Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. mars 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Orðin okkar á íslensku

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 27. mars 2019.

Ég mælti fyrir þingsályktunartillögu í 22 liðum í desember síðastliðnum um hvernig megi styrkja stöðu íslenskrar tungu. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins.

Ferðaþjónustan er mikilvægur samstarfsaðili okkar á því sviði að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna og á dögunum kynntu Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Samtök ferðaþjónustunnar framtak undir yfirskriftinni „Orðin okkar á íslensku“ sem miðar að því að auka fræðslu til erlends starfsfólks um íslenskt mál. Um er að ræða orðalista á íslensku, ensku og pólsku sem tengjast fjölbreyttum störfum í ferðaþjónustu. Markmið þessa fagorðalista er að efla samskipti og auka íslenskukunnáttu á vinnustöðum. Orðalistarnir eru aðgengilegir á vefnum, þar sem einnig má hlusta á framburð orða og hugtaka á íslensku, og á veggspjöldum sem dreift verður til ferðaþjónustuaðila.

Ég fagna þessu framtaki en það mun bæta þjónustu og stuðla að betri samskiptum. Íslenskan er okkar mál og þetta framtak er kærkomin hvatning fyrir fleiri til þess að vekja athygli á tungumálinu og hvetja fleiri til þess að læra það. Við kynntum í vetur vitundarvakningu undir merkjum slagorðsins Áfram íslenska og það gleður mig að ferðaþjónustan svari því kalli og taki virkan þátt með þessum hætti. Vitundarvakningunni er ætlað að minna okkur á að framtíð tungumálsins er og verður á ábyrgð okkar allra, íslenskan er lifandi samskiptatæki og okkar sjálfsagða mál.

Jákvætt viðhorf til íslensku og aukin meðvitund um mikilvægi tungumálsins skiptir sköpum svo aðrar aðgerðir til stuðnings henni skili árangri. Uppbyggileg umræða og fræðsla í samfélaginu um fjölbreytileika íslenskunnar er líka mikilvæg fyrir nýja málnotendur og auka þarf þolinmæði gagnvart íslensku með erlendum einkennum.

Ég vona að sem flestir muni nýta sér fjölbreytta möguleika sem felast í notkun fagorðalista ferðaþjónustunnar og að mínu mati gæti þetta verkefni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og Samtaka ferðaþjónustunnar vel orðið hvatning fyrir fleiri geira atvinnulífsins til þess að stíga viðlíka skref. Orð eru til alls fyrst.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum