á landi sem og tungumálið okkar.

Stærsta samvinnuverkefni okkar kynslóða

Það er mikilvægt fyrir grundvöll lýðræðisins að takast á við slíkar áskoranir af festu. Hermann Jónasson gerði sér grein fyrir nauðsyn þess að sjá fyrir hættur og takast á við þær frá fyrsta degi. Með það fyrir augum ritaði hann eftirfarandi: „Það er ekki vandalaust svo fámennri þjóð að vernda sjálfstæði sitt og lifa menningarlífi sem sjálfstæð þjóð. Þessum vanda viljum við gera okkur grein fyrir þegar í upphafi. Hætturnar hverfa því aðeins að menn sjái þær nógu snemma til að afstýra þeim.“ Í þessum anda hafa þýðingarmikil skref verið tekin á undanförnum árum til þess að styðja við ritstýrða einkarekna fjölmiðla til þess að gera þá betur í stakk búna til þess að takast á við hið breytta landslag, sinna lýðræðislegu hlutverki sínu og miðla efni á íslenskri tungu. Fjölmiðlastefna og aðgerðir henni tengdar verða kynntar í haust. Að sama skapi hefur íslensk tunga verið sett í öndvegi með margháttuðum aðgerðum til þess að snúa vörn í sókn í hennar nafni, meðal annars með máltækniáætlun stjórnvalda sem stuðlar að því að íslenskan verði gerð gjaldgeng í heimi tækninnar. Viðhald og vöxtur íslenskunnar er umfangsmikið verkefni sem er mikilvægt að heppnist vel. Ljóst er að það er ekki á færi örfárra einstaklinga að vinna slíkt verk, heldur er um að ræða helsta samvinnuverkefni okkar kynslóða. Það er mikilvægt að vel takist til enda geymir íslensk tunga sjálfsmynd okkar sem þjóðar og er undirstaða lýðræðislegrar umræðu hér á landi.

Lærdómar forfeðranna

Tilkoma lýðveldisins fyrir 79 árum síðan var heilladrjúgt skref og aflvaki framfara. Sú staðreynd, að við getum fjölmennt í hátíðarskapi til þess að fagna þessum merka áfanga í sögu þjóðarinnar, er ekki sjálfsögð. Það baráttuþrek, sú þrautseigja og bjartsýni á framtíð Íslands, sem endurspeglaðist í orðum og gjörðum forfeðra okkar í sjálfstæðisbaráttunni, geymir mikilvæga lærdóma. Þar voru öflugir fjölmiðlarnir og þjóðtungan í lykilhlutverki. Með samvinnuna að leiðarljósi ætlum við í Framsókn að halda áfram að leggja okkar af mörkum til þess að treysta stoðir Íslands, líkt og flokkurinn hefur gert í tæp 107 ár, enda skiptir lýðveldið og framtíðin okkur öll miklu máli. Við óskum landsmönnum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum