Hoppa yfir valmynd

Iðnaður og löggiltar iðngreinar

Lög um handiðnað (áður iðnaðarlög) nr. 42/1978, sbr. breytingu með lögum nr. 19/2020, taka til rekstrar handiðnaðar í atvinnuskyni. Heimilisiðnaður er undanþeginn ákvæðum laganna. Enginn má reka handiðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi samkvæmt lögunum.

Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð ráðherra skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Meistari skal bera ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst.

43 handiðngreinar eru löggiltar og lögverndaðar samkvæmt reglugerð um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999. Rétt til iðnaðarstarfa í þessum löggiltu iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni. Heimilt er sérfélögum, sveina- og meistarafélagi í sömu iðn að gera sín á milli samning um það, að ráða megi ólært verkafólk til iðnaðarstarfa undir stjórn lærðs iðnaðarmanns um ákveðinn stuttan tíma í senn, þegar sérstaklega stendur á og brýn þörf er á auknum vinnukrafti í iðninni. Einnig getur hver og einn unnið iðnaðarstörf fyrir sjálfan sig og heimili sitt, enn fremur fyrir opinbera stofnun eða fyrirtæki, sem hann vinnur hjá, ef um minni háttar viðhald á eignum þessara aðila er að ræða. Í sveitum, kauptúnum og þorpum með færri en 100 íbúa mega óiðnlærðir menn vinna að iðnaðarstörfum.

Rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein hafa þeir einir, er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni.

Ráðherra gefur út sveinsbréf til iðnaðarmanna sem lokið hafa sveinsprófi í löggiltum iðngreinum og sýslumaður gefur út meistarabréf.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 21.3.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum