Hoppa yfir valmynd
Táknmál

Málefni sveitarfélaga
Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð eftir því sem lög ákveða í samræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar.

Málefni sveitarfélaga heyra stjórnarfarslega undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem standa skal vörð um hagsmuni sveitarfélaga, sjálfstjórn þeirra, verkefni og fjárhag.

Ráðherra skal hafa eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum í samræmi við lög og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Þá er heimilt að kæra til ráðherra stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga að svo miklu leyti sem það úrskurðarvald hefur ekki verið falið öðrum að lögum.

Svæða- og byggðamál heyra jafnframt undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þar með talin byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta, atvinnuþróun og atvinnuþróunarfélög, svæða- og byggðarannsóknir og svæðisbundin flutningsjöfnun. Þá heldur ráðuneytið um málefni Byggðastofnunar og Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara.

Byggðaáætlun lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Í byggðaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára.

Verkefni á sviði sveitarstjórna og byggðamála heyra meðal annars undir eftirfarandi málefnasvið í gildandi fjármálaáætlun: Sveitarfélög og byggðamál.

Stefna í málefnum sveitarfélaga 2019-2033

Málefni sveitarfélaga

Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð eftir því sem lög ákveða í samræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar. Málefni sveitarfélaga heyra stjórnarfarslega undir innviðaráðherra sem standa skal vörð um hagsmuni sveitarfélaga, sjálfstjórn þeirra, verkefni og fjárhag. Ráðherra skal hafa eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum í samræmi við lög og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Þá er heimilt að kæra til ráðherra stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga að svo miklu leyti sem það úrskurðarvald hefur ekki verið falið öðrum að lögum.

Ráðuneytinu ber að leggja fyrir Alþingi, að minnsta kosti á þriggja ára fresti, tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Þá skal í áætluninni mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði. Um er að ræða nýmæli í sveitarstjórnarlögum sem felur í sér að stefna ríkisins í málefnum sveitarfélaga er formgerð í sérstakri áætlun til samræmis við aðra áætlanagerð á verksviði ráðuneytisins. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um gerð stefnumótandi áætlunar og aðgerðaáætlunar.

Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að ráðherra sveitarstjórnarmála skuli að minnsta kosti á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði. Fyrsta áætlunin og meðfylgjandi aðgerðaráætlun af þessu tagi fyrir árin 2019-2023 var samþykkt Alþingi þann 29. janúar árið 2020.

Stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga er ætlað að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi.

Meginmarkmið stefnumótunarinnar sjálfrar eru tvö. Hið fyrra er að stuðla að því að sveitarfélög á Íslandi verði öflug, sjálfbær og ýti undir lýðræðislega virkni íbúa. Hið seinna er að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaganna verði virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Skilgreindar eru  áherslur við hvort markmið fyrir sig. Þessar áherslur leiða til skilgreindra aðgerða eða samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum.

Hér að neðan fylgir yfirlit yfir aðgerðir og stöðu einstakra aðgerða innan núgildandi áætlunar. Þegar hefur verið hafist vinna við endurskoðun stefnu og aðgerðaráætlunar með útgáfu grænbókar um stöðu og valkosti sveitarfélaga. Grænbókin byggir á fyrirliggjandi upplýsingum og víðtæku samráði við fulltrúa sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Í framhaldi af vinnslu grænbókarinnar leggur starfshópur um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaganna drög að endurskoðaðri stefnu stjórnvalda í hvítbók. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til áranna 2024-2038 var lögð fram á Alþingi í september 2023.

Ítarefni

Í aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023 eru kynntar 11 skilgreindar aðgerðir sem eiga tryggja framgang markmiða áætlunarinnar. Aðgerðirnar og staða þeirra eru eftirfarandi:

1. Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni.
Lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnar­kosningum árið 2026.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög.
Tímabil: 2020–2026.

Staðan 1. mars 2023:

Stórt skref var stigið með nýju ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélags í sveitarstjórnarlög í júní 2021. Breytingin felur í sér að hafi íbúafjöldi í sveitarfélagi ekki náð 250 eftir sveitarstjórnarkosningar árið 2022 eða 1.000 íbúum eftir sveitarstjórnarkosningar árið 2026 skuli sveitarstjórn hefja sameiningarviðræður eða skila inn áliti um getu sveitarfélagsins til að sinna lögbundnum verkefnum og takast á við framtíðaráskoranir til umsagnar ráðuneytisins innan árs frá kosningum. Rammi um álit sveitarfélaga hefur verið sendur fámennustu sveitarfélögunum. Eftir að lögin tóku gildi hafa fimm sameiningar orðið að veruleika og minnst ein til viðbótar er í bígerð. Þar með hefur íslenskum sveitarfélögum fækkað úr 69 í 64. Athygli er vakin á vefsvæði með leiðbeiningum um sameiningar.

2. Fjárhagslegur stuðningur við sameiningar

Verkefnismarkmið: Að stórauka stuðning við sameiningu sveitarfélaga.
Reglum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði breytt til að tryggja aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaga. Sjóðnum verði veittar heimildir í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að leggja árlega til hliðar fjármagn til að mæta kostnaði vegna nýrra reglna um fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og sveitarfélög.
Tímabil: 2019–2026.

Staðan 1. mars 2023:

Jöfnunarsjóði hefur verið gert kleift að styrkja sameiningar sveitarfélaga. Því hefur verið fylgt eftir með vefsvæði með upplýsingum um hversu mikinn fjárstuðning sveitarfélög geti átt von á í tengslum við sameiningar óháð því hvaða sveitarfélagi þau sameinast. Yfirstandandi endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs styður við sameiningu sveitarfélaga.

 

3. Tekjustofnar sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra.
Unnin verði greinargerð um núverandi tekjustofnakerfi og gerð grein fyrir tekjustofnum sem færst gætu á milli ríkis og sveitarfélaga og mögulegir nýir tekjustofnar sveitarfélaga reifaðir.
Gistináttagjald verði fært til sveitarfélaganna í síðasta lagi árið 2022.
Lokið verði við heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir almennar sveitarstjórnarkosningar 2022 og breytingar innleiddar í áföngum á því kjörtímabili. Markmiðið endurskoðunar verði að auka jöfnuð sem styður við langtímastefnumótun, m.a. á sviði opinberra fjármála.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Samband íslenskra sveitar­félaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. mars 2023:

Tveir hópar hafa starfað undir tekjustofnanefnd. Fyrri hópurinn hefur aflað gagna um nýja og eldri tekjustofna og mátað ólíkar leiðir inn í sjálfbærnilíkan til að komast að því hvernig markmiði um fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga verði best náð með breytingum á tekjustofnum. Áfram verður unnið út frá greiningarvinnu hópsins.

Seinni hópur sérfræðinga á sviði jöfnunarframlaga hefur skilað tillögum um breytingar á úthlutunum sjóðsins. Unnið er að frumvarpi um breytingu á regluverki Jöfnunarsjóðs út frá þeim. Breytingarnar fela m.a. í sér sanngjarnari og einfaldari jöfnun ásamt því að stutt er við sameiningu sveitarfélaga.

 

4. Fjármál og skuldaviðmið

Verkefnismarkmið: Að tryggja sjálfbærni fjármála sveitarfélaga og lækkun skuldaviðmiðs sveitarstjórnarlaga fyrir A- og B-hluta reikningsskila sveitarfélaga.
Viðmið fyrir A-hluta verði 100% frá 1. janúar 2027, en veittur verði tíu ára aðlögunartími til að ná nýju viðmiði. Forsendur fyrir skilgreiningu skuldaviðmiðs sveitarstjórnarlaga verði yfirfarnar, sem tryggi gagnsæi og áreiðanleika varðandi mat á fjármálum einstakra sveitarfélaga. Jafnframt verði heimild fyrir samkomulagi sveitarstjórnar og ráðherra um fjármál rýmkuð hvað varðar tímabundin frávik frá meginreglu um skuldaviðmið og önnur fjárhagsleg atriði vegna samfélagslegra átaksverkefna eða sérstakra aðstæðna í fjármálum.
Þá verði unnið á grundvelli ráðherraskipaðrar nefndar um fjármálakafla sveitarstjórnarlaga, m.a. er varðar fjármálareglur skv. 64. gr. sömu laga.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög.
Tímabil: 2020.

Staðan 1. mars 2023:

Starfshópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga við endurskoðun á löggjöf um fjármálaviðmið sveitarfélaga hefur skilað innviðaráðherra lokaskýrslu. Þar kemur fram greinilegur áherslumunur á milli stjórnsýslustiga. Fulltrúar ríkisins telja mikilvægt að setja skýrar fjármálareglur og tilgreina frekari viðmið um einstaka ákvæði laganna og þróa áfram tiltekna fjárhagslega mælikvarða með faglegum hætti. Á hinn bóginn vilja fulltrúar sveitarfélaganna að þeim sé treyst til að setja sér ígrundaða stefnu og fylgja skynsamlegri fjármálastjórn innan nánast óbreyttra fjármálareglna. Þegar niðurstaða fæst í einstökum þáttum vinnunnar verður henni veitt inn í yfirstandandi endurskoðun sveitarstjórnarlaga.

 

5. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að mótuð verði aðgerðaáætlun um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Með aðgerðaáætluninni verði tekin afstaða til þess hvaða verkefni sé rétt að færa frá ríki til sveitarfélaga og öfugt. Tekin verði m.a. afstaða til tilfærslu á þjónustu við aldraða, rekstri framhaldsskóla og málefnum heilsugæslu frá ríki til sveitarfélaga.
Komið verði á fót tilraunaverkefni á sviði breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Verkefnið taki mið af reynslu sem fengist hefur með sambærilegum verkefnum hérlendis sem erlendis.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Öll ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. mars 2023:

Tafir á lausn ágreiningsmála á sviði fjármála urðu til þess að vinnu við aðgerðina var ekki ýtt úr vör innan gildandi sveitarstjórnaráætlunar. Stefnt er að því að hefja vinnu við aðgerðaráætlun um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga innan endurskoðaðrar stefnu og aðgerðaráætlunar á málaefnasviði sveitarfélaga. Markmið áætlunarinnar er að skapa sameiginlega framtíðarsýn um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og eyða til frambúðar svokölluðum gráum svæðum í opinberri þjónustu á milli þessara þjónustustiga. Drög að verkefnisáætlun gera ráð fyrir stofnun stýrihóps og ráðgjafahópa sérfræðinga og notenda.

 

6. Landshlutasamtök sveitarfélaga og samvinna sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að skýra stöðu og hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga.
Unnið verði í samræmi við tillögur ráðherraskipaðrar nefndar um starfsemi landshlutasamtakanna.
Hugað verði að samvinnu sveitarfélaga og samningum um starfrækslu verkefna. Skýrðar verði reglur um byggðasamlög, m.a. hvað varðar stjórnskipulag og lýðræðislegt umboð, reglur um framsal á valdi, reikningshald o.fl.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. mars 2023:

Ráðherraskipuð nefnd hefur skilað  skýrslu um stöðu og hlutverk landshlutasamtakanna. Afstaða verður tekin til tillagnanna við yfirstandandi endurskoðun sveitarstjórnarlaga. Jafnframt verður fjallað um samvinnu sveitarfélaga.

 

7. Samskipti ríkis og sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaga og rétt þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, svo sem verkefnum og fjárhag.
Unnið verði að því að greina kosti þess að koma á fót nefnd eða gerðardómi að norrænni fyrirmynd sem taki fyrir ágreiningsmál sem upp kunna að koma í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og ekki eru falin öðrum stjórnvöldum til úrlausnar. Fjalla þyrfti m.a. um áhrif þess ef niðurstöður nefndar eða gerðardóms yrðu bindandi fyrir ríkisvaldið og sveitarfélögin og niðurstaða um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim tilteknu álitamálum yrði endanleg. Það kæmi þó ekki í veg fyrir að aðilar leituðu til dómstóla.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Öll ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. mars 2023:

Með hliðsjón af upplýsingum um reynslu annarra Norðurlandaþjóða af starfrækslu gerðardóms hefur verið ákveðið að vinna ekki frekar að framgangi verkefnisins. Aðalsamstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga undir heitinu Jónsmessunefnd sker því áfram úr um ágreiningsmál milli stjórnsýslustiganna. Horfur eru á að þeim fækki með vinnu við aðgerðaráætlun og varanlegum lausnum á gráum svæðum í opinberri þjónustu.

 

8. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

Verkefnismarkmið: Að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og gæta að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks.
Unnið verði að greiningu á starfsaðstæðum og starfskjörum kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum hér á landi og niðurstaðan borin saman við aðstæður annars staðar á Norðurlöndum. Sérstaklega verði hugað að orsökum mikillar endurnýjunar í ljósi þess að stór hluti kjörinna fulltrúa gefur ekki kost á sér aftur eftir að hafa setið eitt kjörtímabil.
Ráðuneyti sveitarstjórnarmála gefi út, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, viðmiðanir um greiðslur og önnur réttindi sveitarstjórnarmanna fyrir þau störf sem byggjast á greiningu.
Unnin verði jafnréttisáætlun fyrir sveitarstjórnarstigið í heild sinni, með markmiðum og mælikvörðum, fyrir kjörna fulltrúa og lykilstjórnendur sveitarfélaga.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Jafnréttisstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. mars 2023

Verkefnisstjórn um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa hefur skilað tillögum sínum til innviðaráðherra. Innviðaráðuneytið vinnur að eftirfylgni tillagnanna í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra viðeigandi aðila. Tillögur um lagabreytingar renna inn í endurskoðun ráðuneytisins á gildandi sveitarstjórnarlögum. Tillaga  um stofnun fagteymis vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldis er hluti af nýrri aðgerðaráætlun á málaefnasviði sveitarfélaga. 

Jafnréttisstofa hefur útbúið fræðsluefni um gerð jafnréttisáætlana fyrir sveitarfélögin. Stofnunin veitir sveitarfélögum stuðning við gerð þeirra eins og þurfa þykir..

 

9. Lýðræðislegur vettvangur

Verkefnismarkmið: Að bæta aðkomu almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun á sveitarstjórnarstigi.
Komið verði á fót lýðræðislegum vettvangi sveitarfélaganna til að tryggja íbúum sveitarfélaga og þeim sem njóta þjónustu þeirra möguleika á að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar. Í því skyni verði vettvangurinn markvisst nýttur til að þróa aðferðir, verklag og leiðir til að hagnýta rafrænar lausnir.
Komið verði á fót tilraunaverkefni í nokkrum sveitarfélögum sem miði að því að prófa ólíkar leiðir til að fá íbúa til að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun fyrir nærsamfélagið. Meðal annars verði skoðað hvernig hægt sé að styrkja og viðhalda þátttöku og aðkomu íbúa að málefnum sem varða þeirra nærumhverfi í dreifbýli og/eða fjölkjarnasveitarfélögum.
Metin verði þörf fyrir breytingar á sérreglum í tilraunaskyni um stjórn og stjórnskipulag einstakra sveitarfélaga, sbr. 132. gr. sveitarstjórnarlaga.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Forsætisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og innviðaráðuneytið.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. mars 2023:

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þróað og gefið út leiðbeiningar til sveitarfélaga um ólíkar leiðir til samráðs og íbúalýðræðis. Með sama hætti hefur Sambandið stutt sveitarfélög við framkvæmd tilraunaverkefna á sviði íbúalýðræðis. Vangaveltur hafa verið uppi um hvort sveitarfélögin muni nýta sameiginlegan stafrænan lýðræðisvettvang. Innviðaráðuneytið hefur stutt við íbúalýðræði með breytingum á sveitarstjórnarlögum í því skyni að auðvelda sveitarfélögum að efna til skoðanakannana og íbúakosninga.

 

10. Rafræn stjórnsýsla sveitarfélaga

Verkefnismarkmið: Að bæta aðgengi almennings að þjónustu og stjórnsýslu sveitarfélaga, bæta samskipti og tryggja gott flæði upplýsinga.
Ráðist verði í átak til að efla rafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga. Áhersla verði á að hagnýta þá upplýsingatækni­innviði sem byggðir hafa verið upp og þekkingu á rafrænum lausnum hins opinbera.
Komið verði á miðlægu samstarfi milli sveitarfélaga til að auðvelda þeim að verða virkir þátttakendur í stafrænni framþróun og nýta nútímatækni til að bæta þjónustu, samskipti við íbúana og nýsköpun í opinberri stjórnsýslu.
Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, forsætisráðuneytið, innviðaráðuneytið og einstök sveitarfélög.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. mars 2023:

Efnt hefur verið til miðlægs samráðs sveitarfélaganna á sviði rafrænnar stjórnsýslu. Í framhaldi af því hefur verið ýtt úr vör samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um stafræna þróun hins opinbera. Nefndina skipa fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Innviðaráðuneytis, Fjármálaráðuneytis og Verkefnisstofu um stafrænt Ísland. Markmiðið með starfi nefndarinnar er að bæta yfirsýn, hagnýtingu stafrænna lausna og samstarf við veitingu þjónustuferla í gegnum island.is . Umsókn um fjárhagsaðstoð hefur þegar verið veitt í gegnum vefsíðuna. Samráðsnefndin heyrir undir Jónsmessunefnd.

 

11. Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni

Verkefnismarkmið: Að auka fjölbreytni í atvinnulífi um allt land og bæta forsendur fyrir jöfn tækifæri sveitarfélaga óháð stærð og staðsetningu til sjálfbærs vaxtar.
Samhliða stefnumörkun þessari verði ráðist í átak til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Með því móti verði leitast við að styrkja atvinnugrundvöll í nýsameinuðum sveitarfélögum víða um land og nýta um leið rafræna innviði. Unnin verði greining sem nýtist við að móta aðgerðaáætlun um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
Ábyrgð: Forsætisráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Öll ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2020–2022.

Staðan 1. mars 2023:

Ríkisstjórnarsáttmáli kveður á um að öll störf á vegum ríkisins verði auglýst óháð staðsetningu nema eðli viðkomandi starfs krefjist sérstakrar staðsetningar. Með sama hætti er kveðið á um að sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni. Verkefninu er fylgt eftir innan byggðaáætlunar.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum