Hoppa yfir valmynd

Vinnumat framhaldsskólakennara

Hér má finna upplýsingar og leiðbeiningar vegna vinnumats framhaldsskólakennara.

Vinnumat tók við af kjarasamningsákvæðum um 16 klukkustunda vikulega kennsluskyldu framhaldsskólakennara á árinu 2015. Skipuð var sérstök verkefnisstjórn sem vann að og hafði yfirumsjón með undirbúningi og innleiðingu vinnumatsins. 

Verkefnisstjórn og innleiðing vinnumats

Í kjarasamningi, sem undirritaður var 4. apríl 2014urðu samningsaðilar sammála um að breyta frá hefðbundnum vinnutímakafla kjarasamninga, um árlega vinnuskyldu við kennslu (kennsluskyldu) og tengd störf, yfir í vinnumat. Verkefnisstjórn vann að og hafði yfirumsjón með undirbúningi og innleiðingu vinnumats og var hún skipuð 6 fulltrúum, 1 frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, 2 frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og 3 frá KÍ/framhaldsskóla. Um störf verkefnisstjórnar og vinnumatsnefnda sem hún kom á laggirnar og fleira er tengist málinu er fjallað í 9. kafla fyrrnefnds kjarasamnings. Ár var gefið til þessarar vinnu og efni vinnumats/sýnidæma verkefnisstjórnar síðan borið undir atkvæði félagsfólks í apríl 2015.

Árið 2018 fór fram sérstakt endurmat á vinnumati í framhaldi af niðurstöðu Félagsdóms frá 22. sept. 2016 og kjarasamnings sama ár, sbr. Samkomulag mennta- og menningarmálaráðherra og Kennarasambands Íslands frá 23. apríl 2018 og bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til skólameistaraum útfærslu endurmatsins. Auk efnis um vinnumat frá 2014 til 2017 var þá samið um sérstaka viðbót við vinnumat til að uppfylla 3. efnisgrein 7. greinar kjarasamnings KÍ og fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem undirritaður var 4. apríl 2014, og taka þannig tillit til áhrifa styttingar námstíma til stúdentsprófs á vinnumat. Var vinnumatsnefndum í hverjum framhaldsskóla falið að gera formlegt samkomulag um viðbætur við vinnumatið og endurmetnir námsáfangar mynda þannig nýjan kjarasamning um vinnumat vegna þeirrar kennslu.

Ársvinnuskylda

Ársvinnuskyldu kennara er frá og með kjarasamningi 2014 skipt í A hluta sem fjallar um kennsluþátt starfsins, B hluta sem eru föst störf sem allir kennarar sinna til viðbótar við kennsluþáttinn og C hluta sem tekur til sérstakra verkefna eða viðbótarstarfa sem kennari tekur að sér í samráði við skólameistara.

Hér á eftir er fjallað nánar um þessa þrjá hluta starfsins og er byrjað á C hluta og endað á A.

C hluti, önnur fagleg störf eða stjórnun

Í reglugerð um starfslið og skipulag framhaldsskóla lýsir 7. grein almennu verksviði kennara. Í 8. grein er fjallað um önnur fagleg störf eða stjórnun sem fela má kennurum:

Auk þeirra föstu starfa sem tilgreind eru í 7. gr. er skólameistara heimilt með sérstöku samkomulagi við kennara að fela þeim önnur fagleg störf eða stjórnun. Slík störf skulu varða faglegt starf kennara á grundvelli kennslugreina, námsbrauta, deilda eða annarra heildstæðra eininga eða tengjast með öðrum hætti starfsemi skólans, þjónustu hans og samskiptum við nemendur. Um fagleg störf eða stjórnun sem þessi grein tekur til gilda starfslýsingar innan skóla með hliðsjón af stofnanasamningum þeirra og þau skal auglýsa innan skólans.

Í kjarasamningi eru þessi sérstöku viðbótarverkefni eða viðbótarstörf felld inn í C-hluta ársvinnuskyldunnar og honum lýst svo í grein 2.1.6.2:

Þáttur C byggir á sérstökum verkefnum eða viðbótarstörfum sem kennari tekur að sér í samráði við skólameistara. Tiltekinn tími sem verkefnunum/viðbótarstörfunum er ætlaður dregur samsvarandi úr vægi vinnuþáttar A í vinnuskyldu viðkomandi kennara.

 

Mynd 1 - Samspil vinnuþátta A, B og C í ársvinnuskyldu kennara

B hluti, föst störf

B hlutinn er að lágmarki 360 klst. af 1800 klst. ársvinnuskyldu kennara. Hann tiltekur föst störf sem allir kennarar sinna til viðbótar við kennsluþáttinn í réttu hlutfalli við ráðningarhlutfall. Hverjum skóla er heimilt að auka B hlutann tímabundið um allt að 40 klst. á ári en þá dregur samsvarandi úr A hlutanum. Í grein 2.1.6.6.1 í kjarasamningi eru vinnuþættir B hlutans sundurliðaðir sem hér segir:

Vinnuþættir B-hluta

 
B miðað við 180 skóladaga
klst.   
 Skýringar
Kaffitímar á starfstíma
105
35 mín/60 mín x 36 vikur x 5 dagar
Símenntun/starfsþróun
80
2 vikur til umráða fyrir kennara
Frágangur og undirbúningur 32
8 klst. x 4 dagar við lok og upphaf skólaárs/anna
Önnur vinna skv. reglugerð 143
u.þ.b. 4 klst. á viku í 36 vikur
 
 
þar af áætlað:

 
kennarafundir u.þ.b. 27 klst. á starfstíma skólans
 
 
yfirseta í prófum annara u.þ.b. 20 klst. á skólaárinu
 
 
faglegt samstarf u.þ.b. 1 klst. x 36 vikur á starfstíma skólans
 
 
viðtalstímar u.þ.b. 24 klst. á starfstíma skólans
 
 
almenn upplýsingagjöf u.þ.b. 1/2 klst. x 36 vikur á starfstíma skólans

   
almenn umsjónarstörf u.þ.b. 1/2 klst. x 36 vikur á starfstíma skólans
Samtals:
360
 

 

A hluti, kennsluþáttur

A hlutinn, alls 1392 klukkustundir, að teknu tilliti til 48 klst. viðbótarorlofs, er útfærður í vinnumati áfanga. Mat á vinnu kennara við hvern áfanga er byggt á áfangalýsingu og er það mat unnið af kennurum og skólastjórnendum. Innan hvers skóla starfar vinnumatsnefnd þar sem haft er samráð um gerð og þróun vinnumatsins. Vinnumat áfanga skal byggja á málefnalegum tilefnum og hlutlægum viðmiðum. Má þar meðal annars nefna einingafjölda áfanga og fjölda nemenda. Vinnumat áfanga sinna geta kennarar almennt nálgast í vefumsjónarkerfinu Innu. Sérstök reiknivél vinnumats fyrir alla skóla er í smíðum á vef Kennarasambands Íslands, www.ki.is.

Vinnumat hvers áfanga skiptist í þrjá meginþætti: Undirbúning, kennslu samkvæmt skipulagi áfangans og námsmat. Eins og útskýrt er hér neðar skiptist undirbúningur í tvennt: Annars vegar undirbúning fyrir kennslustundir og hins vegar annan undirbúning eins og gerð kennsluáætlana, annað skipulag, verkefna- og prófagerð. Þegar kenndir eru fleiri en einn námshópur í sama áfanga er gert ráð fyrir ákveðinni hagræðingu og því reiknast færri tímar fyrir endurtekna hópa. Breytilegt vinnumat áfanga á ekki að raska ráðningarhlutfalli kennara.

Hlutfallsleg skipting meginþátta vinnumats

 

Mynd 2: Athuga ber að vinnumat áfanga er misjafnt eftir fjölda nemenda og áfangagerðum

Viðmið

Eftirfarandi tilefni til vinnumats eru tilgreind í grein 2.1.6.2 í kjarasamningi en sum þeirra hafa ekki komist til almennrar framkvæmdar og útfærslu eins og fjallað er um í viðauka 1 með kjarasamningi aðila frá 21. apríl 2018.

 • Umfang: Einingafjöldi áfanga.
 • Nemendafjöldi: Nemendafjöldi í námshóp að teknu tilliti til ákvæða um hámarksnemendafjölda.
 • Gerð og samsetning nemendahópsins: Námsstaða nemenda.
 • Kennsluhættir: Tímamagn, form kennslu (til dæmis fjar- og dreifkennsla), námshraði og yfirferð.
 • Undirbúningur: Upphafsundirbúningur, stöðugur undirbúningur og úrvinnsla. Nýir áfangar, endurhönnun áfanga, þverfagleg kennsla.
 • Námsmat: Verkefni, próf, endurgjöf og leiðsagnarmat.
 • Námsefni: Hvort til er námsefni eða hvort semja þarf það að hluta til eða öllu leyti.
 • Áhrif persónu-/aðstæðubundinna þátta á frávik frá grunnmati áfanga: Fjöldi námsefna, endurteknir áfangar eða önnur sambærileg atriði.

Breytingar á hlutlægum viðmiðum sem eiga við um mat á vinnu kennara vegna námsáfanga skulu hafa áhrif á vinnumat áfangans á hverjum tíma.

Undirbúningur

Undirbúningur skiptist annars vegar í upphafsundirbúning, eins og vegna kennslu-/námsáætlunar og skipulags og hins vegar í stöðugan undirbúning sem fylgir hverri kennslustund og úrvinnslu hennar.

Nemendafjöldi

Í vinnumati er tiltekinn sá tími sem ætlaður til námsmats, yfirferðar prófa og verkefna fyrir hvern nemanda. Viðmið um hæfilegan fjölda nemenda í áfanga eru mismunandi eftir áfangagerð eins og sjá má í eftirfarandi töflu og nánar í sýnidæmum.

Tegund áfanga
Fjöldi nemenda 
Lágmarksviðmið
Hámarksviðmið
Verklegir áfangar
12
8
14
Fagbóklegir áfangar, listgreinaáfangar, áfangar alm. brautar
15
10
18
Tölvuáfangar
18
12
22
Raungreinaáfangar
22
15
26
Bóklegir áfangar, íþróttaáfangar
25
17
30

Séu nemendur færri en viðmið áfangans um fjölda segja til um fækkar þeim stundum í vinnumati sem ætlaðar eru til námsmats og á sama hátt ef nemendur áfanga eru fleiri fjölgar þeim stundum sem ætlaðar eru til námsmats. Aldrei er þó greitt fyrir færri nemendur en lágmarksviðmið segir til um. Dæmi um það gæti verið verklegur áfangi með 6 nemendum en greitt er fyrir 8. Ef fjöldi nemenda fer yfir hámarksviðmið er greitt álag þannig að fyrir hvern nemanda umfram hámark reiknast tvöfaldur tími. Auk þess reiknast 20% álag fyrir 29. og 30. nemandann í áföngum með 25 nemenda viðmiði, þ.e. í bóklegum áföngum og íþróttaáföngum.

Fjöldi nemenda að loknum einum fimmta hluta kennslutíma, að jafnaði eftir þrjár vikur, ákvarðar vinnumat hvers áfanga. Ef fjölgun verður í námshópum eftir nemendatalningu við upphaf fjórðu viku hækkar það vinnumat frá þeim tíma sem fjölgunin verður. Ef áfangi er með annan fjölda kennsluvikna en 15 gildir með sama hætti nemendafjöldi eftir einn fimmta kennslutímans.

Kennslu- og námsmatstími

Við þróun vinnumats var gengið út frá 18 vikna önnum þar sem kennslutímabil er 15 vikur en námsmatstími þrjár vikur. Samhliða upptöku vinnumats voru skil milli kennslu og prófatíma afnumin en í kjarasamningi aðila frá 4. apríl 2014 var skýrt tekið fram að áfram verði að gæta þess að nægur tími gefist innan dagvinnuársstarfs kennara til þess að sinna námsmati nemenda eins og skylt er samkvæmt lögum. Þannig hafa skóladagatöl í sumum skólum verið skipulögð þannig að námsmatstíminn hefur verið styttur en námsmatsdagar færðir í staðinn inn á kennslutímabil.

Námsmatstími er sundurliðaður annars vegar í tíma vegna gerðar verkefna, prófa og annars sem telst óháð fjölda nemenda og hins vegar tíma vegna hvers nemanda.

Sýnidæmi

Við innleiðingu vinnumats vann verkefnisstjórn að skilgreiningum á inntaki og umfangi einstakra hluta vinnumatsins í samstarfi við fimm sérstakar vinnumatsnefndir sem störfuðu eftir faggreinum og sviðum. Sýnishornum um vinnu kennara eftir mismunandi faggreinum og sviðum var safnað og að endingu urðu til alls 11 sýnidæmi sem sýnishorn af mögulegu mati einstakra námsgreina eða greinaflokka. Þannig verður ekki til sérstakt mat fyrir alla áfanga í sömu grein heldur eitt mat eða sýnidæmi sem felur í sér megindrætti vinnumats fyrir námsgrein eða greinaflokk.

Sjá nánar lista yfir sýnidæmi.

Endurteknir hópar

Þegar kenndir eru fleiri en einn námshópur í sama áfanga er reiknað með ákveðinni hagræðingu í vinnu. Því reiknast hópur eitt að fullu en 6% færri tímar reiknast fyrir námshópa tvö og þrjú. Fjórði námshópurinn reiknast aftur að fullu en 6% færri tímar reiknast fyrir hópa fimm og sex. Á sama hátt reiknast námshópur sjö að fullu en 6% færri tímar fyrir hópa átta og níu. Þetta er endurtekið eins oft og þörf krefur.

Meðaltalsnemendafjöldi allra hópa er lagður til grundvallar og reiknast tímafjöldinn 3% lægri ef um tvo námshópa er að ræða en 4% lægri ef hóparnir eru þrír í sama áfanganum. Skerðingin hefur ekki áhrif á fjöldaálag í námshópum. 

Kennsluafsláttur

Samkvæmt breytingum á 4. kafla kjarasamninga við opinbera starfsmenn árið 2020 skal orlof vera 240 vinnuskyldustundir (30 dagar) miðað við fullt starf, sjá 10. gr. í kjarasamningi aðila frá 17. apríl 2020. Þessi breyting gerir að verkum að 48 klukkustunda viðbótarorlof dregst frá A hluta allra yngri en 55 ára sem verður því 1.392 klukkustundir.

Kjarasamningur framhaldsskólakennara tryggir kennurum kennsluafslátt við 55 og 60 ára lífaldur. Með kennsluafslætti dregur úr klukkustundafjölda í A hluta eins og hér er sýnt:

Aldur
Aldursafsláttur af A hluta
A hluti kennsla
B hluti
föst störf
C hluti
Sérstök verkefni
Stundir á ári
<55 ára
 
1.392 klst.
360 klst.
0 klst.
1.752 klst.
55-59 ára
58 klst. (4,17%)
1.334 klst.
360 klst.
0 klst.
1.752 klst.
60 ára +
290 klst. (20,83%)
1.102 klst.
360 klst.
0 klst.
1.752 klst.

Hjá þeim kennurum sem völdu á árinu 2001 að halda óbreyttum kennsluafslætti dregur úr klukkustundafjölda í A hluta eins og hér er sýnt:

Aldur
Aldursafsláttur af A hluta
A hluti kennsla
B hluti
föst störf
C hluti
Sérstök verkefni
Stundir á ári
<55 ára
 
1.392 klst.
360 klst.
0 klst.
1.752 klst.
55-59 ára
174 klst. (12,5%)
1.218 klst.
360 klst.
0 klst.
1.752 klst.
60 ára +
406 klst. (29,17%)
986 klst.
360 klst.
0 klst.
1.752 klst.

Vinnumat í breytilegu skólastarfi

Núverandi kjarasamningur aðila auk vinnumatskerfis er í höfuðatriðum nægjanlegur grunnur til að útfæra vinnumat í breytilegu skólastarfi.

 • Kjarasamningur og skýrsla Verkefnisstjórnar um vinnumat með sýnidæmum myndar núverandi ramma um samningsbundið vinnumat.
 • Sýnidæmin eru grunnur sem líta skal til við mat á vinnu kennara við áfanga.
 • Vinnumatið er hugsað sem farvegur fyrir framhaldsskóla til að þróa nýjar aðferðir í starfi og þurfa skólar að hafa ákveðið svigrúm til þess að þróa og móta vinnumat í samræmi við faglegar áherslur á hverjum stað og tíma.
 • Vinnumat fer fram í skólum í samstarfi skólastjórnenda og kennara.
  o Allar breytingar frá sýnidæmum vinnumats skulu gerðar í sátt aðila.
  o Sérstakar vinnumatsnefndir í hverjum skóla gera samkomulag um breytingar frá sýnidæmum. Stjórnendur og kennarar tilnefna jafnmarga fulltrúa í vinnumatsnefnd.
  o Þar til vinnumatsnefndir í skólunum hafa náð samkomulagi um breytingar á vinnumati gilda nýjustu útfærslur sýnidæma.
  o Takist ekki samkomulag má vísa ágreiningi til úrskurðar (skv. 2. kafla viðauka 1 í kjarasamningi frá 21. apríl 2018).

Í grein 2.1.6.2 í kjarasamningi segir: "Mat á vinnu kennara vegna námsáfanga er byggt á áfangalýsingu viðkomandi áfanga og er unnið af kennurum og skólastjórnendum. Vinnumat skal byggja á hlutlægum viðmiðum og málefnalegum tilefnum."

Eins og segir í Skýrslu verkefnisstjórnar 2015 eru sýnidæmin „grundvöllurinn að vinnumati áfanga í hverjum framhaldsskóla. Þau eru ætluð til viðmiðunar en eru ekki bindandi fyrir útfærslu á vinnumati allra þeirra áfanga sem tilheyra þeim greinum og greinaflokkum sem sýnidæmin vísa til.“ Sem dæmi má nefna að einstaka þætti vinnumats áfanga má hreyfa til svo lengi sem heildartímafjöldi fer ekki undir gildandi sýnidæmi viðkomandi námsgreinar miðað við tilgreindan nemendafjölda.

Vinnumatsnefndir

Eins og segir í aðfararorðum kjarasamnings Kennarasambands Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra frá 4. apríl 2014 er ætlunin að „færa útfærslur faglegs starfs skóla og kennara frá samningsaðilum til fagfólks í skólamálum. […] Með því er þess vænst að hagur bæði skóla og kennara batni, auk þess sem skólaþróun verði auðveldari innan skólanna til að mæta margvíslegum þörfum nemenda.“

Í sérstökum viðauka sem gerður var við kjarasamning aðila þann 21. apríl 2018 er fjallað um aðferðafræði við þróun vinnumats. Þar er kveðið á um að í hverjum framhaldsskóla skuli starfrækt sérstök vinnumatsnefnd, skipuð jafnmörgum fulltrúum stjórnenda og kennara til tveggja ára í senn. Hlutverk vinnumatsnefnda sé að komast að samkomulagi um vinnumat ef vikið er frá sýnidæmum viðkomandi greinar eða greinaflokks við skipulag áfanga.

Hver vinnumatsnefnd setur sér starfsreglur en nefndir skulu halda fundargerðir, sem eru aðgengilegar kennurum í viðkomandi skóla.

Vinnumatsnefndir hafa fullt leyfi til að kalla sérfræðinga til álitsgjafar og skulu gæta þess í hvívetna að standa faglega og af hlutleysi að mótun vinnumats áfanga.

Þegar nýr áfangi er tekinn upp við framhaldsskóla er hann vinnumetinn. Áður en sú vinna hefst þarf að liggja fyrir áfangalýsing viðkomandi áfanga. Vinnumatsnefnd metur hvort sýnidæmi í tilheyrandi greinaflokki eigi við um áfangann. Ef svo er ekki skal vinnumatsnefnd komast að samkomulagi um útfærslu vinnumats viðkomandi áfanga. Sú útfærsla getur eftir atvikum gilt sem nýtt sýnidæmi um áþekka áfanga innan viðkomandi skóla.

Kalla má eftir endurskoðun á vinnumati áfanga. Þá skal erindi þar um sent á vinnumatsnefnd skólans og láta fylgja ítarlegan rökstuðning um forsendur fyrir nauðsyn á endurskoðun á vinnumati áfanga á þar til gerðu eyðublaði. Vinnumatsnefnd tekur erindið fyrir svo fljótt sem auðið er, helst innan fjögurra vikna. Um slík erindi gildir sama vinnuferli og við vinnumat nýrra áfanga.

Takist vinnumatsnefnd ekki að ná samstöðu um mat á nýjum eða breyttum áfanga eða breyttu kennslulagi til vinnustunda er formlegum fulltrúum skólans eða kennara heimilt að vísa ágreiningnum til úrskurðar. Báðir aðilar gera þá grein fyrir sjónarmiðum sínum. Til að úrskurða um ágreining fjallar fjögurra manna ráð sem skipað er tveimur fulltrúum tilnefndum af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og tveimur af Kennarasambandi Íslands. Takist því ráði ekki að komast að niðurstöðu hefur sáttanefnd Kennarasambands Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins samkvæmt kjarasamningum lokaorð í málinu. Sjá nánar viðauka 1 í kjarasamningi aðila frá 21. apríl 2018.

Ef ekki verða varanlegar breytingar á aðstæðum skólastofnunar eiga árstíðabundnar breytingar á vinnuframboði ekki að hafa áhrif á ráðningarhlutfall starfsmanna. Breytilegt vinnumat starfsmanna á því ekki að raska ráðningarhlutfalli.

Leiði fækkun nemenda á fyrstu fullu þremur vikunum til þess að kennari uppfylli ekki ráðningarhlutfall sitt skal fyrst horft til verkefna í A-hluta áður en horft er til annarra verkefna (sbr. 7. gr. í samkomulagi aðila frá 17. apríl 2020.

Ítarefni og fylgigögn

 1. Kjarasamningur frá 4. apríl 2014
 2. Kjarasamningur frá 1. apríl 2015
 3. Skýrsla verkefnisstjórnar um vinnumat og viðauki frá 2015
 4. Úrskurðir fyrri vinnumatsnefnda í innleiðingarferli 2015
 5. Samkomulag samningsaðila um niðurstöðu forsendunefndar um ráðrúm til breytinga á vinnumati, 31. okt. 2016
 6. Niðurstaða verkefnisstjórnar um breytingar á vinnumati, 13. des. 2016
 7. Samkomulag samningsaðila um útfærslu breytinga á vinnumati, 13. des. 2016 – Sýnidæmi
 8. Sýnidæmi í gildi frá vorönn 2017
 9. Úrskurður Félagsdóms frá 22. sept. 2016
 10. Kjarasamningur. Ritstýrður kjarasamningstexti sem gildir í heild frá 1. mars 2014. Kennarasamband Íslands, 2016
 11. Kjarasamningur frá 21. apríl 2018 með viðauka 1: Þróun vinnumats og hlutverk mennta- og menningarmálaráðuneytis
 12. Samkomulag mennta- og menningarmálaráðherra og KÍ, 23. apríl 2018
 13. Bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis til skólameistara framhaldsskóla vegna endurskoðunar á vinnumati, 28. maí 2018
 14. Kjarasamningur frá 17. apríl 2020
 15. Kjarasamningur frá 31. mars 2021
 16. Erindi til vinnumatsnefndar - eyðublað

Uppfært 5.12.22.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum