Hoppa yfir valmynd
21. október 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ísland er lánsamt ríki

Kastljós helstu stjórnmálaleiðtoga heimsins heldur áfram að beinast að ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs, sem stigmagnaðist mjög hratt í kjölfar grimmilegra árása Hamas-hryðjuverkasamtakanna í Ísrael. Svæðið er því miður aftur orðið púðurtunna þar sem hætta er á enn frekari stigmögnun og opnun nýrra víglína með slæmum afleiðingum. Vísbendingar í þessa veru birtast okkur meðal annars í átökum Ísraelshers og Hezbollah-samtakanna í Líbanon sem hafa skipst á skotum yfir landamærin í norðurhluta Ísraels. Augu margra beinast að Íran sem hefur um árabil stutt við Hezbollah- og Hamas-samstökin, ásamt öðrum vígahópum í Mið-Austurlöndum, með vopnum, þjálfun og hernaðarupplýsingum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína á fimmtudagskvöld í framhaldi af heimsókn sinni til Mið-Austurlanda í vikunni. Fór ávarpið fram úr forsetaskrifstofunni sjálfri sem þykir til marks um alvarleika málsins, en þetta var aðeins annað ávarp forsetans til þjóðar sinnar með þeim hætti. Biden fór meðal annars yfir þá varhugaverðu stöðu sem er uppi í heiminum, þar sem stríð geisar í Evrópu vegna ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu og hins vegar stríðið milli Ísraels og Hamas.

Þetta eru sannarlega viðsjárverðir tímar sem við lifum á og ekki síst í ljósi þess að enn skýrari skil í alþjóðastjórnmálunum virðast vera að teiknast upp, þar sem til að mynda hernaðarleg samvinna Rússlands, Írans og Norður-Kóreu hefur aukist til muna. Í því samhengi má nefna að Norður-Kórea hefur ákveðið að sjá Rússum fyrir vopnum og skotfærum fyrir stríðsrekstur þeirra í Úkraínu, líkt og Íranir hafa gert um talsvert skeið. Því hefur meðal annars verið velt upp hvort með þýðari samskiptum sínum við Norður-Kóreu séu Rússar að búa sér til sterkari stöðu á Kóreuskaganum, þar sem ástandið er nú þegar viðkvæmt milli Norður- og Suður-Kóreu.

Á hinn bóginn urðu vatnaskil í vestrænni samvinnu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hefur hernaðarsamvinna Vesturlanda stóraukist í kjölfarið. Blað var brotið í sögu Evrópusambandsins þegar það stóð í fyrsta sinn fyrir beinum hernaðarstuðningi við Úkraínu og öflug ríki innan sambandsins, líkt og Þýskaland, hafa stóraukið framlög sín til varnarmála.

Ísland er lánsamt ríki að mörgu leyti. Nýverið var tilkynnt að Ísland væri öruggasta ríki heims samkvæmt Alþjóðlegu friðarvísitölunni (e. Global Peace Index), en það er 15. skiptið í röð sem það gerist. Það að búa við frið og öryggi er því miður ekki sjálfsagt í heiminum eins og nútíminn ber glögg merki um. Ísland hefur tekið réttar ákvarðanir í gegnum tíðina, til dæmis með stofnaðild sinni að Atlantshafsbandalaginu 1949 og samningi um tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin 1951. Við sem þjóð verðum að halda áfram að vera á tánum, á sama tíma og við stöndum með almennum borgurum, sem því miður fara alltaf verst út úr stríðsátökum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum