Hoppa yfir valmynd
Táknmál
Loka

Málefni sveitarfélaga
Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð eftir því sem lög ákveða í samræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar.

Málefni sveitarfélaga heyra stjórnarfarslega undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem standa skal vörð um hagsmuni sveitarfélaga, sjálfstjórn þeirra, verkefni og fjárhag.

Ráðherra skal hafa eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum í samræmi við lög og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Þá er heimilt að kæra til ráðherra stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga að svo miklu leyti sem það úrskurðarvald hefur ekki verið falið öðrum að lögum.

Svæða- og byggðamál heyra jafnframt undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þar með talin byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta, atvinnuþróun og atvinnuþróunarfélög, svæða- og byggðarannsóknir og svæðisbundin flutningsjöfnun. Þá heldur ráðuneytið um málefni Byggðastofnunar og Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara.

Byggðaáætlun lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Í byggðaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára.

Verkefni á sviði sveitarstjórna og byggðamála heyra meðal annars undir eftirfarandi málefnasvið í gildandi fjármálaáætlun: Sveitarfélög og byggðamál.

Stefna í málefnum sveitarfélaga 2019-2033

Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að ráðherra sveitarstjórnarmála skuli að minnsta kosti á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði. Þann 29. janúar 2020 var núgildandi áætlun samþykkt fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir 2019-2023. Stefnumótunin er hin fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Meginmarkmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga er að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. 

Í upphafi árs 2019 var skipaður starfshópur til að undirbúa stefnumótunina og í apríl sama ár var lögð fram grænbók um stefnu í málefnum sveitarfélaga. Hún var birt í samráðsgátt stjórnvalda en með því gat almenningur og hagsmunaaðilar komið á framfæri sínum sjónarmiðum sínum sem nýst gætu við stefnumótunina. Alls bárust 24 umsagnir, flestar frá sveitarstjórnum eða byggðaráðum þar sem grænbókin hafði verið til umfjöllunar, nokkrar frá einstaklingum og þrjár frá samtökum.

Í núgildandi áætlun um málefni sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 er áhersla einkum lögð á tvö meginmarkmið. Það fyrra snýr að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra og það seinna lýtur að sjálfsstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra, m.a. við að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Skilgreindar eru áherslur við hvort markmið um sig, sem geta leitt til skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum.

Í aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023 eru kynntar 11 skilgreindar aðgerðir sem eiga að tryggja framgang markmiða áætlunarinnar. Aðgerðirnar og staða þeirra eru eftirfarandi:

1. Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni.
Lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnar­kosningum árið 2026.
Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög.
Tímabil: 2020–2026.

Staðan 1. maí 2021:

Ráðherra mælti í janúar 2021 fyrir frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem innleiðir á ný ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Samkvæmt frumvarpinu verður lágmarksíbúafjöldi 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 og 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026. Frumvarpið er mikilvægur liður í að ná öðru af meginmarkmiðum áætlunarinnar þ.e. sjálfbærni sveitarfélaga.

Efni frumvarpsins er í megindráttum tvískipt. Annars vegar þau ákvæði sem hafa þann tilgang að mæla fyrir um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, aðlögun að slíku ákvæði og hvernig málsmeðferð skuli háttað þegar ráðherra hefur frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga. Hins vegar önnur ákvæði frumvarpsins sem tengjast sameiningum sveitarfélaga, svo sem ákvæði sem skýrir heimildir sveitarfélaga til að nýta fjarfundarbúnað á fundum sínum. Þá er lagt til að sveitarfélög þurfi að móta stefnu um þjónustustig byggða sem eru fjarri stærri byggðakjörnum. Að auki eru lagðar til ýmsar aðrar breytingar sem hafa þann tilgang að draga úr lagahindrunum þegar kemur að sameiningu sveitarfélaga, sem og að tryggja fjárhagslegan stuðning úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga við sameiningar.

Frumvarpið er nú til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd og mun framhald málsins ráðast í meðförum þingsins.

 

2. Fjárhagslegur stuðningur við sameiningar

Verkefnismarkmið: Að stórauka stuðning við sameiningu sveitarfélaga.
Reglum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði breytt til að tryggja aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaga. Sjóðnum verði veittar heimildir í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að leggja árlega til hliðar fjármagn til að mæta kostnaði vegna nýrra reglna um fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga.
Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og sveitarfélög.
Tímabil: 2019–2026.

Staðan 1. maí 2021:

Í júlí 2020 tóku gildi nýjar reglur um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga. Reglurnar fela í sér aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga og varða fyrirkomulag útreiknings á skuldajöfnunarframlagi sem og framlags vegna endurskipulagningar á stjórnsýslu í kjölfar sameiningar. Einnig er komið til móts við þau sveitarfélög þar sem íbúaþróun hefur verið undir landsmeðaltali með sérstöku byggðaframlagi. Allt að 15 milljarðar króna gætu runnið í slíkan stuðning á næstu 15 árum allt eftir því hvort sveitarfélög hyggjast nýta sér þennan möguleika. Nýmæli er að einstök sveitarfélög geta fyrirfram séð hvað kæmi í þeirra hlut samkvæmt reglunum óháð því hvaða sveitarfélagi verið er að sameinast.

Í desember 2019 samþykkti Alþingi jafnframt frumvarp til breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem m.a. var að finna nánari útlistun á þeim atriðum sem tengjast sameiningu sveitarfélaga sem Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er heimilt að veita framlög. Þá var lögfest bráðabirgðaákvæði sem veitir sjóðnum heimild til að halda eftir allt að 1.000 millj. kr. á ári í 15 ár af tekjum Jöfnunarsjóðs sem ekki renna til málefna fatlaðs fólks eða reksturs grunnskóla til að mæta greiðslu á sérstökum framlögum úr sjóðnum sem koma til vegna sameiningar sveitarfélaga.

Í yfirlýsingu í tengslum við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál (sjá nánar undir aðgerð 3) er jafnframt kveðið á um 935 m.kr. framlag ríkisins sem styðji við stefnumarkandi áætlun ríkisins um eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukna sjálfbærni þess með sameiningum sveitarfélaga.

 

3. Tekjustofnar sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra.
Unnin verði greinargerð um núverandi tekjustofnakerfi og gerð grein fyrir tekjustofnum sem færst gætu á milli ríkis og sveitarfélaga og mögulegir nýir tekjustofnar sveitarfélaga reifaðir.
Gistináttagjald verði fært til sveitarfélaganna í síðasta lagi árið 2022.
Lokið verði við heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir almennar sveitarstjórnarkosningar 2022 og breytingar innleiddar í áföngum á því kjörtímabili. Markmiðið endurskoðunar verði að auka jöfnuð sem styður við langtímastefnumótun, m.a. á sviði opinberra fjármála.
Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Samband íslenskra sveitar­félaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. maí 2021:

Annað af aðal markmiði áætlunarinnar er að tryggja getu sveitarfélaga til að annast lögbundin verkefni þeirra og styrkja fjárhagslega stöðu þeirra. Í október 2020 undirrituðu fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og forysta Sambands íslenskra sveitarfélaga samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir árin 2021-2025. Í samkomulaginu eru tilgreind fjöldi verkefna sem gert er ráð fyrir að unnið verði að á næstu árum. Meðal verkefna er heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sbr. ofangreind markmið.

Í tengslum við samkomulagið var einnig undirrituð viljayfirlýsing forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra til að vinna að því að afla fjárheimilda á Alþingi fyrir aðgerðir sem miða að því veita sveitarfélögunum fjárhagslega viðspyrnu og til að verja lögbundna grunnþjónustu. Viðbótarframlög ríkissjóðs nema samtals 3.305 m.kr. og heildarstuðningur til viðspyrnu fyrir sveitarfélögin á grundvelli yfirlýsingarinnar nemur því 4.805 m.kr. Aðgerðirnar sem fjárheimilda verður aflað vegna varða m.a. málefni fatlaðs fólks, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, stóraukinn stuðning við sameiningu sveitarfélaga o.fl. Auk þess verður heimilað að nýta 1.500 m.kr. úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að vega upp á móti lækkun almennra tekju- og útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað verkefnisstjórn til að stýra verkefni sem tekur mið af ofangreindum markmiðum um endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs. Annars vegar er um að ræða endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og mat á fjármögnunarþörf sveitarfélaga miðað við núverandi verkefni. Megináherslan er á sjálfstæða tekjustofna og tækifæri til staðbundinnar forgangsröðunar við álagningu. Hins vegar lýtur verkefnið að heildarendurskoðun á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hlutverk sjóðsins verður áfram að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá hafa verið skipaðar tvær sérfræðinefndir sem munu starfa í umboði verkefnisstjórnarinnar. Er þeim ætlað að vinna að greiningu og framsetningu valkosta, annars vegar um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og hins vegar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að í desember 2021 liggi fyrir tillögur um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og reglum sem gilda um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, ásamt mati á áhrifum þeirra fyrir félagslega sjálfbærni sveitarfélaga til lengri og skemmri tíma.

 

4. Fjármál og skuldaviðmið

Verkefnismarkmið: Að tryggja sjálfbærni fjármála sveitarfélaga og lækkun skuldaviðmiðs sveitarstjórnarlaga fyrir A- og B-hluta reikningsskila sveitarfélaga.
Viðmið fyrir A-hluta verði 100% frá 1. janúar 2027, en veittur verði tíu ára aðlögunartími til að ná nýju viðmiði. Forsendur fyrir skilgreiningu skuldaviðmiðs sveitarstjórnarlaga verði yfirfarnar, sem tryggi gagnsæi og áreiðanleika varðandi mat á fjármálum einstakra sveitarfélaga. Jafnframt verði heimild fyrir samkomulagi sveitarstjórnar og ráðherra um fjármál rýmkuð hvað varðar tímabundin frávik frá meginreglu um skuldaviðmið og önnur fjárhagsleg atriði vegna samfélagslegra átaksverkefna eða sérstakra aðstæðna í fjármálum.
Þá verði unnið á grundvelli ráðherraskipaðrar nefndar um fjármálakafla sveitarstjórnarlaga, m.a. er varðar fjármálareglur skv. 64. gr. sömu laga.
Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög.
Tímabil: 2020.

Staðan 1. maí 2021:

Í bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög kemur fram að endurskoða skuli ákvæði laga um fjármál sveitarfélaga innan fimm ára frá gildistöku. Vegna þessa ákvæðis var stofnaður vinnuhópur sem skilaði skýrslu í desember 2016. Markmið vinnuhópsins var að greina reynslu aðila af lögunum og koma fram með tillögur til breytinga. 

Niðurstöðum vinnuhópsins var skipt í tvo hluta; það sem hægt var að breyta strax og breytingar sem þurfa nánari umræðu. Ákveðið var að vinna áfram með þau atriði sem vinnuhópurinn fjallaði um og önnur sem varða fjármálakafla sveitarstjórnarlaga, s.s. reikningshald byggðarsamlaga og uppgjör í samstæðu, ákvæði um skuldaviðmið og mögulega lækkun þess, erlendar lántökur sveitarfélaga, útfærslur með tilliti til þjóðhagsreikninga og mælikvarða heildarafkomu, skuldir verði skilgreindar þrengri en nú er í samræmi við þjóðhagsreikninga o.fl.

Árið 2018 starfshópur um verkefnið og fólst vinna hans í því að móta endanlegar tillögur um framangreind atriði. Starfshópurinn hefur unnið að tillögum en vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafa efnahagslegar forsendur sveitarfélaga breyst og því hefur verkefnið verið í bið síðustu mánuði. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að hópurinn skili ráðherra tillögum til ráðherra í lok maí 2021.

 

5. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að mótuð verði aðgerðaáætlun um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Með aðgerðaáætluninni verði tekin afstaða til þess hvaða verkefni sé rétt að færa frá ríki til sveitarfélaga og öfugt. Tekin verði m.a. afstaða til tilfærslu á þjónustu við aldraða, rekstri framhaldsskóla og málefnum heilsugæslu frá ríki til sveitarfélaga.
Komið verði á fót tilraunaverkefni á sviði breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Verkefnið taki mið af reynslu sem fengist hefur með sambærilegum verkefnum hérlendis sem erlendis.
Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Öll ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. maí 2021:

Framkvæmd aðgerðar hefur verið í bið en stefnt að því að hefja formlega vinnu haust/vetur 2021-2022. Þó hefur lengi verið starfandi samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um skýra verka- og ábyrgðarskiptingu í opinberri þjónustu sem hefur tekið fyrir álitaefni eða grá svæði varðandi verka- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og barnamálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa unnið að endurskoðun varðandi skipulag og rekstur Innheimtustofnunar sveitarfélaga, fyrirkomulag innheimtu og kostnaði þar að lútandi, með það að meginmarkmiði meðal að einfalda á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, skýra stjórnsýslulega ábyrgð og einfalda framkvæmd.

Þá hefur ráðuneytið tekið saman yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga sem er ætlað til leiðbeiningar fyrir sveitarfélög við stefnumótun og áætlanagerð ásamt því að auðvelda umræðu og yfirsýn yfir skyldur og hlutverk sveitarfélaga.

 

6. Landshlutasamtök sveitarfélaga og samvinna sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að skýra stöðu og hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga.
Unnið verði í samræmi við tillögur ráðherraskipaðrar nefndar um starfsemi landshlutasamtakanna.
Hugað verði að samvinnu sveitarfélaga og samningum um starfrækslu verkefna. Skýrðar verði reglur um byggðasamlög, m.a. hvað varðar stjórnskipulag og lýðræðislegt umboð, reglur um framsal á valdi, reikningshald o.fl.
Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. maí 2021:

Í þessari aðgerð er tvær megin áherslur sem báðar varða samstarf sveitarfélaga.

Annars vegar skilaði starfshópur til ráðherra í nóvember 2020 skýrslunni Staða og hlutverk landshlutasamtaka. Niðurstaða hópsins er að það vanti heildstæðan lagaramma utan um starfsemi landshlutasamtakanna og að við endurskoðun þurfi að hafa í huga að leyst verði úr vafaatriðum sem upp hafa komið og tengjast starfsemi þeirra.

Hins vegar hóf ráðuneytið haustið 2018  frumkvæðisathugun á samstarfssamningum sveitarfélaga. Tilgangur athugunarinnar var að afla heildstæðra upplýsinga um samstarfssamninga sveitarfélaga og leggja mat á hversu vel samningarnir samræmast þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra samninga í lögum. Fyrsti áfanginn var innköllun samninga og yfirferð þeirra. Samningarnir voru síðan sendir sveitarfélögum með athugasemdum sem við áttu hverju sinni með beiðni um endurskoðun og að ráðuneytið yrði upplýst stöðu mála. Í framhaldi þar af voru gefnar út leiðbeiningar vegna samvinnu sveitarfélaga. Í öðrum áfanga sem nú er að ljúka eru sveitarfélögin að yfirfara samninga um samstarf og senda viðeigandi ráðuneytum til yfirferðar, staðfestingar og birtingar eftir atvikum. Leiðsagnarhlutverk ráðuneytisins er töluvert, bæði gagnvart öðrum ráðuneytum og sveitarfélögum. Þriðji áfangi verður svo endurskoðun þeirra ákvæða sveitarstjórnarlaga sem varða samstarf sveitarfélaga.

Framundan er að samþætta þessi tvö verkefni. Hvað varðar stöðu landshlutasamtaka mun ráðuneytið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga rýna nánar niðurstöður skýrslunnar og koma með tillögur til úrlausna. Þá verður í ljósi reynslunnar af yfirferð á samstarfssamningum sveitarfélaga endurskoðaðar greinar sveitarstjórnarlaga sem fjalla um samstarf sveitarfélaga, á grundvelli greiningar á þeim atriðum samninganna sem helst var ábótavant. Hugað verði sérstaklega að ákvæðum sem gilda um byggðasamlög og samninga, skv. 96. gr. í sveitarstjórnarlaga.

 

7. Samskipti ríkis og sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaga og rétt þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, svo sem verkefnum og fjárhag.
Unnið verði að því að greina kosti þess að koma á fót nefnd eða gerðardómi að norrænni fyrirmynd sem taki fyrir ágreiningsmál sem upp kunna að koma í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og ekki eru falin öðrum stjórnvöldum til úrlausnar. Fjalla þyrfti m.a. um áhrif þess ef niðurstöður nefndar eða gerðardóms yrðu bindandi fyrir ríkisvaldið og sveitarfélögin og niðurstaða um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim tilteknu álitamálum yrði endanleg. Það kæmi þó ekki í veg fyrir að aðilar leituðu til dómstóla.
Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Öll ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. maí 2021:

Verkefnið er ekki formlega farið af stað en er þó reglulega til skoðunar á vettvangi samstarfsnefndar ríkis og sveitarfélaga, þar sem eiga sæti fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, fjármála- og efnahags-ráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.

 

8. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

Verkefnismarkmið: Að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og gæta að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks.
Unnið verði að greiningu á starfsaðstæðum og starfskjörum kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum hér á landi og niðurstaðan borin saman við aðstæður annars staðar á Norðurlöndum. Sérstaklega verði hugað að orsökum mikillar endurnýjunar í ljósi þess að stór hluti kjörinna fulltrúa gefur ekki kost á sér aftur eftir að hafa setið eitt kjörtímabil.
Ráðuneyti sveitarstjórnarmála gefi út, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, viðmiðanir um greiðslur og önnur réttindi sveitarstjórnarmanna fyrir þau störf sem byggjast á greiningu.
Unnin verði jafnréttisáætlun fyrir sveitarstjórnarstigið í heild sinni, með markmiðum og mælikvörðum, fyrir kjörna fulltrúa og lykilstjórnendur sveitarfélaga.
Ábyrgð: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Félagsmálaráðuneytið, Jafnréttisstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. maí 2021:

Verkefnið er þríþætt: greining á starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa, setja viðmið um greiðslu og önnur réttindi sveitarstjórnarmanna og að vinna með stjórnsýslu jafnréttismála og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að gerð jafnréttisáætlunar fyrir sveitarstjórnarstigið, skv. nýjum lögum um stjórnsýslu jafnréttismála. Verkefnið hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu og verða áformin kynnt á sumarmánuðum 2021. Við undirbúning verkefnisins hefur ráðuneytið m.a. haft samráð við önnur ráðuneyti, Jafnréttisstofu og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í tengslum við undirbúning verkefnisins óskaði ráðuneytið eftir því við Dr. Evu Marín Hlynsdóttur, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, að fá niðurstöður úr nokkrum afmörkuðum spurningum úr viðamikilli könnun sem hún stendur fyrir  á  starfsaðstæðum og viðhorfum kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa. Þessar spurningar varða mögulegt áreiti sem þeir verða fyrir í tengslum við störf sín í sveitarstjórn

Niðurstöður hennar benda til þess að ríflegar helmingur þeirra hafi orðið fyrir áreiti eða neikvæðu umtali á yfirstandandi eða síðasta kjörtímabili og var lítill sem enginn munur á milli kynja. Tölurnar sýna að algengast var að þátttakendur höfðu orðið fyrir áreiti á samfélagsmiðlum en einnig var töluvert um áreiti í opinberu rými, t.d. á skemmtunum, í búð, o.s.frv. Allt að 10% höfðu orðið fyrir slíku áreiti á heimilum sínum.

Hér er hugtakið áreiti eða ofbeldi ekki skilgreint nánar, t.d. í kynferðislegt áreiti, einelti eða annað ofbeldi, en í grunn spurningalistanum sem ríflega helmingur kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa  landsins svaraði er þessi reynsla skilgreind nánar. Mikilvægt er að hafa sem bestar upplýsingar um vinnuaðstæður og viðhorf kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa, m.a. í  ljósi þess að við lok undanfarinna tveggja kjörtímabila hafa rúmlega helmingur þeirra ekki gefið kost á sér til endurkjörs.

Drög að verkefnaáætlun í undirbúningi fela m.a. annars í sér:

  1. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa:
    • Þegar niðurstöður og greining á rannsókn Dr. Evu Marínar Hlynsdóttir á starfsaðstæðum kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa liggja fyrir verði unnar tillögur að aðgerðum
    • Gerð verður sérstök könnun á starfsumhverfi kjörinna sveitarstjórnarmanna sem beinist eingöngu að einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og „neikvæðu umtali, öðru áreiti og ofbeldishegðun gagnvart sveitarstjórnarmönnum
    • Niðurstöður beggja þessara verkefna verða m.a. tengdar spurningu um áframhaldandi starf í sveitarstjórnum.
  2. Viðmið um greiðslur og önnur réttindi sveitarstjórnarmanna fyrir þau störf sem byggjast á greiningu. Fyrsti hluti verkefnisins er þegar hafinn og felst í að Sambandið uppfærir vinnu og viðmiðanir um þóknanir og greiðslur sem eru frá 2016. Í lok þess áfanga verða teknar ákvarðanir um næstu skref, s.s. varðandi frekari aðkomu ráðuneytisins.
  3. Vinna með stjórnsýslu jafnréttismála og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að gerð jafnréttisáætlunar fyrir sveitarstjórnarstigið skv. nýjum lögum um stjórnsýsla jafnréttismála

 

9. Lýðræðislegur vettvangur

Verkefnismarkmið: Að bæta aðkomu almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun á sveitarstjórnarstigi.
Komið verði á fót lýðræðislegum vettvangi sveitarfélaganna til að tryggja íbúum sveitarfélaga og þeim sem njóta þjónustu þeirra möguleika á að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar. Í því skyni verði vettvangurinn markvisst nýttur til að þróa aðferðir, verklag og leiðir til að hagnýta rafrænar lausnir.
Komið verði á fót tilraunaverkefni í nokkrum sveitarfélögum sem miði að því að prófa ólíkar leiðir til að fá íbúa til að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun fyrir nærsamfélagið. Meðal annars verði skoðað hvernig hægt sé að styrkja og viðhalda þátttöku og aðkomu íbúa að málefnum sem varða þeirra nærumhverfi í dreifbýli og/eða fjölkjarnasveitarfélögum.
Metin verði þörf fyrir breytingar á sérreglum í tilraunaskyni um stjórn og stjórnskipulag einstakra sveitarfélaga, sbr. 132. gr. sveitarstjórnarlaga.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Forsætisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. maí 2021:

Nýlega lauk á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga tilrauna- og þróunarverkefni með það að markmiði að byggja upp þekkingu í þátttökusveitarfélögum á því hvernig hægt sé að beita þeim samráðsaðferðum sem kynntar eru í handbók sambandsins frá 2017 í raunverulegum aðstæðum og afla reynslu sem nýst getur öðrum sveitarfélögum í framhaldinu. Framhald aðgerðarinnar verður ákveðið með hliðsjón af þeirri vinnu.

 

10. Rafræn stjórnsýsla sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að bæta aðgengi almennings að þjónustu og stjórnsýslu sveitarfélaga, bæta samskipti og tryggja gott flæði upplýsinga.
Ráðist verði í átak til að efla rafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga. Áhersla verði á að hagnýta þá upplýsingatækni­innviði sem byggðir hafa verið upp og þekkingu á rafrænum lausnum hins opinbera.
Komið verði á miðlægu samstarfi milli sveitarfélaga til að auðvelda þeim að verða virkir þátttakendur í stafrænni framþróun og nýta nútímatækni til að bæta þjónustu, samskipti við íbúana og nýsköpun í opinberri stjórnsýslu.
Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, forsætisráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og einstök sveitarfélög.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. maí 2021:

Unnið hefur verið að átaksverkefni til að efla rafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga en ábyrgð á framkvæmd verkefnisins liggur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu (Stafrænu Íslandi) í samstarfi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Samstarfsaðili er Samband íslenskra sveitarfélaga sem sér um samhæfingu á verkefnavali við sveitarfélög. Stafrænt Ísland er miðlæg þjónustuteymi sem vinnur þvert á ráðuneyti og stofnanir að því að stafræn samskipti verði megin samskiptaleið hins opinbera. Hjá Stafrænu Íslandi er tilbúin umgjörð fyrir þróun og rekstur stafrænna lausna, til staðar er samþykkt tæknistefna og stafræn viðmið sem farið er eftir við þróun og uppsetningu lausna. Stafrænt ráð sveitarfélaganna var stofnað í október 2021 sem hefur einnig unnið að kostnaðarmódeli samstarfs sveitarfélaga er snýr að samvinnu sveitarfélaga í stafrænni stjórnsýslu og hefur meginþorri sveitarfélaga samþykkt kostun tveggja starfa frá maí nk. í stafrænt teymi sem vinnur fyrir sveitarfélögin.

Fyrsta verkefnið sem stafrænt ráð sveitarfélaga kom sér saman um er stafvæðing ferlis um fjárhagsaðstoð fyrir sveitarfélög, frá umsókn til afgreiðslu. Markmið þess er að búa til sjálfsafgreiðslu feril þar sem íbúar sveitarfélaga geta sótt um fjárhagsaðstoð með það að markmiði að bæta þjónustu, stytta ferlið og fækka handtökum. Reykjavíkurborg var þá búið að koma slíkri lausn í framkvæmd hjá sér. Byrjað var á því að skoða hvort að tæknileg útfærsla Reykjavíkurborgar gæti nýtts sem grunnur fyrir önnur sveitarfélög undir merkjum ísland.is, en Reykjavíkurborg bauðst að gera sína hönnun og kóða aðgengilega öðrum sveitarfélögum.  Niðurstaðan var að ekki væri hægt að nýta lausn Reykjavíkurborgar nema að takmörkuðum hluta innan Stafræns Íslands, þar sem tæknihögun Reykjavíkurborgar og Stafræns Íslands er ólík. Unnið er að skilgreiningu verksins, þ.e. högun og vörusýn, verkáætlun og verksamningar sem felur í sér markmið, umfang, umgjörð, tímalínu og innleiðingu, mönnun, rekstrarhliðar og fjármögnun. Þá verður hægt að hefja eiginlega þróunarvinnu og forritun verkefnisins.

 

11. Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni

Verkefnismarkmið: Að auka fjölbreytni í atvinnulífi um allt land og bæta forsendur fyrir jöfn tækifæri sveitarfélaga óháð stærð og staðsetningu til sjálfbærs vaxtar.
Samhliða stefnumörkun þessari verði ráðist í átak til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Með því móti verði leitast við að styrkja atvinnugrundvöll í nýsameinuðum sveitarfélögum víða um land og nýta um leið rafræna innviði. Unnin verði greining sem nýtist við að móta aðgerðaáætlun um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
Ábyrgð: Forsætisráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Öll ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. maí 2021:

Verkefni ekki formlega hafið en tengist vinnu stjórnvalda við fjölgun opinberra starfa sem m.a. er unnið að með aðgerðum í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira