Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ögurstund í verðbólguglímunni

Stærsta hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja í dag er að ná verðbólgu niður. Það er gömul saga og ný að há verðbólga bitnar einna helst á þeim sem síst skyldi, það er þeim efnaminni. Fólk jafnt sem fyrirtæki finna vel fyrir háu vaxtastigi með tilheyrandi áhrifum á kaup- og fjárfestingagetu sína. Það er í mínum huga ljóst að glíman við verðbólgu verður ekki unnin af einum aðila heldur þurfa ríki og sveitarfélög, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnumarkaðarins að leggjast saman á árarnar til þess að ná henni niður.

Verðbólguþróunin varasöm en ljós við enda ganganna

Því miður hefur verðbólgan verið yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár. Verðbólgan var 7,9% í október og undirliggjandi 6,3%. Umfang hækkana er enn útbreitt og í október höfðu rúmlega 40% neyslukörfunnar hækkað um meira en 10% frá því á sama tíma í fyrra. Samkvæmt Seðlabanka Íslands hafa aðeins um 20% af neyslukörfunni hækkað um minna en 5% frá fyrra ári. Enn er mikil þensla á vinnumarkaði og atvinnuleysi minniháttar, því eru áhrif kostnaðarhækkana enn sjáanleg. Verð innlendrar vöru hefur hækkað um tæp 11%. Á sama tíma hefur verðbólga á heimsvísu verið að dragast saman og er skýringa einkum að leita í lægra hrávöru- og orkuverði. Þá var ánægjulegt að sjá í greiningu Seðlabankans í síðustu Peningamálum að aukin verðbólga virðist ekki tilkomin vegna hækkandi álagningarhlutfalls fyrirtækja.

Of háar verðbólgu- væntingar á Ísland

Verðbólguvæntingar markaðsaðila til eins og tveggja ára eru 5,5% eftir ár en 4,2% eftir tvö ár. Markaðsaðilar telja að til lengri tíma verði verðbólga 4% að meðaltali næstu fimm ár og 3,5% að meðaltali. Talið er að kjölfesta verðbólguvæntinga sé veikari á Íslandi, sem getur valdið því að óvæntar verðhækkanir hafi meiri og dýpri áhrif á verðbólgu en í ríkjum þar sem kjölfestan er meiri. Sögulega hefur verðbólga verð þrálát og veikt kjölfestuna.

Verðbólguvæntingar eru afar mikilvæg mælistærð, þar sem þær gefa vísbendingu um stig verðbólgu sem einstaklingar, fyrirtæki og fjárfestar búast við að sjá í næstu framtíð. Þessar væntingar hafa áhrif á efnahagslegar ákvarðanir, þ.e. eyðslu, sparnað og fjárfestingar, og geta þannig haft afgerandi áhrif á raunverulega verðbólgu. Innan hagfræðinnar á þáttur verðbólguvæntinga sér í raun ekki langa sögu, en það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum að hagfræðingarnir Milton Friedman og Edmund Phelps hófu hvor í sínu lagi að vekja athygli á mikilvægi þeirra til að skilja verðbólguþróun, en fram að því hafði athyglin beinst að svokallaðri „Phillips-kúrfu“ sem er í sinni einföldustu mynd samband verðbólgu og atvinnuleysis. Áttundi áratugurinn einkenndist einmitt af mikilli verðbólgu og var það undir forystu Volkers seðlabankastjóra Bandaríkjanna að seðlabankar fóru að taka mið af verðbólguvæntingum með það að markmiði að ná tökum á væntingum. Á þessum tíma voru stýrivextir í hæstu hæðum og með tímanum leiddi sú peningastefna ásamt kerfisumbótum á framboðshliðinni í hagkerfinu til viðvarandi lækkunar verðbólgu í flestum þróuðum hagkerfum. Íslendingar voru seinni til og náðist ekki árangur í glímunni við verðbólgu fyrr en með þjóðarsáttinni og í kjölfarið kerfisumbótum í hagkerfinu um áratug síðar.

Verðbólguvæntingar og peningastefna

Seðlabankar nota verðbólgumarkmið, stýritæki bankans og samskipti við almenning til að stýra væntingum. Ef almenningur á von á hærri verðbólgu í framtíðinni getur hann brugðist við með aðgerðum sem auka á verðbólguna, til dæmis með því að krefjast hærri launa. Ef einstaklingar búast við að verðlag hækki er jafnframt líklegra að þeir eyði frekar nú en seinna. Á sama hátt aðlaga fyrirtæki verðlags- og fjárfestingarákvarðanir sínar út frá væntingum um verðbólgu í framtíðinni. Verðbólguvæntingar hafa þannig áhrif á ákvarðanir neytenda og fyrirtækja. Þetta er hegðun sem eldri Íslendingar kannast við og má að sumu leyti líkja þeirri kauphegðun við viðvarandi „svartan föstudag“. Verðbólguvæntingar skipta því afar miklu máli við ákvörðun vaxta. Seðlabankar geta aðlagað vexti eftir því hvort þeir vilja örva efnahagsstarfsemi eða draga úr verðbólgu. Væntingar um meiri verðbólgu í framtíðinni geta leitt til hærri nafnvaxta, en væntingar um lægri verðbólgu geta hins vegar leitt til þess að vextir lækki fyrr en ella.

Markviss hagstjórn getur minnkað verðbólguvæntingar

Óvissa um verðbólguhorfur til skamms tíma hefur aukist vegna veikingar krónunnar og jarðhræringa á Reykjanesi. Seðlabankinn hefur áhyggjur af því að áhrif nýlegra kostnaðarhækkana séu vanmetin, þar sem kjölfesta verðbólguvæntinga er veik.

Kjarasamningar losna í byrjun næsta árs og það er afar mikilvægt að öll hagstjórnin rói á sömu mið. Laun æðstu embættismanna hækkuðu í sumar um 2,5% og fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir ríkisvaldsins eru 3,5%. Ákveðið var að fara þessa leið til að vinna að því að minnka verðbólguvæntingar. Því er brýnt að fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir sveitarfélaganna séu afar hóflegar til að hægt sé að vinna að langtímakjarasamningum. Ef sveitarfélögin fara í miklar hækkanir, þá festast kostnaðarhækkanir í sessi og afar erfitt verður að ná niður verðbólgunni.

Samstillt hagstjórn er lykilatriði fyrir þjóðarbúið. Sterkar vísbendingar eru um að innlend umsvif hagkerfisins séu að kólna hratt. Einkaneysla hefur minnkað ásamt fjárfestingum. Jafnvægi er einnig að nást í utanríkisviðskiptum á ný. Ég er sannfærð um takist að sporna gegn frekari hækkunum muni nást árangur í glímunni við verðbólgu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum