Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Sterkt samfélag nær utan um Grindavík

Með vakningu þeirra náttúruafla sem búa í iðrum jarðar á Reykjanesi blasir við nýr veruleiki fyrir kynslóðir okkar tíma á suðvesturhorni landsins. Með eldgosinu í Geldingadölum við Fagradalsfjall hinn 19. mars 2021 hófst nýtt eldgosatímabil á Reykjanesskaganum sem átti sér undanfara með jarðskjálftahrinum allt frá árinu 2019. Líkt og við þekkjum er helsta verkefni samfélagsins að ná utan þá stöðu sem skapast hefur í Grindavík vegna eldgossins og styðja við Grindvíkinga. Síðustu áratugi hefur íslenska hagkerfið skapað mikil verðmæti og því er ljóst að við sem samfélag náum utan um þá áskorun sem blasir við. Hins vegar skiptir efnahagsstjórn miklu máli um hvort vel takist til!

Jarðhræringar

Að mati vísindamanna er á Reykjanesinu að finna sex eldstöðvakerfi sé Hengilskerfið talið með, en hin kerfin á Reykjanesinu eru frá vestri til austurs; Reykjaneskerfið, Eldvörp/Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvíkurkerfið og Brennisteinsfjallakerfið. Hafa þessi kerfi mótað hið ægifagra langslag sem birtist okkur á Reykjanesinu og setur einkennandi svip á landshornið. Samkvæmt gögnum og rannsóknum sem líta aftur til síðustu 3.500 ára hafa vísindamenn getið sér til um að gosskeið hafi staðið í um 400-500 ár, með 600-800 ára goshléum þar á milli, þó svo að goshlé í stöku eldstöðvakerfi vari að meðaltali í um 1.000 ár. Sem dæmi um hversu lifandi svæðið getur orðið hafa vísindamenn meðal annars bent á að gosvirkni geti flust milli eldstöðvakerfa með 30-150 ára millibili sé miðað við síðasta gosskeið á svæðinu. Að frátalinni þeirri goshrinu sem hófst árið 2021 hefur ein meiri háttar goshrina átt sér stað á Reykjanesi frá landnámi sem hófst með Bláfjallaeldum um árið 950 og lauk með Reykjaneseldum árið 1240, en þar á milli gaus í Krýsuvíkurkerfinu með Krýsuvíkureldum en einu hraunin sem hafa nálgast höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma runnu einmitt úr Krýsuvíkurkerfinu og standa sunnan við Hafnarfjörð.

Húsnæðisaðgerðir ríkisstjórnarinnar fyrir Grindvíkinga

Ljóst er að eldgosið í Grindavík hinn 14. janúar síðastliðinn gjörbreytti stöðu mála í bænum. Það var landsmönnum öllum mikið áfall að sjá seinni gossprungu opnast sunnan þeirra varnargarða sem risið höfðu ofan við bæinn og horfa á hraun renna yfir íbúðarhús í bænum. Í kjölfarið virtist staðfest að ekki yrði búið í bænum næstu mánuði og misseri og hófu því stjórnvöld að framlengja gildandi aðgerðir ásamt því að kynna nýjar aðgerðir sem ætlað er að tryggja öryggi Grindvíkinga þegar kemur að húsnæði, afkomu og verðmætum. Með þeim mun ríkið skapa forsendur fyrir Grindvíkinga til að koma sér upp öruggu heimili til lengri tíma á eigin forsendum. Samhliða þessu ætla stjórnvöld að tryggja framboð á varanlegu húsnæði með ýmsu móti, þar á meðal með uppbyggingu á húsnæði á tilteknum svæðum, með kaupum á samtals 260 íbúðum í gegnum íbúðafélögin Bríeti og Bjarg. Þá verður lagt fram frumvarp á næstu dögum sem unnið hefur verið að í menningar- og viðskiptaráðuneytinu og snýr að þrengingu skilyrða varðandi almenna skammtímaútleigu íbúða og er ætlað að stuðla að auknu framboði á íbúðarhúsnæði. Sérstakur húsnæðisstuðningur verður jafnframt framlengdur til loka júní ásamt því að verða útvíkkaður til að styðja betur fjárhagslega við fólk. Aldrei hefur verið jafnbrýnt að stórauka framboð af húsnæði á Íslandi.

Afkoma og verðmæti varin

Stjórnvöld hafa einnig lagt kapp á að tryggja afkomuöryggi Grindvíkinga og stuðla að verðmætabjörgun eigna. Launastuðningur til þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í bænum vegna ástandsins verður framlengdur til loka júní, og lengur ef þörf krefur. Þá hefur áhersla verið lögð á, eftir því sem aðstæður leyfa, að komast hjá verðmætatjóni. Það verður áfram unnið að því að gera Grindvíkingum kleift að bjarga verðmætum í samvinnu við helstu viðbragðsaðila. Í því samhengi er vert að nefna að unnið er að samstarfi við flutningafyrirtæki til að styðja við þá Grindvíkinga sem ekki hafa tök á að sækja verðmæti á eigin spýtur ásamt því að aðstoða fólk við að fá öruggt geymsluhúsnæði til að geyma innbú og önnur verðmæti eins og þarf. Atvinnulífið í Grindavík er merkilega fjölbreytt og viðamikið og skiptir máli í utanríkisviðskiptum landsins. Stærstu atvinnugreinarnar snúa að ferðaþjónustu og sjávarútvegi, en ýmsar tegundir greina hafa náð að koma sér vel fyrir, auk starfa á vegum sveitarfélagsins og hins opinbera. Það verður mikilvægt að tryggja að þau verðmæti sem sköpuð hafa verið í Grindavík verði áfram til að styðja við þjóðarbúið. Það hefur gengið betur en á horfðist varðandi sjávarútveginn, þar sem samstarf og samstaða í greininni hefur komið til góða við að bjarga verðmætum. Gengi ferðaþjónustunnar hefur verið misjafnt. Lokun Grindavíkur hefur komið þungt niður á minni fyrirtækjum. Eitt öflugasta fyrirtækið á svæðinu, Bláa lónið, hefur búið við mikla óvissu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Afar brýnt er að klára áhættumat almannavarna á svæðinu til að draga úr þeirri óvissu. Bláa lónið er sá ferðamannastaður sem hefur einna mest aðdráttarafl fyrir þá sem heimsækja landið. Tæplega 900 manns starfa hjá Bláa lóninu og afleidd eru störf afar mikilvæg fyrir Reykjanesið og alla ferðaþjónustuna.

Mótvægisaðgerðir skipta öllu um efnahagsframvinduna

Það er meira en að segja það að koma heilu byggðarlagi fyrir í nýju húsnæði, en það hefur ekki staðið á ríkisstjórninni að gera sitt besta í þeim efnum. Hins vegar er afar brýnt að gæta að þjóðhagslegum stærðum þegar horft er fram á veginn. Glíman við verðbólguna hefur verið ein helsta áskorunin frá því að heimsfaraldri lauk. Leikurinn í þeirri baráttu hefur verið að snúast í rétta átt á allra síðustu vikum og mánuðum. Húsnæðisliðurinn er afar þungur í verðbólgumælingum hér á landi. Á síðasta áratug hefur óvíða verið jafn mikill efnahagslegur uppgangur eins og á Íslandi. Vegna hins opna vinnumarkaðar hefur framboðsvandinn í hagkerfinu á síðustu misserum einna helst birst á vettvangi húsnæðismarkaðar. Það er því mikilvægt að öllum árum sé róið að því að styrkja framboðshliðina á húsnæðismarkaði, hvort sem það er á sviði framboðs lóða eða byggingargerðar. Húsnæðismarkaðnum verður þó ekki breytt á einni nóttu og má væntanlega búast við tímabundnum þrýstingi, en mikilvægt verður að taka á framboðshliðinni sem allra fyrst til hagsbóta fyrir framtíðina. Stjórnvöld þurfa jafnframt að horfa til húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs, t.d. með samanburði á fyrirkomulagi hans í nágrannalöndunum. Þessi umræða hefur verið uppi á borðum hér á landi í nær 20 ár og því tímabært að skoða það nánar með framtíðina í huga. Hér er ekki verið að tala um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs heldur að láta hann verða samanburðarhæfari. Vera kann að einnig þurfi að grípa til annarra þjóðhagsvarúðartækja til að draga úr spennu á húsnæðismarkaði, líkt og var gert á Nýja-Sjálandi eftir stóra jarðskjálftann í Christchurch árið 2011.

Á síðustu viku hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í daglegum samskiptum við íbúa í Grindavík. Það sem einkennir hópinn er dugnaður, samkennd, þrautseigja og viljinn til að ráða sínum örlögum sjálfur. Á þessari stundu er óljóst hver framtíð Grindavíkur verður og verður það í höndum okkar færasta vísindafólks að meta aðstæður af kostgæfni og taka svo upplýsta ákvörðun í samvinnu við íbúa og fyrirtækin. Þrátt fyrir alla þá óvissu sem einkennir stöðuna, þá er eitt ljóst, en það er að stjórnvöld standa með Grindvíkingum og munu málefni þeirra áfram njóta forgangs við ríkisstjórnarborðið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum