Hoppa yfir valmynd
08. ágúst 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 markaði ákveðin vatnaskil fyrir íslenska ferðaþjónustu. Með þessu útspili sínu kom móðir náttúra landinu rækilega á kort erlendra fréttamiðla um langt skeið með tilheyrandi auknum áhuga á að ferðast til landsins. Þannig óx fjöldi ferðamanna úr tæplega 500 þúsund árið 2010 í rúmar 2,3 milljónir árið 2018 þegar mest var.

Samhliða þessu hefur hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu vaxið mjög en árið 2022 nam hann 7,8% og útgjöld erlendra ferðamanna námu 390,4 milljörðum króna. Áætlað er að rúmlega 18 þúsund einstaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu hér á landi í fyrra og síðustu fjóra ársfjórðunga skilaði greinin 411 milljörðum króna í útflutningstekjur eða tæpum fjórðungi heildarútflutningstekna þjóðarbúsins. Það gerir greinina stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins, með tilheyrandi stuðningi við gengi krónunnar og styrkari óskuldsettum gjaldeyrisforða fyrir þjóðarbúið. Þetta skiptir miklu máli fyrir Ísland.

Það hefur hins vegar engum dulist að vöxtur sem þessi reynir á ýmsa þætti samfélagsins og öllum ljóst að Ísland getur ekki tekið við endalausum fjölda ferðamanna á hverju ári. Í embætti mínu sem ferðamálaráðherra finn ég sameiginlegan skilning á þessu sjónarmiði innan ferðaþjónustunnar. Það er í lagi að vera uppseldur áfangastaður og að færri komist að en vilja. Frá árinu 2010 hefur mikið vatn runnið til sjávar þegar kemur að ferðaþjónustunni. Geta landsins til að taka á móti erlendum ferðamönnum hefur batnað verulega og mikilvæg reynsla og þekking hefur byggst upp í greininni. Fjárfest hefur verið af miklum metnaði hringinn í kringum landið í uppbyggingu áfangastaða og innviða, úrval af afþreyingu og ýmiss konar þjónustu hefur stóraukist, atvinnulíf og búsetuskilyrði batnað um allt land á sama tíma og hingað koma verðmætari ferðamenn. Mælingar sýna að ánægja erlendra ferðamanna með Ísland sem áfangastað er mikil í erlendum samanburði. Það er vitnisburður um að íslensk ferðaþjónusta sé á heimsmælikvarða.

Í uppgangi og velgengni sem þessari er hins vegar mikilvægt að sofna ekki á verðinum, að týna ekki sjálfum sér; að huga að mörkum. Það er óbilandi skoðun mín að liður í því að Ísland haldi sjarma sínum sé að við stöndum með sérkennum lands og þjóðar, þar með talið tungumálinu. Ég tel til að mynda að allar merkingar eigi að vera fyrst á íslensku, og svo á öðru tungumáli, hvort sem það er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða annars staðar. Fyrir dyrum stendur að gera íslenskuna miklu sýnilegri en hún hefur verið með samstarfi við ferðaþjónustuna og atvinnulífið. Tekin verða mun ákveðnari skref til þess að gera íslenskunni hærra undir höfði. Þetta og meira til verður einmitt undir í mótun nýrrar aðgerðaáætlunar á sviði ferðamála á grunni sem unnið er að. Það er framtíðarsýn mín að íslensk ferðaþjónusta eigi að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis; öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum