Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýr tónn sleg­inn með nýrri miðstöð

Tíma­mót urðu fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf í vik­unni þegar ný Tón­list­armiðstöð var form­lega stofnuð. Stofnaðilar henn­ar eru menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið f.h. rík­is­sjóðs, STEF, Fé­lag hljóm­plötu­fram­leiðenda, Fé­lag ís­lenskra hljómlist­ar­manna, Fé­lag kenn­ara og stjórn­enda í tón­list­ar­skól­um og Tón­skálda­fé­lag Íslands.

Hlut­verk Tón­list­armiðstöðvar er fjöl­breytt en mun hún bæði sinna fræðslu og stuðningi við tón­listar­fólk og tón­list­artengd fyr­ir­tæki, styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar­ins, kynna ís­lenska tónlist og tón­listar­fólk á er­lendri grundu og vera nótna­veita fyr­ir ís­lensk tón­verk. Tón­list­armiðstöð mun styðja við upp­bygg­ingu sprota og hlúa að ferli lista­fólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjöl­breytni og grósku og að starfs­um­hverfið verði nú­tíma­legt og hvetj­andi fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf. Með til­komu miðstöðvar­inn­ar mun tón­list­ar­lífið eign­ast sína eig­in kynn­ing­armiðstöð líkt og aðrar list­grein­ar.

Tón­list­armiðstöð er sjálf­seign­ar­stofn­un sem rek­in er á einka­rétt­ar­leg­um grunni með sjálf­stæðri fjár­hags­ábyrgð og starfar sam­kvæmt sér­stakri skipu­lags­skrá sem stjórn set­ur og staðfest­ir.

Stofn­un Tón­list­armiðstöðvar var ein af til­lög­um starfs­hóps sem ég skipaði á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar, hinn 1. des­em­ber 2020. Hlut­verk hóps­ins var að rýna um­hverfi tón­list­ar­geir­ans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tón­list­ar yrði best skipu­lagt, vinna drög að tón­list­ar­stefnu og skil­greina hlut­verk og ramma Tón­list­armiðstöðvar. Það er óneit­an­lega skemmti­legt að sjá þann mikla ár­ang­ur sem náðst hef­ur fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu frá 1. des­em­ber 2020. Síðastliðið vor var þings­álykt­un­ar­til­laga um tón­list­ar­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 samþykkt á Alþingi ásamt fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist. Á þeim grunni rís hin nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð var í gær.

Ég vil þakka starfs­hópn­um fyr­ir sína frá­bæru vinnu en hann skipuðu Jakob Frí­mann Magnús­son, Bald­ur Þórir Guðmunds­son, Bragi Valdi­mar Skúla­son, Bryn­dís Jónatans­dótt­ir, Eiður Arn­ars­son, Gunn­ar Hrafns­son, María Rut Reyn­is­dótt­ir, Sól­rún Sum­arliðadótt­ir og Val­gerður Guðrún Hall­dórs­dótt­ir.

Ég legg á það þunga áherslu að styrkja um­gjörð menn­ing­ar í land­inu og stuðla að aukn­um at­vinnu­tæki­fær­um og verðmæta­sköp­un henni tengdri. Til marks um það er ráðgert að sam­tals 600 millj­ón­ir renni af fjár­lög­um 2023-2025 til stofn­un­ar Tón­list­armiðstöðvar og til efl­ing­ar sjóða tón­list­ar til viðbót­ar við þau fram­lög sem renna nú þegar til tón­list­ar.

Við fyll­umst öll stolti þegar sam­lönd­um okk­ar vegn­ar vel á þessu sviði og ná langt meðal ann­ars á er­lendri grundu. Þeir nýju tón­ar sem við slá­um nú fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu munu skila sér marg­falt til baka. Ég óska tón­listar­fólk­inu okk­ar inni­lega til ham­ingju með þenn­an áfanga, og hlakka til að hlusta á afrakst­ur­inn í framtíðinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum