Hoppa yfir valmynd

Inngangur ráðherra

Í rekstri ríkisfyrirtækja felst mikil ábyrgð. Hún snýr ekki eingöngu að viðskiptavinum hvers félags, heldur almenningi öllum. Það er, og á að vera, undantekning að ríkið standi í fyrirtækjarekstri, en þegar ástæða þykir til slíks rekstrar þarf hann ávallt að vera til fyrirmyndar. Þetta á jafnt við um hagkvæmni, upplýsingagjöf, samkeppnissjónarmið og annað sem reksturinn kann að snerta.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherraÞað er hlutverk fjármála- og efnahagsráðherra að fara með eignarhlut ríkisins í félögum og setja þeim almenna eigandastefnu í samræmi við lög um opinber fjármál. Ráðuneytinu er svo falið að hafa eftirlit með því að eigandastefnunni sé fylgt eftir. Eigandahlutverk ríkisins byggir á viðurkenndum leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja1 og þá sérstaklega leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti fyrirtækja í opinberri eigu.2

Regluleg samskipti eru grundvallaratriði til að vel gangi og upplýsingagjöf fyrirtækjanna til eigandans þarf alltaf að vera snuðrulaus. Bætt yfirsýn, aukið gagnsæi og samfélagslega arðbær og ábyrgur rekstur eru leiðarstef ríkisins. Það er svo viðvarandi verkefni að endurskoða eignarhaldið, bæði í sjálfu sér og fyrirkomulag þess, samskipti og umgjörð. Í fjármálaáætlun og fjárlögum eru helstu verkefni, áskoranir og tækifæri skilgreind hverju sinni. Nýtt fyrirkomulag umsýslu og stýringar eignarhalds ríkisins í félögum ásamt endurskoðun og mati á safni ríkisins ber hæst að þessu sinni.

Ég bind vonir við að samstarfið verði áfram farsælt á komandi misserum, almenningi öllum til heilla.

 

1 Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins.
2 OECD Guidelines on Corporate Governance of State-Owned Enterprises.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum