Hoppa yfir valmynd
06. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Heimsbúskapurinn stendur á mikilvægum tímamótum um þessar mundir eftir talsverðan darraðardans undanfarin fjögur ár. Miklar vendingar hafa orðið í alþjóðahagkerfinu á þeim tíma sem á einn eða annan hátt hafa snert öll ríki í heiminum. Heimsfaraldur, hnökrar í aðfangakeðjum, auknar hömlur og viðskiptahindranir í alþjóðaviðskiptum ásamt stríðsátökum hafa þannig framkallað stórar áskoranir fyrir stjórn efnahagsmála og enn er ekki séð fyrir endann á þeim. Þrátt fyrir þetta eru góð teikn á lofti með hækkandi sól.

Jákvæð þróun í heimsbúskapnum …
Það er ánægjulegt að sjá vísbendingar um að áhrif fyrrnefndra atburða séu í rénun. Þannig hefur verg heimsframleiðsla tekið betur við sér en búist var við og mældist á þriðja ársfjórðungi 2023 rúmlega 9% meiri en fyrir heimsfaraldur, samkvæmt alþjóðlegri samantekt Fitch Ratings.

Það er einkum þrennt sem skýrir þessa þróun. Í fyrsta lagi hefur hin alþjóðlega aðfangakeðja náð betra jafnvægi eftir heimsfaraldurinn, ásamt því að fyrirtæki í Evrópu hafa getað brugðist betur við verðhækkunum á orku frá Rússlandi en leit út fyrir í fyrstu.

Í öðru lagi hefur verðbólga hjaðnað hraðar en fyrstu spár bentu til. Verðbólga á heimsvísu var 8,9% í fyrra og spáð er að hún verði komin niður í 5,1% í árslok 2024. Hrávara hefur verið að lækka en óstöðugt orkuverð heldur áfram að vera áskorun. Verðbólga í matvælum, allt frá hveiti til eldunarolíu, hefur hjaðnað.

Í þriðja lagi hafa væntingar markaðsaðila verið miklar um að alþjóðlegir vextir fari að lækka, sem myndi óneitanlega létta undir með heimilum og fyrirtækjum. Þetta er að gerast þrátt fyrir fall svæðisbundinna banka í Bandaríkjunum og fall Credit Suisse sem vakti áhyggjur um fjármálastöðugleika. Á undanförnum vikum hafa fjármálamarkaðir tekið verulega við sér. Þannig voru helstu vísitölur nálægt eða náðu nýjum methæðum í lok árs 2023 og birtist það jafnframt í sterkri stöðu skuldabréfamarkaða.

Í Bandaríkjunum eru allar líkur á að hagkerfið nái mjúkri lendingu á þessu ári. Þannig tók bandaríska hagkerfið kröftuglega við sér og virðist lítið lát þar á þrátt fyrir umtalsverðar vaxtahækkanir, en vinnumarkaður og eftirspurn í landinu fór fram úr væntingum. Þannig voru hagtölur fyrir þriðja ársfjórðung vestanhafs mun sterkari en flestir markaðsaðilar gerðu var ráð fyrir, en um mitt síðasta ár var það einróma skoðun sérfræðinga að vaxtahækkanir myndu leiða til stöðnunar á þessu ári.

Í Evrópu hefur vöxturinn verið minni, en þar setti orkukreppa strik í reikninginn. Þar hefur þó ríkt nokkur uppgangur þrátt fyrir vaxtahækkanir. Hins vegar hafa nýlegar tölur bent til stöðnunar eða samdráttar m.a. í Þýskalandi og er það áhyggjuefni fyrir evrusvæðið. Nýmarkaðsríki og fátækari lönd virðast koma betur undan áföllum síðustu ára en nokkur þorði að vona, en búist var við greiðsluerfiðleikum í kjölfar faraldursins og vaxtahækkana í Bandaríkjunum.

… en blikur halda áfram að vera á lofti
Alþjóðlega efnahagskerfið stendur engu að síður á mikilvægum tímamótum. Heimsbúskapurinn mótast af samspili stjórnmálalegra og efnahagslegra áhrifa. Síðustu misseri hafa einkennst af spennu á milli stórvelda og alvarlegum svæðisbundnum átökum í Úkraínu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Í samskiptum stórvelda skapar umrót á bandalögum áhættu fyrir heimsbúskapinn. Meðal helstu svæða sem horft er til eru Austur-Evrópa, Mið-Austurlönd og Suður-Kínahaf, þar sem atburðir á þessum svæðum gætu mögulega raskað aðfangakeðjum á ný, haft áhrif á viðskiptastefnu og grafið undan efnahagslegum stöðugleika í heimsbúskapnum.

Hagvöxtur í Kína hefur verið undir væntingum eftir losun covid-hafta og kunna þar að vera á ferðinni kerfislæg vandamál eftir mikinn vöxt undanfarna áratugi. Það er áhyggjuefni fyrir heimsbúskapinn þar sem Kína er með stærstu ríkjum. Á sama tíma þarf að fást við lýðfræðilegar breytingar í stórum löndum þar sem aldur íbúa fer vaxandi. Á síðasta ári spratt fjórða iðnbyltingin fram í öllu sínu veldi meðal annars með gervigreindinni. Í því felast gríðarleg tækifæri en að sama skapi áskoranir sem ríki heims verða að ná utan um í sameiningu. Þessu tengt er staða fjölmiðla áfram erfið og hætta á að upplýsingaóreiða kunni að hafa áhrif á framvindu stjórnmála og lýðræðis.

Síðustu vikur hafði ríkt bjartsýni um að verðbólga væri í rénun og að vextir yrðu lækkaðir hratt beggja vegna Atlantsála sem eins og áður segir mátti greina á miklum uppgangi skulda- og hlutabréfamarkaða. Á allra síðustu dögum hafa vonir um hraða lækkun vaxta hins vegar dvínað og má búast við því að ekki hafi verið full innstæða fyrir þeirri bjartsýni sem ríkt hefur á mörkuðum og lengri tíma gæti tekið að ná verðbólgunni í markmið en markaðsaðilar hafa reiknað með, og gæti það sett strik í reikninginn varðandi hagvöxt á þessu ári. Stjórnvöld og seðlabankar standa því enn frammi fyrir þeirri áskorun að takast á við að skapa jafnvægi í einstökum löndum í kjölfar faraldursins.

Þróunin hérlendis í okkar eigin höndum
Ísland hefur ekki farið varhluta af fyrrnefndum darraðardansi í heimsbúskapnum. Hér hefur há verðbólga hins vegar reynst þrálátari en í löndunum í kringum okkur, þó svo að hún hafi framan af mælst sú næstlægsta í Evrópu. Hefur þetta meðal annars birst okkur í hækkandi stýrivöxtum sem eru helsta stjórntæki Seðlabanka Íslands gagnvart verðbólgu.

Á árinu 2023 slógu hækkandi stýrivextir á innlenda eftirspurn á sama og mikill kraftur var í þjónustuútflutningi, sem skýrðist aðallega af umsvifum í ferðaþjónustu. Samdráttur varð í einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi eftir nokkuð kröftugan vöxt ársfjórðungana þar á undan. Spáð er að jafnvægi náist í viðskiptum við útlönd sem sagan kennir okkur að sé mikilvægt fyrir þjóðarbúið. Það skiptir miklu máli að útflutningsgreinarnar verði ekki fyrir frekari áföllum, en jarðhræringar á Reykjanesskaga fela vissulega í sér áskorun. Gríðarlegar útflutningstekjur eru skapaðar í Grindavík og nágrenni! Hagvaxtarhorfur samkvæmt spám eru ásættanlegar eftir mikinn vöxt 2022 og 2023. Brýnasta hagsmunamál þjóðfélagsins er að ná niður verðbólgu og vöxtum en það er mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu. Þó svo að Ísland sé ekki ónæmt eyríki í alþjóðahagkerfinu hvíla örlög verðbólguþróunarinnar nú að stórum hluta í okkar eigin höndum. Þar mun ábyrgð, raunsæi og góð samvinna ríkis og sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins ráða úrslitum.

Ríkisstjórnin hefur kynnt aðhaldssamt fjárlagafrumvarp, þar sem Stjórnarráðið tekur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launahækkun æðstu embættismanna ríkisins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kallast á við verðbólgumarkmið Seðlabankans og gjaldskrárhækkanir takmarkaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórnvöld leiða með góðu fordæmi. Hagfelldir kjarasamningar til langs tíma munu ráða miklu um þróun verðbólgunnar.

Það gleður mig að sjá þá breiðu samstöðu og þann jákvæða tón sem kveður við í samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins, enda er mikið í húfi fyrir okkur öll. Sé rétt haldið á spilunum er ég bjartsýn á að við munum sjá verðbólgu og vexti lækka talsvert á árinu 2024, sem mun gera okkur betur í stakk búin til þess að halda áfram þeirri lífskjarasókn sem við viljum sjá í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum