Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. október 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Draugagangur

Göm­ul óværa hef­ur minnt á sig á und­an­förn­um miss­er­um. Sam­kvæmt gam­alli þjóðtrú er ekki hægt að drepa drauga, en hins veg­ar má kveða þá niður svo ekki spyrj­ist til þeirra um styttri eða lengri tíma. Sú lýs­ing virðist eiga við um verðbólgu­draug­inn, sem reglu­lega er vak­inn upp og get­ur svifið um hag­kerfið allt ef ekki er haldið fast um stjórn­artaum­ana.

Nú ber reynd­ar svo við, að verðbólga hef­ur auk­ist um all­an heim en ekki aðeins á Íslandi. Önnur óværa er a.m.k. að hluta ábyrg fyr­ir þess­ari alþjóðlegu þróun, því verðbólga virðist vera fylgi­fisk­ur Covid-19 í mörg­um lönd­um heims – ekki síst í Banda­ríkj­un­um, þar sem verðbólga hef­ur fimm­fald­ast frá árs­byrj­un. Skýr­inga er einkum að leita í mikl­um og snörp­um efna­hags­bata, hækk­un olíu- og hrávöru­verðs, vöru­skorti og hærri fram­leiðslu- og flutn­ings­kostnaði. Eft­ir­spurn hef­ur auk­ist hratt og á mörg­um mörkuðum hef­ur virðiskeðjan rofnað, með til­heyr­andi raski á jafn­vægi milli fram­boðs og eft­ir­spurn­ar. Fyr­ir vikið hef­ur inn­flutt verðbólga auk­ist á Íslandi og mæld­ist verðbólga í sept­em­ber 4,4% ásamt því að verðbólgu­vænt­ing­ar hafa auk­ist á ný. Þar spil­ar inn í hækk­andi verðlag á nauðsynja­vör­um og svo auðvitað hús­næðisliður­inn, en ört hækk­andi hús­næðis­verð er aðkallandi vandi sem verður að leysa. Góðu frétt­irn­ar eru hins veg­ar þær, að und­ir­liggj­andi verðbólga hélt áfram að hjaðna, þótt hún sé enn nokk­ur. Grein­inga­deild­ir bú­ast við því að há­marki verði náð í kring­um ára­mót­in, en þaðan í frá muni verðbólga lækka og verða um 2,5% á seinni hluta næsta árs.

Þetta þarf að hafa í huga við hag­stjórn­ina og brýnt er að grípa til mót­vægisaðgerða svo lang­tíma-verðbólg­an verði hóf­leg. Nú þegar hef­ur Seðlabank­inn gripið til aðgerða, hækkað vexti ásamt því að setja þak á hlut­fall veðlána og greiðslu­byrði hús­næðislána. Stefn­an í rík­is­fjár­mál­um þarf að taka mið af þess­ari þróun og leggja sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar, en hér skipt­ir tíma­setn­ing­in miklu máli. Ekki má draga úr efna­hags­leg­um aðgerðum og stuðningi vegna Covid-19 of snemma, en held­ur ekki of seint.

Þrátt fyr­ir allt eru þó góð teikn á lofti. Mik­il­væg­ar at­vinnu­grein­ar eru smám sam­an að styrkj­ast, með já­kvæðum áhrif­um á ís­lenska hag­kerfið. Þannig má ætla að auk­inn fjöldi er­lendra ferðamanna styrki gengi krón­unn­ar, auk þess sem út­lit er fyr­ir óvenju góða loðnu­vertíð. Ef vænt­ing­ar í þá veru raun­ger­ast mun út­flutn­ing­ur aukast og gengið styrkj­ast, sem myndi leiða til verðlækk­ana á inn­flutt­um vör­um. Þá er rétt að rifja upp eðlis­breyt­ingu á ís­lensk­um lána­markaði, en vegna auk­ins áhuga á óverðtryggðum lán­um eru stý­ritæki Seðlabank­ans skil­virk­ari en áður. Stýri­vaxta­hækk­an­ir, sem áður þóttu bit­laus­ar á verðtryggðum hús­næðislána­markaði, hafa nú mun meiri áhrif á efna­hag heim­il­anna og eru lík­legri til að slá á þenslu. Frétt­ir af viðræðum formanna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna um end­ur­nýjað sam­starf gefa líka til­efni til bjart­sýni. Við erum á réttri leið.

-

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. október, 2021.

  • Draugagangur - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum