Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. júlí 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Kennarinn Auður Laxness

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 31. júlí 2018.

„Kennari hefur áhrif að eilífu, ómögulegt er að segja til um hvenær áhrifa hans hættir að gæta.“ Þessi tilvitnun er eignuð sagnfræðingnum og rithöfundinum Henry Adams og hún lýsir einna mikilvægasta ábyrgðarhlutverki okkar allra, áhrifunum sem við getum haft á annað fólk. Á því sviði hafa kennarar sannarlega ákveðna sérstöðu.

Í gær var opnuð sýning á Gljúfrasteini helguð Auði Laxness, en í ár er öld frá fæðingu hennar. Sýningin varpar ljósi á lífshlaup og listsköpun þeirrar merku konu sem oftar sinnti sínu bak við tjöldin. Auður var ein þeirra sem kallaði fram það allra besta í fólkinu í kringum sig. Það er aðdáunarverður eiginleiki og dýrmætur, eins og við þekkjum öll. Auður sinnti ótal verkefnum og gegndi afar fjölbreyttu hlutverki á Gljúfrasteini, eins og glöggt má sjá á sýningunni. Hún starfaði um stutta hríð sem handavinnukennari en hafði af heimildum að dæma til að bera margt sem við tengjum við framúrskarandi kennara.

Þar vil ég fyrst nefna djúpstæða virðingu fyrir fólki og viljann til að koma fram við alla, óháð stöðu þeirra, af umhyggju. Það er ljóst af sögum af Auði að hún lagði sig fram við að liðsinna öðrum, hún skapaði samfélag í kringum sig og var einkar lagin við að láta fólki líða vel. Menningarsetrið á Gljúfrasteini ber þess vott hversu skapandi og úrræðagóð Auður var, og framsýn. Þegar saga hennar er ígrunduð skynjum við vel að hún gerði kröfur og fann leiðir að lausnum, en þeir eiginleikar einkenna einmitt góða kennara. Í hennar eigin sköpun og handverki finnum við alúð, frumleika og metnað. Fróðleiksfýsi hennar er líka öllum ljós sem um hana lesa. Hún var réttnefndur fjölfræðingur, fljót að tileinka sér nýja hluti og þekkingu. Framlag Auðar til íslenskt handverks er lofsvert. Hún skrifaði fjölda greina um vefnað, prjón og handverk auk þess að vinna að hannyrðum og hönnun. Hún hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar menningar árið 2002.

Það verður seint metið hversu mikil gæfa það var fyrir bókmenntirnar og menninguna í okkar litla landi að heiðursfólkið frú Auður og Halldór Laxness fundu hvort annað og sköpuðu sér sitt líf á Gljúfrasteini. Ég hvet alla sem tækifæri hafa til þess að kynna sér líf og starf Auðar Laxness. Áhrifa hennar gætir á ótal stöðum, sem við erum þakklát fyrir í dag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum