Hoppa yfir valmynd

Samþykktir um stjórn og fundarsköp

Kveðið er á um skyldu sveitarstjórna til að setja sér samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast í sveitarstjórnarlögum. Innviðaráðuneyti skal semja fyrirmynd að slíkri samþykkt og birta hana í Stjórnartíðindum. Fyrirmyndin gildir þar til sérstök samþykkt hefur verið gerð fyrir viðkomandi sveitarfélag.

Sveitarfélögin hafa mikið sjálfræði um uppbyggingu eigin stjórnkerfis og íslensk lög fullnægja að því leyti kröfum skv. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga. Í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu ber sveitarstjórn að taka afstöðu til fjölda atriða sem varða innra stjórnskipulag sveitarfélagsins, svo sem um þær nefndir sem kjósa skal, meginatriði um hlutverk þeirra, verkaskiptingu milli sveitarstjórnar og sveitarstjóra og eftir atvikum byggðarráðs og sveitarstjóra, helstu ákvæði um starfslið o.fl. Mikilvægt er að sveitarfélög sinni þeirri skyldu að setja samþykktir og vandi til þess verks.

Samþykktir um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga þurfa staðfestingu ráðherra en í því felst að honum er ætlað að yfirfara samþykkt með tilliti til þess hvort ákvæði í henni eru í samræmi við lög, bæði með tilliti til þess hvort í samþykkt er tekin afstaða til allra þeirra þátta sem þar ber að fjalla um og með tilliti til þess hvort þar er að finna ákvæði sem ganga gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga eða annarra laga. Í þessu eftirliti ráðherra felst því einvörðungu eftirlit með lögmæti samþykktarinnar sem slíkrar. Samþykktir um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda auk þess sem þær eru birtar á heimasíðum sveitarfélaga. 

Leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna

Ráðuneytið hefur gefið út auglýsingu um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna. Markmið þeirra er að veita leiðsögn um ritun fundargerða sveitarstjórna, m.a. um hvað þar er skylt að bóka, um staðfestingu þeirra þegar að loknum fundi og skráningu og meðferð rafrænna fundargerða, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011

Notkun fjarfundarbúnaðar

Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um heimild til notkunar fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna. Af henni leiðir að heimilt er að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórna sé ákveðnum skilyrðum fullnægt, t.d. ef fjarlægðir í sveitarfélagi eru miklar eða samgöngur erfiðar.. Skal þá mæla fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum um stjórn og fundarsköp . Ráðuneytið hefur auglýst leiðbeinandi reglur um notkun fjarfundarbúnaðar á sveitarstjórnarfundi.

Leiðbeiningar um mótun þjónustustefnu

Með lögum nr. 96/2021 sem tóku gildi í júní 2021 samþykkti Alþingi nýtt ákvæði við sveitarstjórnarlög sem fjallar um þjónustustefnu í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags. Samkvæmt 130. gr. a sveitarstjórnarlaga, skal sveitarstjórn móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú árin eftir það, um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðakjörnum viðkomandi sveitarfélags. Mótun stefnunnar skal unnin samhliða fjárhagsáætlun og skal málsmeðferðin vera sú sama, þ.e. byggðarráð eða framkvæmdastjóri, eftir því sem kveðið er á um í samþykkt um stjórn sveitarfélags, leggur tillögu um þjónustustefnu í byggðum eða byggðarlögum sveitarfélags fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1. nóvember ár hvert.

Til að markmiðum þessa ákvæðis verði betur náð hefur Byggðastofnun, að beiðni ráðuneytisins, unnið fyrirmynd og leiðbeiningar um gerð þjónustustefnu sveitarfélags í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing.

Athygli er vakin á því að sveitarfélög geta með ýmsum hætti nálgast það hvernig þau móta sér stefnu um þjónustustig í byggðum og byggðarlögum og leiðbeiningar þessar eru eingöngu dæmi um mögulega nálgun. Ráðuneytið vill þó árétta að sveitarfélögum ber lögbundin skylda til að hafa samráð við íbúa um mótun og gerð stefnunnar og í leiðbeiningum Byggðastofnunar er fjallað um hvernig slíku samráði getur verið hátt. Þá bendir ráðuneytið á að í X. kafla sveitarstjórnarlaga er að finna ýmis dæmi um íbúasamráð.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 24.10.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum