Hoppa yfir valmynd

Einkaskólar á framhaldsskólastigi

Sjálfstæðir skólar sem kenna á framhaldsskólastigi þurfa að hafa viðurkenningu til slíkrar starfsemi. Samkvæmt III. kafla laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 getur mennta- og barnamálaráðherra veitt skólum, öðrum en opinberum framhaldsskólum, viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Viðurkenning einkaskóla

Einkaskólar á framhaldsskólastigi eru viðurkenndir á grundvelli 12. gr. laga um framhaldsskóla. Jafnframt gildir um þá reglugerð nr. 426/2010 um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi.

Í viðurkenningu felst staðfesting á því að starfsemi skóla uppfylli, á þeim tíma sem viðurkenningin er veitt, almenn skilyrði laga um framhaldsskóla og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Viðurkenning einkaskóla nær einungis til þeirra námsbrautalýsinga sem fram koma í umsókn og þurfa þær að vera staðfestar af ráðuneytinu. Viðurkenning á einkaskóla felur hvorki í sér vilyrði um fjárframlög né skuldbindingu af hálfu ríkissjóðs. Þá veitir hún nemendum sem stunda nám á viðurkenndri námsbraut skólans ekki sjálfkrafa rétt til fyrirgreiðslu úr Menntasjóði námsmanna.

Að öllum skilyrðum uppfylltum getur viðurkenning einkaskóla ýmist verið veitt tímabundin í eitt ár eða að fullu til hámark þriggja ára. Uppfylli skóli ekki skilyrði þess að hljóta viðurkenningu er umsókn synjað.

Umsókn um viðurkenningu einkaskóla

Eigandi eða stjórn skóla getur sótt um viðurkenningu einkaskóla, eða endurnýjun viðurkenningar, til mennta- og barnamálaráðherra. Umsókn þarf að vera undirrituð af ábyrgðarmanni skólans.

Rekstrarform einkaskóla skal vera sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða annað viðurkennt rekstrarform.

Mikilvægt er að umsækjandi kynni sér öll skilyrði laga og reglna um starfsemi einkaskóla á framhaldsskólastigi áður en sótt er um viðurkenningu. Þá er nauðsynlegt að öllum tilskildum fylgiskjölum sé skilað með umsókn.

Umsóknum og fylgigögnum skal skilað í tölvupósti á [email protected] merktum: „Umsókn [nafn skóla] um viðurkenningu einkaskóla“. Sé verið að sækja um endurnýjun viðurkenningar skal senda umsókn og öll tilskilin fylgigögn a.m.k. 3 mánuðum áður en gildistíma lýkur.

Upplýsingar með umsókn og fylgiskjöl

Í umsókn skal koma fram dagsetning umsóknar, nafn skóla og ábyrgðarmanns, heimilisföng, og kennitala umsækjanda.

Umsókn þarf að fylgja lýsing á aðstöðu, þ.e. húsnæði skólans og búnaði, ásamt lýsingu á aðgengi fatlaðra og annarri sérhæfðri aðstöðu sem starfsemin kann að krefjast.

Jafnframt skulu fylgja umsókn vottorð yfirvalda heilbrigðis- og brunamála.

Vottorð heilbrigðisyfirvalda: leggja skal fram starfsleyfi og nýjustu niðurstöðu reglubundins eftirlits heilbrigðiseftirlits.

Vottun slökkviliðs: leggja þarf fram jákvæða umsögn slökkviliðs um eldvarnir. Þetta á við um allt það húsnæði sem umsækjandi notar til reglubundinnar kennslustarfsemi.

 • Umsögn slökkviliðs skal ekki veri eldri en 6 mánaða gömul.
 • Bent er á að það getur tekið talsvert langan tíma að uppfylla kröfur slökkviliðs og þarf því að sækja um umsögn slökkviliðs tímanlega.

Eigandi og/eða forráðamaður húsnæðisins þarf að sjá til þess að húsnæði uppfylli kröfur í samræmi við reglugerð nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit.

Svo einkaskóli geti hlotið viðurkenningu þarf námið að vera skipulagt sem a.m.k. einnar annar heildstætt nám, falla að ákvæðum framhaldsskólans um flokkun og þrepaskiptingu náms, vinnuframlag nemenda þarf að hafa verið skilgreint, skipulag náms þarf að fela í sér skilgreind námslok og námið þarf að uppfylla almenn skilyrði laga um framhaldsskóla hvað varðar hlutverk og markmið.

Viðurkenning grundvallast á skólanámskrá sem skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Skólanámskrá skal staðfest af skólanefnd að fenginni umsögn skólafundar og hún skal birt á vef skólans og vera uppfærð reglulega. Eintak af skólanámskrá, á pdf-formi, skal fylgja umsókn um viðurkenningu.

Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um alla þá þætti í starfsemi skólans sem kveðið er á um í 22. gr. laga um framhaldsskóla um skólanámskrár og kafla 12.1 í aðalnámskrá framhaldsskóla. Einnig er fjallað um skólanámskrá víðar í lögum um um framhaldsskóla sem umsækjandi þarf að líta til.

Þættir skólanámskrár sem gera skal grein fyrir í umsókn:

 1. Stjórnskipan skólans: Lýsing á hvernig kjörin stjórn (t.d. eigenda) er skipuð og skólanefnd. Hver fari með stjórn daglegrar starfsemi, fagstjórn og fjármálastjórn.
 2. Sýn og markmið skóla: Í skólanámskrá skal fjalla um stefnu skólans og framtíðarsýn auk sérstöðu hans eða sérkennum námsins, hvaða markhópi nemenda því er ætlað að þjóna og áætlaðri þörf fyrir það í samfélaginu.
 3. Árleg starfsáætlun: Í starfsáætlun skal gerð grein fyrir starfstíma skólans, mikilvægum dagsetningum og öðrum grunnupplýsingum um starfsemi skólans. Þar er gerð grein fyrir starfsfólki skólans, skólaráði, skólanefnd, foreldraráði og nemendaráði.
 4. Stefnur og áætlanir: Í skólanámskrá skal birta stefnur skólans í ýmsum málum, m.a. í forvörnum, umhverfismálum og jafnréttismálum. Þá skal gera grein fyrir móttökuáætlun, áætlun gegn einelti, áfallaáætlun, rýmingaráætlun og viðbrögðum við vá (t.d. faraldri, óveðri, eldgosi og jarðskjálftum).
 5. Réttindi og skyldur nemenda: Reglur um réttindi og skyldur nemenda skulu birtast í skólanámskrá og vera aðgengilegar. Í skólareglum skal m.a. fjallað um skólasókn, hegðun og umgengni, námsmat, námsframvindu og prófareglur, viðurlög vegna brota á skólareglum, reglur um meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga.
  Gæta þarf þess að ákvæði séu í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og með hliðsjón af ákvæðum almenns hluta aðalnámskrár framhaldsskóla um réttindi og skyldur nemenda.
 6. Meðferð ágreiningsmála í skólanum: Lýsing á leiðum sem nemendur og starfsmenn hafa til að leita réttar síns telji þeir á sér brotið.
 7. Sjálfsmat og gæðamál: Lýsing á fyrirkomulagi þeirra mála í skólanum í samræmi við 40. og 41. gr. laga um framhaldsskóla. Innra mat hvers skóla byggist á kerfisbundinni aðferð sem lýsa skal í skólanámskrá.
 8. Námsframboð og námsbrautalýsingar: Upplýsingar um hvaða nám eða námsbrautir eru í boði í skólanum og hvort boðið sé upp á fjarnám, staðnám og verknám.
  Viðurkenning einkaskóla nær einungis til þeirra námsbrautalýsinga sem fram koma í umsókn. Námsbrautalýsingar þurfa að vera staðfestar af mennta- og barnamálaráðuneytinu eða vera þar í staðfestingarferli, sbr. 23. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Kennitölur staðfestra námsbrautarlýsinga skulu fylgja umsókn.
  Hér má nálgast upplýsingar um staðfestar námsbrautalýsingar.
 9. Skipulag náms þarf að falla að ákvæðum laga um framhaldsskóla um flokkun og þrepaskiptingu náms. Vinnustundir nemenda skulu vera gefnar upp í framhaldsskólaeiningum. Skilyrði fyrir viðurkenningu er að námið sé skipulagt sem a.m.k. fullt einnar annar heildstætt nám. Ef námið er skipulagt sem hluti af námsbrautum annarra skóla skal það tekið fram í inntökuskilyrðum enda væri það hluti af þeim námslokum sem skólinn veitti nemendum.
 10. Skilgreining inntökuskilyrða: Bæði þau sem skólinn setur sjálfur, s.s. inntökupróf, aldurstakmark, einkunnir o.s.frv. og sem fram koma í lögum og aðalnámskrá, t.d. lok grunnskóla eða hæfni sem nemandi verður að hafa náð til þess að byrja áfanga á tilteknum hæfniþrepum. Fari hluti náms á námsbrautum skóla fram í öðrum skóla/skólum skal gerð grein fyrir því og hvernig nemendur geta aflað sér þess náms.
 11. Kennsluhættir: Lýsing á fyrirkomulagi kennslu og kennsluaðferðum sem beitt er í skólanum.
 12. Námsmat: Lýsing á aðferðum við námsmat, einkunnagjöf eða vitnisburð og birtingu niðurstaðna.
 13. Námslok: Viðurkenning er veitt á grundvelli námsloka sem skilgreind eru í aðalnámskrá í tólf flokka, hver með sitt námslokanúmar. Í umsókn þarf að fylgja lýsing á hvaða viðurkenningu, réttindi eða prófheiti nemendur fá að námi loknu, á hvaða hæfniþrepi námslokin eru staðsett og hvers konar staðfestingu (skírteini) nemendur fá að námi loknu, t.d. stúdent, starfsréttindi eða viðbótarnám til framhaldsskóla.
 14. Námsferill og skráning upplýsinga um nám nemenda: Lýsing á fyrirkomulagi og skráningakerfi námsferils. Einnig hvernig skólinn muni tryggja nemendum aðgang að upplýsingum úr námsferli eftir að námi lýkur.
 15. Ráðgjöf sem nemendum stendur til boða í skólanum eða á vegum hans: Lýsing á hvaða stuðningi og ráðgjöf nemendum stendur til boða í skólanum eða á vegum hans, t.d. námsráðgjafa, sálfræðing o.þ.h.
 16. Önnur þjónusta við nemendur: Til dæmis mötuneyti, heilsugæsla og annað sem í boði kann að vera.
 17. Foreldrasamstarf: Lýsing á foreldrasamstarfi ef hluti nemenda skólans er ólögráða.
 18. Samstarf við utanaðkomandi aðila ef við á: t.d. þegar starfsþjálfun í fyrirtækjum er hluti af náminu.
 19. Annað sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá.

Umsækjendur skulu fylla út Excel-skjalið „Yfirlit yfir fjárhag umsækjenda“ og Word-skjalið „Greinargerð um fjárhag umsækjanda“ og láta fylgja umsókninni. Mikilvægt er að vanda vel til verka við útfyllingu skjalanna og ber að skila að skila þeim hvort sem sótt er um nýja viðurkenningu eða endurnýjun.

Með umsókninni skulu einnig fylgja:

 • Ársreikningar síðustu þriggja ára
 • Rauntölur líðandi árs
 • Rökstudd fjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár

Fjárhagsáætlunin skal vera rökstudd og samanburðarhæf við tölur í ársreikningum. Hver fjárhagsáætlun skal endurspegla raunhæfar áætlanir fyrir hvert ár. Ef þurfa þykir, má krefjast bankatryggingar af skóla.

Út frá þessum gögnum verður m.a. metið:

 • Fjárhagsleg ábyrgð
 • Fjármögnun starfseminnar
 • Fjárhagslegt rekstraröryggi
 • Hvort nemendur geti lokið námi sínu

Þegar skóli er að hefja starfsemi þarf að sundurliða áætlanir um rekstur sérstaklega vel. Fyrsta viðurkenning gildir í eitt ár og skal fjárhagsáætlun því ná yfir líðandi ár og næsta ár. Í stað ársreikninga skulu stofnskjöl, svo sem samþykktir, skipulagsskrá o.þ.h., auk staðfestingar á greiðslu stofnframlags/hlutafjár og skuldbindinga eigenda fylgja umsókninni. Fylla þarf út fyrrgreind Excel- og Word-skjöl eins og mögulegt er.

Í kjölfar viðurkenningar

Eftir að einkaskóli hefur hlotið viðurkenningu ráðherra til kennslu á framhaldsskólastigi ber skóla að uppfylla ákveðin skilyrði á gildistíma hennar, m.a. eftirfarandi:

 • Skólinn þarf að birta viðurkenningarskjal á vefsíðu sinni ásamt skólanámskrá, námsbrautalýsingum og verðskrá og gjaldtökureglum, ef um slíkt er að ræða. Viðurkenningin er jafnframt birt á vef Stjórnarráðsins.
 • Byggi skólinn rekstur sinn á skólagjöldum gerir mennta- og barnamálaráðherra þá kröfu að nemendur séu með staðfestum hætti upplýstir um gjöldin og skilmála sem gilda um innheimtu þeirra og rétt til endurgreiðslu.
 • Áður en nemendur eru teknir inn í skólann skal þeim leiðbeint um hvar skólanámskrá og námsbrautarlýsing er birt og þeir hvattir til að kynna sér skipulag á námsbraut, námskröfur og ákvæði um skyldur og réttindi nemenda og ábyrgð skólans á eigin starfsemi.
 • Skólinn skal senda mennta- og barnamálaráðuneytinu árlega skýrslu um starfsemina og veita því allar umbeðnar upplýsingar um rekstur og starfsemi þegar þess er óskað.
 • Skólinn skal hafa frumkvæði að því að upplýsa mennta- og barnamálaráðuneytið án tafar um breytingar sem kunna að verða á starfsemi eða aðstöðu hans sem viðurkenningin byggir á.

Uppfylli skólinn ekki lengur skilyrði laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008 eða reglugerðar um viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi, nr. 426/2010 er hægt að afturkalla viðurkenninguna.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum