Hoppa yfir valmynd
09. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Það hefur ekki dulist neinum að há verðbólga og vextir hafa komið illa við fólk og fyrirtæki á síðustu misserum. Það er því til mikils að vinna að ná verðbólgunni niður og skapa þannig skilyrði fyrir lækkun vaxta. Há verðbólga gerði vart við sig í kjölfar heimsfaraldursins í fjölmörgum ríkjum með tilheyrandi áskorunum fyrir hagstjórn. Ísland fór ekki varhluta af þeirri þróun í heimsbúskapnum þar sem hnökrar í aðfangakeðjum, auknar hömlur og viðskiptahindranir í alþjóðaviðskiptum ásamt stríðsátökum hafa framkallað miklar áskoranir fyrir stjórn efnahagsmála og enn sér ekki fyrir endann á þeim.

Hér hefur há verðbólga hins vegar reynst þrálátari en í löndunum í kringum okkur, þó svo að hún hafi framan af mælst sú næstlægsta í Evrópu.

Það er gömul saga en ekki ný að há verðbólga bitnar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnaminni. Helsta keppikefli efnahagsstjórnarinnar hérlendis er að ná tökum á verðbólgunni. Hún hefur vissulega lækkað frá því að hún mældist hæst 10,2% í febrúarmánuði 2023, en í dag mælist hún 7,7%. Sterkar vísbendingar eru um að háir stýrivextir Seðlabankans séu farnir að bíta en á árinu 2023 slógu þeir á innlenda eftirspurn á sama tíma og mikill kraftur var í þjónustuútflutningi, sem skýrðist aðallega af umsvifum í ferðaþjónustu. Þá var samdráttur í einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi eftir nokkuð kröftugan vöxt ársfjórðungana þar á undan. Hagkerfið kom af miklum krafti út úr faraldrinum og mældist hagvöxtur ríflega 7% á árinu 2022 og fór viðskiptajöfnuður úr skorðum. Á þessu ári er spáð meira jafnvægi í þessum efnum með tæplega 3% hagvexti og jákvæðum viðskiptajöfnuði.

Næstu vikur skipta höfuðmáli í glímunni við verðbólguna en örlög verðbólguþróunarinnar eru nú að stórum hluta í okkar eigin höndum. Þar er stóra breytan komandi kjarasamningar sem nú er unnið að. Þar mun ábyrgð, raunsæi og góð samvinna ríkis og sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins ráða úrslitum. Ríkisstjórnin stóð fyrir aðhaldssömum fjárlögum, þar sem Stjórnarráðið tekur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launahækkun æðstu embættismanna ríkisins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kallast á við verðbólgumarkmið Seðlabankans og gjaldskrárhækkanir takamarkaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórnvöld leiða með góðu fordæmi. Það hefur einnig verið jákvætt að sjá fleiri sveitarfélög draga úr boðuðum gjaldskrárhækkunum, nú síðast Hveragerðisbær sem mun hækka gjaldskrár um 2,5% í stað 8% eins og boðað hafði verið.

Í þessu verkefni verða allir að leggja sitt af mörkum enda mikið í húfi. Það er samt sem áður tilefni til bjartsýni í ljósi þess jákvæða tóns sem kveður við í samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins. Það er mikilvægt að vinna áfram í þeim anda og stuðla að því að skrifað verði undir langtímakjarasamninga sem skapa hagfelld skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta, en í því felst stærsta kjarabótin fyrir okkur öll.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum