Hoppa yfir valmynd
05. september 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Nýverið var kynnt skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem er afrakstur vinnu starfshóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neytenda og samkeppnisaðstæður á innlendum bankamarkaði þar sem m.a. yrði litið til gagnsæi þóknana, vaxtakostnaðar, gjaldtöku og annarra kostnaðarliða sem neytendur bera. Þá vann hópurinn einnig greiningu á tekjumyndun stóru viðskiptabankanna þriggja ásamt því að gera samanburð á starfsháttum viðskiptabanka á Norðurlöndunum með tilliti til tekjumyndunar, einkum vaxtamunar.

Það eru áhugaverðar niðurstöður sem koma fram í skýrslunni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á hinum Norðurlöndunum. Hins vegar hefur aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neytenda, en hins vegar komið fram í bættri arðsemi bankanna. Þá dró skýrslan einnig fram að sum þjónustugjöld eru ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Í því ljósi er meðal annars vert að benda á gjaldtöku íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sem er dulin en vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Gengisálag bankanna á kortafærslur sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Með einfölduðum hætti má áætla að heimilin hafi greitt bönkunum um 6,6 ma.kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum. Það sem kom mest á óvart var að kortagengið er óhagstæðara en svokallað seðlagengi sem almennt er óhagstæðasta gengið hjá bönkum.

Talsverð umræða hefur spunnist um niðurstöður skýrslunnar og hefur meðal annars verið bent á það að vaxtamunur heimila hafi aldrei verið lægri. Á móti kemur hins vegar að vaxtamunur á fyrirtæki er í hámarki og auðvitað er því velt yfir í verðlagið sem almenningur borgar.

Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að hér sé starfrækt öflugt bankakerfi enda er hlutverk banka veigamikið í að styðja við aukna verðmætasköpun í landinu. Á undanförnum misserum hefur mikill hagnaður bankanna komið til umræðu og hefur vakið spurningar um jafnvægi í greininni og stöðu neytenda. Ég stend við það sem kemur fram í skýrslunni og tel að bankarnir hafi rými til þess að gera betur við neytendur, hvort sem það er fólk eða fyrirtæki. Sú arðsemi sem birtist í uppgjörum bankanna er mikil og í ofanálag sýna tölur að vaxtamunur og arðsemi vaxi enn á þessu ári.

Stærsta hagsmunamál samfélagsins er að ná verðbólgunni niður og þar verða allir að leggja sitt af mörkum og er bankakerfið ekki undanskilið því. Sú uppbyggilega umræða sem hefur átt sér stað í kjölfar skýrslunnar er af hinu góða enda snerta neytendamál okkur öll. Sem ráðherra neytendamála mun ég láta uppfæra skýrsluna árlega til að stuðla að upplýstri umræðu um þessi mál, samfélaginu til hagsbóta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum