Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. mars 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Sómi Íslands

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2020

Kennarar, starfsfólk skólanna og skólastjórnendur hafa unnið afrek í vikunni, í samstarfi við nemendur og stjórnvöld. Lagað sig að dæmalausum aðstæðum og lagst saman á árarnar svo að menntakerfið okkar og samfélagið haldi áfram. Hafi þeir bestu þakkir fyrir.

Samfélagið er að hluta lagst í dvala og einkennileg kyrrð hefur færst yfir marga kima samfélagsins, sem venjulega iða af lífi. Sú ákvörðun stjórnvalda að banna samkomur af ákveðinni stærð og setja strangar reglur um samskipti fólks er gríðarlega stór. Hún var tekin með heilsu og heilbrigði þjóðar í huga, að tillögu þeirra sem við treystum fyrir almanna- og sóttvörnum í landinu. Mat þeirra var að fordæmalausra aðgerða væri þörf til að lágmarka útbreiðslu veirunnar sem nú herjar á alla heimsbyggðina. Þess vegna var ákveðið að loka háskóla- og framhaldsskólabyggingum og fela skólunum að skipuleggja fjarnám. Af sömu ástæðu var ákveðið að halda leik- og grunnskólum opnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum þar til annað væri ákveðið.

Breytt skólastarf í leik- og grunnskólum
Breytingar á kennslu og skólahaldi eru ekki hristar fram úr erminni. Aðstæður skólanna til að bregðast við eru afar ólíkar, ýmist eftir skólastigum, húsa- og tækjakosti, nemenda- og starfsmannafjölda, námsgreinum o.s.frv. Þrátt fyrir það hefur skólasamfélagið staðist prófið með glæsibrag. Virkni og regla er ekki síst mikilvæg fyrir yngstu nemendurna. Takmarkanir á leik- og grunnskólastarfi hafa krafist mikils af kennurum og skólastjórnendum, sem þurfa ekki aðeins að tryggja takmarkaðan samgang milli nemenda heldur einnig nám og kennslu. Allir skólar hafa haldið uppi skólastarfi í vikunni, að frátöldum þeim sem hafa lokað dyrunum af sóttvarnarástæðum, og hafa með því unnið mikinn sigur. Umfang kennslu og fjöldi kennslustunda á hverjum stað hefur tekið mið af aðstæðum, en viljinn til að halda börnunum í námi verið ótvíræður.

Framhalds- og háskólar í fullri virkni
Í framhalds- og háskólum hafa kennarar brugðist hratt við, snarað hefðbundnu námsefni yfir á rafrænt form, hugsað í lausnum og haldið nemendum sínum við efnið. Fjarkennsla hefur tekið á sig fjölmargar skemmtilegar myndir og virkni nemenda síst verið minni en í hefðbundinni kennslu. Þátttaka í kennslustundum og verkefnaskil hafa jafnvel verið meiri en alla jafna. Það er vel, enda nauðsynlegt að virkni í samfélaginu sé eins mikil og frekast er unnt. Hins vegar ber að hafa í huga að brotthvarf úr námi getur aukist verulega í ástandi eins og nú ríkir. Þess vegna hafa skólameistarar og rektorar landsins lagt okkur lið við að sporna strax við slíku. Framlag allra sem komið hafa að málinu er lofsvert.
Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja. Stjórn sjóðsins hefur í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti létt á áhyggjum námsmanna og greiðenda af námslánum. Tekjuviðmið hafa verið hækkuð, innheimtuaðgerðum seinkað og reglur við mat á umsóknum um undanþágu á afborgunum rýmkaðar tímabundið. Þá hefur stjórn LÍN samþykkt að taka til greina annars konar staðfestingu skóla á ástundun nemenda en vottorð fyrir einingar sem lokið hefur verið. Þannig er komið til móts við nemendur sem ekki geta sinnt námi vegna röskunar á skólastarfi.

Samvinna og samstarf er lykillinn
Verulega hefur reynt á samfélagið allt undanfarna daga. Mál hafa þróast með ótrúlegum hraða og sumt í veruleikanum minnir á skáldskap. Það á ekki bara við um áskoranir sem stækka með hverjum degi, heldur líka sigra og ofurhetjur sem láta ekkert stöðva sig. Við aðstæður eins og þessar er ómetanlegt að samskipti milli lykilaðila í skólakerfinu séu góð. Sú hefur enda verið raunin undanfarnar vikur og fyrir það ber að þakka. Endurtekin og regluleg samskipti hafa fært fólk nær hvert öðru, aukið skilning á aðstæðum og þétt raðirnar. Það birtist til dæmis í sameiginlegri yfirlýsingu sem fulltrúar kennara, sveitarfélaga og ráðuneytis undirrituðu fyrir tæpri viku, og sneri að skólastarfi við þær undarlegu aðstæður sem nú eru uppi. Þar er jafnframt áréttað að aðkoma miklu fleiri aðila er forsenda þess að hlutirnir gangi upp. Almenningur allur, foreldrar, fyrirtæki og stofnanir þurfa að sýna ábyrgð og sveigjanleika, og fylgja tilmælum sem koma frá yfirvöldum og skólastjórnendum um skólahald.

Ég tek heils hugar undir hvert orð í yfirlýsingunni, þar sem segir meðal annars að skólastarf sé ein af grunnstoðum samfélagsins. Skólar hafi meðal annars það hlutverk að auka jöfnuð og vernda börn. Starfsfólk skólanna hafi unnið þrekvirki við að styðja við nemendur á þessum óvissutímum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum