Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. júlí 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Alþjóðlegt vísindasamstarf eflt

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 29. júlí 2019.

Rannsóknir, vísindi og hagnýting hugvits eru forsendur fjölbreytts atvinnulífs, velferðar og styrkrar samkeppnisstöðu þjóða. Ísland stendur framarlega í alþjóðlegu vísindasamstarfi og hafa stjórnvöld lagt áherslu á að bæta stoðkerfi rannsókna og vísinda enn frekar ásamt því að auka möguleika íslenskra vísindamanna í alþjóðlegu samstarfi.

Alþjóðleg samfjármögnun rannsókna

Á liðnu vorþingi voru samþykkt ný lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Inntak þeirra snýr að tveimur mikilvægum sjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar. Annars vegar er um að ræða Innviðasjóð sem veitir styrki til kaupa á rannsóknarinnviðum eins og tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði. Hins vegar tengist frumvarpið Rannsóknasjóði sem styrkir vísindarannsóknir og rannsóknatengt framhaldsnám. Sameiginleg stjórn hefur verið yfir þessum tveimur sjóðum þrátt fyrir að eðli þeirra sé talsvert ólíkt en nú verður sú breyting gerð að sérstök stjórn verður sett yfir Innviðasjóð sem mun skerpa á stefnumótandi hlutverki hans og málefnum rannsóknarinnviða. Þá verður stjórn Rannsóknasjóðs veitt heimild til þess að taka þátt í samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaáætlana í samstarfi við erlenda rannsóknasjóði. Slík samfjármögnun felur í sér að rannsóknasjóðir frá mismunandi löndum koma sér saman um áætlanir með áherslu á sérstök svið ásamt því að mat umsókna verður unnið af sameiginlega skipuðum fagráðum. Þessi breyting mun opna fleiri dyr fyrir íslenska vísindamenn í alþjóðlegu vísindasamstarfi og ýta undir nánara samstarf rannsóknasjóða.

Framúrskarandi rannsóknarinnviðir
Ný lög um evrópska rannsóknarinnviði voru einnig samþykkt á vormánuðum. Þau gera Íslandi kleift að gerast aðili að samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (e. ERIC). Með því opnast tækifæri fyrir íslenskt vísindasamfélag til að taka þátt í samstarfi um uppbyggingu og rekstur framúrskarandi rannsóknarinnviða sem eru af þeirri stærðargráðu að ógerningur er fyrir einstök ríki að fjármagna þá upp á eigin spýtur. Samþykkt frumvarpsins hefur til dæmis í för með sér að þátttaka Veðurstofu Íslands í evrópska jarðskorpumælakerfinu EPOS er tryggð en verkefnið er eitt mikilvægasta samstarf um
gögn er tengjast náttúruvá. Eins er áframhaldandi þátttaka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í CLARIN, evrópska innviðaverkefninu á sviði máltækni, tryggð sem og þátttaka Félagsvísindastofnunar í evrópsku félagsvísindakönnuninni ESS. Eitt af því sem einkennir íslenskt vísindasamfélag er mikil virkni í alþjóðasamstarfi enda er fjölþjóðlegt samstarf íslenskum rannsóknum nauðsynlegt. Við munum halda áfram að efla Ísland í slíku samstarfi enda höfum við mörgu að  miðla á því sviði.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum