Hoppa yfir valmynd
14. september 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Snemma á síðustu öld gengu stjórnmálin út á hina pólitísku baráttu við dönsk stjórnvöld, um fullveldið og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Um miðbik aldarinnar gekk baráttan út á efnahagslegt sjálfstæði og stefnu okkar í alþjóðasamvinnu. Þjóðin fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast forræði yfir sjávarauðlindinni og baráttusöngvar voru ortir á borð við texta Núma Þorbergssonar: „Þau eru svo eftirsótt Íslandsmið, að enskir þeir vilja oss berjast við.“ Sigrar unnust í þorskastríðunum, sem var upphafið að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Utanríkismálin urðu einnig mikið bitbein þjóðarinnar á þessum tíma, þar sem hart var deilt um hina vestrænu samvinnu. Það var mikil framsýni að taka afgerandi stöðu með lýðræðisríkjum, gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu og leggja mikla rækt við opin utanríkisviðskipti. Farsæld Íslands er háð nánu samstarfi við þjóðir heimsins um verslun og viðskipti.

Þessi pólitíska barátta skilaði landinu miklum auðæfum. Á skömmum tíma var byggt upp öflugt mennta- og heilbrigðiskerfi og undir lok síðustu aldar voru þjóðartekjur á hvern einstakling meðal þeirra allra hæstu í veröldinni. Forfeður og –mæður okkar börðust fyrir betri framtíð lands og þjóðar og við njótum þess í dag. Þegar samfélag eins og okkar nær svona góðum lífskjörum, þá breytast baráttumálin og snúa að því að verja góða stöðu en líka horfa til framtíðar um með hvaða hætti það er gert.

Ísland býr yfir miklum auðlindum og ljóst er að skortur verður á slíku í fyrirsjáanlegri framtíð. Okkur ber því enn ríkari skylda til að umgangast auðlindirnar af sérstakri virðingu þar sem vallarsýnin er sjálfbær nýting.

Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið losi um hluti í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti. Í raun er það hvellskýrt í mínum huga og okkar í Framsókn: það verður ekki einn vatnsdropi einkavæddur í Landsvirkjun. Um slíka ráðstöfun yrði aldrei samfélagsleg sátt á Íslandi, enda þjónar slíkt ekki hagsmunum okkar til framtíðar.

Það er skoðun mín að almennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þessum atvinnurekstri, en það er engum vafa undirorpið að opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í.

Ég er sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkjun muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frekari orkuöflun til að standa undir aukinni lífsgæðasókn í landinu, enn traustari ríkisfjármálum og þeim grænu orkuskiptum sem stuðla þarf að í þágu loftslagsmála. Þar getum við Íslendingar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höldum rétt á spilunum, með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.

Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orkuskiptin þurfa þó að vera unnin á grundvelli samvinnunnar enda eru virkjanir og orkumannvirki vandasamar stórframkvæmdir. Það er til mikils að vinna ef rétt er haldið á spilum, í þágu íslenskra hagsmuna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum