Hoppa yfir valmynd
09. desember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Raunsæispólitík er nauðsynleg

Saga íslensks þjóðfélags er saga framfara. Á fyrri hluta 20. aldarinnar var Ísland meðal fátækustu ríkja Evrópu en á undanförnum áratugum hafa lífskjör batnað mikið og skipar landið sér nú í hóp fremstu ríkja heims þegar ýmsir mælikvarðar eru skoðaðir. Umskipti sem þessi gerast ekki af sjálfu sér, að baki þeim liggur þrotlaus vinna kynslóðanna og sú raunsæja afstaða að nýting auðlinda landsins sé drifkrafturinn og aflvakinn á bak við efnahagslega velsæld.

Innlend orka gulls ígildi
Virði innlendrar orku kom bersýnilega í ljós í kjölfar ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu. Orkuskortur fór að gera vart við sig á meginlandi Evrópu og miklar hækkanir á orkuverði í álfunni urðu til þess að verðbólga hækkaði enn frekar. Þannig kynntu stjórnvöld í ýmsum löndum aðgerðapakka til þess að dempa áhrif þessara hækkana á raforku, til dæmis með lánalínum, beingreiðslum til heimila og hvalrekasköttum á orkufyrirtæki til þess að fjármagna mótvægisaðgerðir. Ísland býr aftur á móti við mikið sjálfstæði í orkumálum miðað við ýmsar aðrar þjóðir og framleiðir mikla endurnýjanlega orku fyrir heimili og fyrirtæki. Íslensk heimili greiða lágt verð fyrir orku en verðlagning hennar lýtur ekki sömu lögmálum og verðlagning á orku á meginlandi Evrópu, þar sem íslenska flutningsnetið er ótengt því evrópska. Orkuöflun hefur verið burðarás í íslenskri lífskjarasókn og til að viðhalda þeirri sókn þarf að afla frekari orku. Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér, það þarf að hafa fyrir því að búa þau til, í sátt við náttúru og samfélagið. Okkur hefur vegnað vel í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og af því getum við verið stolt. Það er með öllu óraunsætt fyrir hagkerfið að sækja fram af viðlíka krafti og undafarna áratugi án frekari orkuöflunar.

Keppikefli efnahagsstjórnarinnar
Staða ríkissjóðs hefur styrkst verulega á umliðnum áratug. Þar skiptir miklu máli hvernig stjórnvöldum tókst á sínum tíma að tryggja farsælar málalyktir í þágu íslenskra hagsmuna gagnvart slitabúum föllum bankanna. Þær ráðstafanir hafa skilað ríkinu mörg hundruð milljörðum sem meðal annars hafa nýst til að greiða niður opinberar skuldir og treysta þannig stöðu opinberra fjármála. Þá hefur ferðaþjónustan einnig fært mikla björg í bú fyrir hagkferið. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að ríkissjóður hefur verið vel undir það búinn að takast á við risastór verkefni, líkt og heimsfaraldurinn á sama tíma og fjárfest hefur verið af miklum myndarskap í ýmsum málaflokkum á vegum hins opinbera. Keppikefli efnahagsstjórnarinnar núna er að ná verðbólgunni niður í þágu samfélagsins alls. Slíkt verkefni verður ekki leyst nema í samvinnu ríkis og sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin hefur kynnt aðhaldssamt fjárlagafrumvarp þar sem Stjórnarráðið tekur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launahækkun æðstu embættismanna ríkisins sem var lækkuð niður í 2,5%, sem kallast á við verðbólgumarkmið Seðlabankans, og gjaldskrárhækkanir takmarkaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórnvöld leiða með góðu fordæmi enda mikið í húfi fyrir fólk og fyrirtæki að ná verðbólgunni niður. Allir verða að líta raunsætt í eigin rann til að leggja sitt af mörkum. Þar munu komandi kjarasamningar skipta lykilmáli um framhaldið. Verkefnið er stórt og flókið en vel gerlegt að leysa. Ég bind miklar vonir við samtakamátt okkar allra, við þurfum öll að stunda raunsæja pólitík til að ná settu marki; að sigrast á verðbólgunni og halda áfram að bæta lífskjörin í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum