Hoppa yfir valmynd

Sjóður um innra öryggi, landamæri og vegabréfsáritanaútgáfu

Merki ISF
Sjóðurinn um innra öryggi, landamæri og vegabréfsáritanaútgáfu er hluti af fjárhagsramma Evrópusambandsins fyrir tímabilið 2014-2020.


Almennt markmið sjóðsins er að stuðla að því að tryggja hátt öryggisstig í Sambandinu og greiða samtímis fyrir lögmætri för fólks með samræmdri og öflugri vörslu ytri landamæranna og skilvirkri afgreiðslu Schengen-vegabréfsáritana í samræmi við skuldbindingu Sambandsins um að stuðla að mannfrelsi og mannréttindum. Til að ná þessu hefur ESB sett markmið fyrir landamæravörslu og áritanir og skal Sjóðurinn stuðla að því að ná eftirfarandi sértæku markmiðum:

  • að styðja sameiginlega stefnu í málum er varða vegabréfsáritanir til að greiða fyrir lögmætri för fólks, veita umsækjendum um vegabréfsáritun mjög góða þjónustu, tryggja jafna meðferð ríkisborgara þriðju landa og sporna gegn ólöglegum innflutningi fólks,
  • að styðja samþætta landamærastjórnun, þ.m.t. að stuðla að frekari samræmingu ráðstafana sem tengjast landamærastjórnun í samræmi við sameiginlegar reglur Sambandsins og með upplýsingaskiptum milli aðildarríkja og milli aðildarríkja og Landamærastofnunar Evrópu, til að tryggja annars vegar samræmt og öflugt vörslu- og verndarstig ytri landamæranna, m.a. með því að sporna gegn ólöglegum innflutningi fólks, og hins vegar snurðulausa för yfir ytri landamærin í samræmi við Schengen-réttarreglurnar, jafnframt því að tryggja þeim sem þess þarfnast aðgang að alþjóðlegri vernd, í samræmi við skuldbindingar sem aðildarríkin hafa tekist á hendur á sviði mannréttinda, þ.m.t. meginregluna um að vísa fólki ekki aftur þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu.

Fjármagn og fjármögnunarleiðir úr sjóðnum

Fjármagn úr sjóðnum:

Styrkgreiðslur til verkefna sem Ísland getur sótt um fyrir tímabilið 2014 – 2020 nema 5.326.980 €. Ábyrga yfirvald sjóðsins er dómsmálaráðuneytið og er skrifstofa sjóðsins staðsett undir skrifstofu fjármála og rekstrar. Ríkisendurskoðun gegnir hlutverki endurskoðendayfirvalds.

Fjárframlög sem eru veitt á grundvelli landsáætlana eru í formi styrkja. Aðgerðir sem eru styrktar á grundvelli landsáætlana skulu samfjármagnaðar af opinberum aðilum eða einkaaðilum og mega ekki vera í hagnaðarskyni. Styrkurinn getur numið allt að 75% af aðstoðarhæfum heildarkostnaði verkefnisins, í einstaka tilfellum getur styrkur numið 90% þegar um er að ræða sértækar aðgerðir eða stefnumótandi forgangsverkefni. Útgjöld eru aðstoðarhæf ef styrkþegi hefur stofnað til þeirra á tímabilinu 1. janúar 2014 – 31. desember 2022.

Stofngerð Sjóðsins - Reglugerð nr. 515/2014 kveður á um stofnun innri öryggissjóðs um landamæri og vegabréfsáritanir (ISF-B) og hefur að geyma sérreglur og markmið fyrir sjóðinn.

(https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=celex%3A32014R0515)

Umsókn um stuðning Sjóðsins

Það er engin formlegur umsóknarferill til þess að sækja um stuðning úr Sjóðnum. Þau stjórnvöld sem fara með málefni landamæra og útgáfu áritana geta ein sótt um stuðning til Sjóðsins. Tillögur að nýjum verkefnum eru undirbúnar og forgangsraðað í dómsmálaráðuneytinu af sérfræðingum ráðuneytisins og þeirra stofnana sem fara með málefni landamæra og áritana.

Til þess að verkefni teljist styrkhæf verða þau að sýna fram á að þau styðji þau markmið og forgangsröðun sem koma fram í Landsáætlun Íslands. Kostnaður verkefnisins er styrkhæfur ef stofnað hefur verið til hans frá 2014 til 2022.

Landsáætlun Íslands

Hverju aðildarríki ber að skila inn landsáætlun fyrir árin 2014 – 2020.  sem er forsenda fyrir úthlutun styrkja. Landsáætlun Íslands hefur verið samþykkt af framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins. Landsáætlun felur í stuttu máli í sér lýsingu á grunnástandi í málefnum landamæra og vegabréfsáritanna, greiningu á þörfum og innlend markmið og  stefnuáætlun þar sem skilgreind eru þau markmið sem á að ná með stuðningi úr sjóðnum. (Tengill á landsáætlunina)

Verkefni sem hlotið hafa styrk úr Sjóðnum

Heiti verkefnis:            Vöktun EUROSUR „National Coordination Center“ / NCC Iceland

Lýsing verkefnis:         Vöktun EUROSUR NCC / Landamærastöðvar vegna Schengen. Styrkurinn felst í því að kosta vöktun á NCC á Íslandi. Vöktunin fer fram hjá Aðgerðarsviði Landhelgisgæslu Íslands en tölvubúnaður stöðvarinnar er í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Kostað er eitt stöðugildi, 50% hjá Landhelgisgæslu Íslands og 50% hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Áætlaður kostnaður:     108.170.125 ISK.

Verkefnistímabil:         2014 – 2020.

Styrkþegi:                    Landhelgisgæsla Íslands / Lögreglan á Suðurnesjum

 

Heiti verkefnis:            KEF-ABC Smart borders

Lýsing verkefnis:         Uppsetning á 12 sjálfvirkum landamærahliðum í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Markmið verkefnisins er að bæta gæði landamæraeftirlitsins, auka skilvirkni og afgreiðsluhraða og mæta hinum sívaxandi fjölda farþega sem fer  um Keflavíkurflugvöll. Samstarfsverkefni Isavia, Lögreglunnar á Suðurnesjum og Ríkislögreglustjóra.

Áætlaður kostnaður:     Áætlaður 150.000.000 ISK.

Verkefnistímabil:         2014 – 2017.

Styrkþegi:                    Ríkislögreglustjóri

 

Heiti verkefnis:            Vegabréfaörgjörvi noti SAC samskiptareglur

Lýsing verkefnis:         Verkefnið snýst um að koma nýrri gerð örgjörva fyrir í nýjum vegabréfabókum og tryggja að framleiðslukerfi noti hann rétt.

Áætlaður kostnaður:     29.124.055 ISK.

Verkefnistímabil:         2015 – 2016.

Styrkþegi:                    Þjóðskrá Íslands

 

Heiti verkefnis:            SPOC

Lýsing verkefnis:         Verkefnið snýst um að bæta öryggi við lestur vegabréfa með því að koma á samskiptakerfum sem miðla trausti á rafrænum hluta vegabréfanna og gera jafnframt kleift að heimila til þess bærum aðilum að lesa fingraför úr vegabréfum.

Áætlaður kostnaður:     Áætlaður 165.763.038 ISK.

Verkefnistímabil:         2014 – 2019.

Styrkþegi:                    Þjóðskrá Íslands.

 

Heiti verkefnis:            Menntun og þjálfun í landamæramálefnum (ISL-MÞL).

Lýsing verkefnis:         Verkefninu er ætlað að útbúa heildstæða landsáætlun sem nær yfir þjálfun löggæsluaðila á sviði landamæramálefna. Einnig verður útbúið kennsluefni til þjálfunar, leiðbeinendur þjálfaðir og námskeið sett upp sett upp þar sem þjálfað verður samkvæmt námskrá fyrir þann hóp starfsmanna sem sinnir landamæraeftirliti og landamæragæslu.

Áætlaður kostnaður:     Áætlaður 44.000.000 ISK.

Verkefnistímabil:         2018 – 2020.

Styrkþegi:                    Ríkislögreglustjóri / Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar (MSL).

 

Heiti verkefnis:            Endurnýjun á tækjabúnaði fyrir landamæraeftirlit.

Lýsing verkefnis:         Verkefninu er ætlað að endurnýja búnað sem fyrir er á landamærastöðvum til þess að framkvæma landamæraeftirlit. Auk þess nær verkefnið yfir uppsetningu á búnaði í öllum lögregluumdæmum sem hafa viðurkenndar landamærastöðvar í umdæminu.

Styrkur til verkefnis:    Áætlaður 66.149.190 ISK.

Áætlaður kostnaður:     2018 – 2019.

Styrkþegi:                    Ríkislögreglustjóri.

 

Hafa samband 

Nánari upplýsingar um sjóðinn: [email protected]

Nánar um sjóðinn á vef Evrópusambandsins:

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum