Málefni sveitarfélaga
Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð eftir því sem lög ákveða í samræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar.
Málefni sveitarfélaga heyra stjórnarfarslega undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem standa skal vörð um hagsmuni sveitarfélaga, sjálfstjórn þeirra, verkefni og fjárhag.
Ráðherra skal hafa eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum í samræmi við lög og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Þá er heimilt að kæra til ráðherra stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga að svo miklu leyti sem það úrskurðarvald hefur ekki verið falið öðrum að lögum.
Svæða- og byggðamál heyra jafnframt undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þar með talin byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta, atvinnuþróun og atvinnuþróunarfélög, svæða- og byggðarannsóknir og svæðisbundin flutningsjöfnun. Þá heldur ráðuneytið um málefni Byggðastofnunar og Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara.
Byggðaáætlun lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Í byggðaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára.
Verkefni á sviði sveitarstjórna og byggðamála heyra meðal annars undir eftirfarandi málefnasvið í gildandi fjármálaáætlun: Sveitarfélög og byggðamál.
Stefna í málefnum sveitarfélaga 2024-2038
Stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaganna stuðlar að samræmdri stefnumótun ríkis og sveitarfélaga. Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að ráðherra sveitarstjórnarmála leggi fram tillögu um stefnu í málaflokki sveitarfélaga til 15 ára í senn og aðgerðaáætlun til fimm ára í senn á minnst þriggja ára fresti. Fyrsta áætlunin af þessu tagi var unnin í þéttri samvinnu fulltrúa ríkis og sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára.
- Önnur stefnumótunin með stefnu til áranna 2024-2038 ásamt samhangandi aðgerðaáætlun til fimm ára var samþykkt á Alþingi þann 5. desember 2023
- Vefsvæði um sameiningar sveitarfélaga
Meginmarkmið áætlunarinnar eru að byggja upp öflug, sjálfbær sveitarfélög um land allt. Aðgerðaáætlun stefnunnar hefur að geyma 18 aðgerðir á sviði fjármála, þjónustu, lýðræðis og stafrænnar umbreytingar. Helstu nýmæli aðgerðaáætlunarinnar felast í því að innan hennar eru aðgerðir á ábyrgð annarra ráðuneyta í þágu ungra barna, fólks með fötlun og umhverfis. Rétt eins og í fyrri áætlun ber Samband íslenskra sveitarfélaga einnig ábyrgð á nokkrum aðgerðum, m.a. um lýðræðisvirkni, stafræna umbreytingu og fagteymi vegna einelti, kynferðislegrar áreitni og kynbundins ofbeldis í garð kjörinna fulltrúa.
Hér á eftir fara upplýsingar um framkvæmd aðgerða innan gildandi áætlunarinnar í lok apríl 2024.
A. Sjálfbær þróun sveitarfélaga
1. Sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær og ýti undir lýðræðislega virkni íbúa
Verkefnismarkmið:
Viðmið um sjálfbæra þróun sveitarfélaga á sviði fjármála og samfélags verði mótuð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að stuðla að því að þörfum nútímans sé mætt án þess að gengið sé á gæði komandi kynslóða. Með vísun til þriggja stoða sjálfbærni, á sviði fjármála, samfélags og umhverfis, verði viðmið um sjálfbærni á sviði umhverfis mótuð innan starfshóps um markvissari árangur og sjálfbærni sveitarfélaga í málaflokki umhverfis- og loftslagsmála, sbr. aðgerð 7 hér á eftir.
Stutt lýsing: Aðgerðin feli í sér skipun tveggja starfshópa, annars vegar um mótun viðmiðs um sjálfbærni sveitarfélaga á sviði fjármála og hins vegar um sjálfbærni sveitarfélaga á sviði samfélags. Viðmið á sviði fjármála miði að því að tekjur standi undir lögbundinni þjónustu, áföllum og framtíðaráskorunum sveitarfélaga. Viðmið á sviði samfélags feli í sér verndun menningarlegra, félagslegra og umhverfislegra verðmæta.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar:
Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti og forsætisráðuneyti.
Tímabil: 2024–2025.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, áætlunum innviðaráðuneytisins á sviði byggða-, samgöngu-, skipulags- og húsnæðismála og 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar byggðir og samfélög.
Staðan 30. apríl 2024:
Samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga (Jónsmessunefnd) fól samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál að gera tillögu um sameiginlegt viðmið um fjárhagslega sjálfbærni á fundi sínum þann 10. janúar sl.
2. Endurskoðun sveitarstjórnarlaga
Verkefnismarkmið:
Ákveðnir kaflar sveitarstjórnarlaga verði endurskoðaðir til að fylgja eftir framþróun í starfsemi sveitarfélaga og tryggja að ákvæði laganna séu skýr og aðgengileg.
Stutt lýsing: Endurskoðunin beinist einkum að ákvæðum um fjármál sveitarfélaga, birtingu fyrirmæla, þátttöku í atvinnurekstri, samráði við íbúa, heimildum um persónuupplýsingar, reikningsskilum, siðareglum og hagsmunaskráningu. Jafnframt verði hugað að sambærilegri framsetningu fjármála ríkis og sveitarfélaga. Metið verði hvernig eftirliti með stjórnsýslu sveitarfélaga og störfum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga verði best fyrir komið. Lagarammi landshlutasamtaka sveitarfélaga verði skýrður ásamt því að skoðaðar verði reglur um samvinnu sveitarfélaga. Síðast en ekki síst verði tekin afstaða til ábendinga verkefnisstjórnar um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa um kjaraákvæði og fleiri ákvæði sveitarstjórnarlaga um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Skipaður verði starfshópur til að hafa yfirumsjón með vinnunni ásamt því að gert verði ráð fyrir aðkeyptri vinnu sérfræðinga.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2019–2026.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði að hluta til framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög og 16. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um frið og réttlæti.
Staðan 30. apríl 2024:
Endurskoðun gildandi sveitarstjórnarlaga er hafin með vinnu fjögurra undirhópa um (1) almennar umbætur, (2) birtingu reglna, starfsaðstæður kjörinna fulltrúa, upplýsingamiðlun og íbúalýðræði (3) fjármálakafla og (4) atvinnuþátttöku sveitarfélaga. Hóparnir munu skila ráðgjafanefnd skipaðri þremur fulltrúum innviðaráðherra og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga niðurstöðu sinni í vor. Eftir að opið samráð hefur farið fram verður frumvarp um endurskoðun laganna lagt fram næsta þingvetur á Alþingi.
3. Endurskoðun tekjustofna
Verkefnismarkmið:
Tekjustofnar sveitarfélaga verði endurskoðaðir til að styrkja fjárhagslegan grundvöll þeirra til lengri tíma.
Stutt lýsing: Byggt verði á upplýsingum úr vinnu tekjustofnanefndar við mat á því hvort hægt sé að styrkja núverandi tekjustofna sveitarfélaga og leita lausna til að auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Niðurstaða vinnunnar verði nýtt til breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Jafnframt verði unnið að endurskoðun vinnubragða og samráðs ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál. Skoðað verði hvort ástæða sé til að gera ráð fyrir sérstökum tekjustofni vegna reksturs almenningssamgangna.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2024.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála og 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.
Staðan 30. apríl 2024:
Skipaður var hópur um endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga á grunni fyrstu aðgerðaáætlunar í málaflokki sveitarfélaga. Ekki náðist sameiginleg niðurstaða innan hópsins í þeirri vinnu. Eftir hann liggur þó viðamikil kortlagning núverandi og hugsanlegra tekjustofna. Áfram er unnið að endurskoðun tekjustofna á grundvelli afraksturs nefndarinnar. Einn liður í endurskoðuninni er vinna starfshóps um skatta til orkusveitarfélaga, þ.e. sveitarfélaga með orku eða virkjanir innan sinna sveitarfélagamarka. Frumvarp um afnám undanþágu gagnvart fasteignaskattskyldu virkjunarmannvirkja er í vinnslu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
4. Endurskoðun fjármálaviðmiða
Verkefnismarkmið:
Lagaákvæði um fjármál sveitarfélaga verði endurskoðuð.
Stutt lýsing: Afstaða verði tekin til fyrirliggjandi tillagna starfshóps um endurskoðun fjármálakafla sveitarstjórnarlaga. Með aðgerðinni verði stuðlað að sátt um lokaniðurstöðu hópsins. Í framhaldi af því renni niðurstaðan inn í endurskoðun sveitarstjórnarlaga.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2024.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála og 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.
Staðan 30. apríl 2024:
Unnið er að endurskoðun fjármálaviðmiða sveitarfélaga innan þriðja undirhóps um yfirstandandi endurskoðun sveitarstjórnarlaga, þ.e. um fjármálakafla laganna, sbr. aðgerð tvö.
5. Endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Verkefnismarkmið:
Stuðlað verði að markvissari og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Stutt lýsing: Lokið verði við gerð frumvarps til heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í því skyni að skapa traustari umgjörð um starfsemi sjóðsins og úthlutanir úr honum. Frumvarpið verði unnið á grundvelli niðurstaðna starfshóps tekjustofnanefndar um endurskoðun á regluverki sjóðsins. Markmið breytingarinnar verði að stuðla að markvissari jöfnun, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Við endurskoðun regluverks verði byggðasjónarmiðum áfram haldið á lofti.
Ábyrgð:
Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar:
Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneyti..
Tímabil: 2024.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, húsnæðisstefnu innviðaráðuneytis og 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög
Staðan 30. apríl 2024:
Frumvarp um endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur verið lagt fram á yfirstandandi þingi. Markmið frumvarpsins er að stuðla að einfaldari og markvissari úthlutun sjóðsins.
6. Ferill kostnaðarmats
Verkefnismarkmið:
Tryggður verði faglegur ferill kostnaðarmats lagafrumvarpa og annarrar opinberrar stefnumótunar þegar kostnaður gæti fallið á sveitarfélögin.
Stutt lýsing: Skipaður verði starfshópur til að skilgreina feril kostnaðarmats í því skyni að tryggja sátt um matið og fjármögnun viðkomandi verkefna. Gengið verði út frá því að kostnaðarmatið feli í sér skýrar þjónustukröfur, mat á fjárhagslegum áhrifum og fullnægjandi upplýsingar um fjármögnun. Jafnframt verði matið ávallt borið undir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga um kostnaðarmat. Starfshópurinn taki afstöðu til þess hvernig farið verði með úrlausn ágreiningsmála milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarmat.
Ábyrgð:
Innviðaráðuneytið.
Samstarfsaðilar:
Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneyti og önnur hlutaðeigandi ráðuneyti.
Tímabil: 2024.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.
Staðan 30. apríl 2024:
Starfshópur undir forystu innviðaráðuneytisins vinnur með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga að endurskoðun ferils kostnaðarmats. Byggt er á fyrirliggjandi lögum og vinnu við endurskoðun fjármálakafla sveitarstjórnarlaga. Endurskoðun 129. gr. sveitarstjórnarlaga um kostnaðarmat fellur inn í heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga.
7. Markvissari árangur á sviði umhverfis- og loftslagsmála
Verkefnismarkmið:
Aðgerðir sveitarfélaganna á sviði umhverfis- og loftslagsmála verði kortlagðar í því skyni að skapa grundvöll fyrir markvissari árangri, samtali og samstarfi á þessu sviði.
Stutt lýsing: Á grundvelli yfirlitsins verði mótaðar tillögur um samhæfð vinnubrögð og frekari aðgerðir til að tryggja markvissari árangur við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið, auka viðnámsþol og aðlaga sveitarfélögin að framkomnum og væntanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Stuðlað verði að bættum umhverfisgæðum og heilnæmara umhverfi með sérstakri áherslu á loftgæði og stuðningi við vistvænan lífsstíl almennings í allri starfsemi sveitarstjórnarstigsins.
Ábyrgð:
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
Samstarfsaðilar:
Innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil:
2024–2026.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, áætlunum innviðaráðuneytis á sviði byggða-, samgöngu-, skipulags- og húsnæðismála, 13. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum, 14. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um líf í vatni, 15. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um líf á landi og aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum.
Staðan 30. apríl 2024:
Vinna við aðgerðina stendur yfir á vegum umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins en vinnustofa um málefnið fór fram í lok síðastliðins árs.
8. Aukin lýðræðisþátttaka
Verkefnismarkmið:
Stuðlað verði að aukinni kosningaþátttöku og almennri lýðræðisþátttöku íbúa.
Stutt lýsing: Haldið verði áfram að standa fyrir fræðslu til sveitarfélaga um markvissar aðferðir til íbúasamráðs og þátttöku á grundvelli handbókar Sambands íslenskra sveitarfélaga um íbúasamráð. Þeim verði jafnframt veittur stuðningur til að tileinka sér slíkar aðferðir, ekki síst til að auka lýðræðislega virkni ungs fólks og fólks af erlendum uppruna. Jafnframt verði staðið fyrir sérstökum aðgerðum til að auka kosningaþátttöku þessara hópa og styðja við hagnýtingu á stafrænum lýðræðislausnum. Áfram verði leitað leiða til að einfalda regluverk um íbúakosningar sveitarfélaga án þess að vega að öryggi og vandaðri framkvæmd slíkra kosninga.
Ábyrgð:
Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar:
Innviðaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og viðeigandi stofnanir.
Tímabil:
2024–2028.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin verði framhaldsaðgerð frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist áætlunum innviðaráðuneytis á sviði byggða-, samgöngu-, skipulags- og húsnæðismála og 16. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um frið og réttlæti.
Staðan 30. apríl 2024:
Stefnt er að því að ýta úr vör vinnu við verkefnið haustið 2024.
9. Fagteymi vegna kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni
Verkefnismarkmið:
Kjörnir aðal- og varafulltrúar í sveitarstjórnum verði verndaðir gagnvart einelti, ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni.
Stutt lýsing: Fagteymi verði stofnað og taki við beiðnum um aðstoð, meti þær og komi í viðeigandi farveg og eftir atvikum fylgi eftir tilkynningum til teymisins og tryggi að þær fái viðhlítandi málsmeðferð. Á vegum fagteymisins verði komið upp miðlægum gagnagrunni með almennum upplýsingum, lagaramma og úrræðum í tengslum við áreitni og ofbeldi af ýmsu tagi. Jafnframt verði litið til þess hvernig hindra megi áreitni í garð kjörinna fulltrúa á viðburðum í tengslum við hlutverk þeirra innan sveitarstjórna og á þingi.
Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Viðeigandi fagaðilar.
Tímabil: 2024–2025.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin fylgi tillögu starfshóps um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, aðgerð C.16 í byggðaáætlun og 5. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna.
Staðan 30. apríl 2024:
Samið hefur verið um að Samband íslenskra sveitarfélaga taki forystu í verkefninu með fjárstuðningi og öðru liðsinni innviðaráðuneytisins. Stefnt er að því að vinna við verkefnið hefjist sumarið 2024.
10. Mælaborð um jafnrétti
Verkefnismarkmið:
Unnið verði með forsætisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofu og Hagstofu Íslands um þróun mælaborðs yfir tölfræði á sviði jafnréttismála í anda Evrópuverkefnisins Tea for two.
Stutt lýsing: Mælaborðið feli í sér myndræna framsetningu á breytum eins og hlutfalli kynjanna í sveitarstjórnum, nefndum og ráðum, upplýsingum um hlutfall sveitarfélaga með jafnlaunavottun og jafnréttisáætlanir, svo dæmi séu nefnd. Mælaborðið verði sérstaklega kynnt fyrir sveitarstjórnum í því skyni að mynda grundvöll aðgerða til að stuðla að auknu jafnrétti.
Ábyrgð: Innviðaráðuneyti
Samstarfsaðilar: Forsætisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Hagstofa Íslands og Jafnréttisstofa.
Tímabil: 2024–2025.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin fylgi tillögu verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa frá fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, aðgerð C.16 um jafnrétti í sveitarstjórnum í byggðaáætlun og 5. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna.
Staðan 30. apríl 2024:
Innviðaráðuneytið vinnur með forsætisráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofu og Hagstofunni að þróun mælaborðs með jafnréttisvísum. Áhersla er lögð á að mælaborðið verði hagnýt upplýsingaveita fyrir sveitarfélögin og sjálfvirkni verði sem mest í öflun upplýsinga.
B. Sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.
11. Búsetufrelsi
Verkefnismarkmið: Áskoranir búsetufrelsis verði greindar út frá gildandi lögum.
Stutt lýsing: Skoðað verði sérstaklega hvort ástæða sé til breytinga á lögum um lögheimili og aðsetur í tengslum við markmið um búsetufrelsi. Við lagabreytingar verði unnið út frá þeirri meginreglu að skipulag sveitarfélaga ráði því hvar heimilt sé að skrá lögheimili og einnig hvar sveitarfélögum sé skylt að veita þjónustu við íbúa.
Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
Samstarfsaðilar: Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2024.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð, áherslu innviðaráðherra á búsetufrelsi og aðgerð A.15 í byggðaáætlun um jafnt aðgengi að þjónustu.
Staðan 30. apríl 2024:
Vinna við verkefnið er ekki hafin með formlegum hætti.
12. Lágmarksþjónusta sveitarfélaga.
Verkefnismarkmið: Skilgreint verði hvaða þjónustu sveitarfélag þurfi að veita til að uppfylla lágmarksrétt íbúa til þjónustu.
Stutt lýsing: Skipaður verði starfshópur til að skilgreina hvaða þjónusta teljist lágmarksþjónusta sveitarfélaga án þess að gengið sé á rétt íbúa til þjónustu og annarra réttinda. Mið verði tekið af skilgreiningu Byggðastofnunar á grunnþjónustu. Hugað verði sérstaklega að þjónustu við hópa á borð við barnafjölskyldur, fólk af erlendum uppruna, aldraða og fólk með fötlun. Afstaða verði tekin til þjónustuframboðs og samvinnu sveitarfélaga um veitingu ólíkrar þjónustu.
Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
Samstarfsaðilar: Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil: 2024.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist 3. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um heilsu og vellíðan, 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög og 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð, áherslu innviðaráðherra á búsetufrelsi og aðgerð A.15 í byggðaáætlun um jafnt aðgengi að þjónustu.
Staðan 30. apríl 2024
Vinna við verkefnið er ekki hafin. Skilgreining Byggðastofnunar á grunnþjónustu liggur fyrir.
13. Þróun þjónustu sveitarfélaga
Verkefnismarkmið: Stuðlað verði að umbótum í þjónustu sveitarfélaga.
Stutt lýsing: Þegar fyrir liggur skilgreining á grunnþjónustu samkvæmt byggðaáætlun verði ánægja íbúa með þjónustuna mæld í þjónustukönnun í samvinnu við Byggðastofnun. Skipaður verði þróunarhópur á sviði þjónustu til að bregðast við niðurstöðum mælinga með viðeigandi umbótum og þróun þjónustu, m.a. með því að miðla reynslu af fyrirmyndarverkefnum/-þjónustu. Við þróun þjónustu verði sérstaklega litið til stuðnings við viðkvæma hópa á borð við börn undir sex ára aldri, barnafjölskyldur, fólk af erlendum uppruna, aldraða og fatlað fólk.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Byggðastofnun, innviðaráðuneyti og önnur hlutaðeigandi ráðuneyti.
Tímabil: 2024–2028.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð, áherslu innviðaráðherra á búsetufrelsi og aðgerð A.15 í byggðaáætlun um jafnt aðgengi að þjónustu.
Staðan 30. apríl 2024
Samið hefur verið við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi um árlega mælingu á ánægju íbúa með þjónustu sveitarfélaga í öllum sveitarfélögum. Beðið er eftir niðurstöðum úr fyrstu könnuninni. Í framhaldi af því verður skipaður þróunarhópur um framfarir í þjónustu. Mælingin er einnig mikilvægur mælikvarði sveitarstjórnaráætlunarinnar.
14. Fjölmenning í starfsliði sveitarfélaganna
Verkefnismarkmið: Stutt verði við sveitarfélögin við að nýta betur krafta innflytjenda og fjölga þeim í starfsliði sínu, m.a. í þeim tilgangi að bæta þjónustu við íbúa í hópi innflytjenda og fjölga starfstækifærum innflytjenda.
Stutt lýsing: Stofnaður verði starfshópur til að efla stuðning við sveitarfélögin í því að greina menntun, starfsreynslu og tungumálafærni innflytjenda í starfsliði sveitarfélaganna, aðstoða þá við að fá menntun þeirra metna og stuðla að því að hún nýtist sveitarfélaginu sem best. Jafnframt hljóti sveitarfélögin stuðning við greiningu og stefnumótun starfstækifæra fyrir starfsmenn með annað móðurmál en íslensku í starfsliði viðkomandi sveitarfélaga í því skyni að auka fjölbreytni í starfsmannahópnum, bæta þjónustu og stuðning við innflytjendur ásamt því að stuðla að virkara fjölmenningarsamfélagi. Liður í aðgerðinni felist í því að miðla reynslu milli sveitarfélaga á þessu sviði. Samhliða taki fulltrúar sveitarfélaganna þátt í víðtækri stefnumótun stjórnvalda í málefnum innflytjenda og flóttafólks í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Innviðaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Vinnumálastofnun, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, ENIC-NARIC á Íslandi, IÐAN fræðslusetur og aðrir viðurkenndir aðilar um mat á menntun.
Tímabil: 2024–2026.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, aðgerð A.7 í byggðaáætlun og 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð. Aðgerðin samræmist aðgerð 3.2 og 4.2 í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025.
Staðan 30. apríl 2024
Stefnt er að því að hægt verði að hefjast handa við verkefnið með liðsinni fjölmenningarfulltrúa sveitarfélaganna haustið 2024.
15. Þróun þjónustu við fatlað fólk
Verkefnismarkmið: Unnið verði að frekari þróun þjónustu við fatlað fólk.
Stutt lýsing: Á grundvelli landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og niðurstaðna starfshóps um mótun tillagna um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk verði ábyrgð, hlutverk, fjármögnun og skipulag í samstarfi sveitarfélaga og ríkisins í þjónustu við fatlað fólk afmarkað með skýrari hætti. Meðal annars verði tekið mið af því að samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga færist ábyrgð á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) og þróun hennar til sveitarfélaga árið 2025.
Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
Samstarfsaðilar: Innviðaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Tímabil: 2024–2028.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála og 1., 3., 4., 5., 8., 9., 10., 11., 16. og 17. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.
Staðan 30. apríl 2024
Starfshópur á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis vinnur að því að skýra ábyrgð, hlutverk, fjármögnun og skipulag í samstarfi stjórnsýslustiganna um þjónustu við unga hjúkrunarsjúklinga, börn með fjölþættan vanda, stærð þjónustusvæða og uppbyggingu búsetuúrræða. Stefnt er að því að starfshópurinn skili niðurstöðum sínum í júní 2024.
16. Stafræn umbreyting
Verkefnismarkmið: Unnið verði að heildstæðri stefnumörkun um stafræna umbreytingu sveitarfélaga og samstarf milli sveitarfélaga og við ríkið til að ná þeim markmiðum.
Stutt lýsing: Við vinnuna verði lögð áhersla á samnýtingu stafrænna innviða fyrir hið opinbera ásamt því að stafrænar lausnir verði þróaðar út frá þörfum almennings og fyrirtækja fyrir heildstæða þjónustu, óháð því hvort ríki eða sveitarfélög beri ábyrgð á henni. Í því augnamiði verði áfram unnið að veitingu opinberra þjónustuferla í gegnum island.is. Hugað verði að þekkingaruppbyggingu meðal sveitarfélaga og því að efla samstarf milli sveitarfélaga og við ríkið til að ná fram hagkvæmari uppbyggingu og rekstri stafrænnar þjónustu.
Við þróun og innleiðingu stafrænna lausna verði gætt að mannréttindum og því að lausnir séu aðgengilegar fyrir alla hópa samfélagsins. Jafnframt verði tekið mið af því að stafræn umbreyting feli í sér umhverfisvænar lausnir. Samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um stafræna þróun hins opinbera verði falið að vinna að stefnumörkun og innleiðingu.
Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga.
Samstarfsaðilar: Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, innviðaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, hlutaðeigandi ráðuneyti og ríkisstofnanir.
Tímabil: 2024.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, húsnæðisstefnu innviðaráðuneytis, 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð og 9. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um nýsköpun og uppbyggingu.
Staðan 30. apríl 2024
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þegar hafist handa við verkefnið.
17. Ábyrgðarskipting og samfelld þjónusta
Verkefnismarkmið: Að stuðla að eflingu sveitarstjórnarstigsins og tryggja samfellu í opinberri þjónustu.
Stutt lýsing: Fram fari greining á ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga, tekin verði afstaða til þess hvort færa beri verkefni milli stjórnsýslustiga og mótuð aðgerðaáætlun þar um. Stefnt verði að því að útrýma til frambúðar gráum svæðum í opinberri þjónustu. Sérstök áhersla verði lögð á að ljúka vinnu vegna talmeinaþjónustu og þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Jafnframt verði lögð áhersla á að skýra hlutverk og ábyrgð varðandi yngri hjúkrunarsjúklinga, fólk í leit að alþjóðlegri vernd og heimilislausa. Einnig verði skoðað hvernig hægt sé að stuðla að aukinni samfellu og skýrari ábyrgð í þjónustu við fatlað fólk, þjónustu við eldra fólk, lýðheilsu og forvarnamálum ásamt því að bæta samspil á milli bótakerfa ríkis og sveitarfélaga. Skipaðir verði þrír starfshópar til að vinna að mótun aðgerðaáætlunar til ársins 2040, þ.e. stýrihópur þriggja ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafahópur sérfræðinga annars vegar og ráðgjafahópur notenda hins vegar.
Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
Samstarfsaðilar: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti og önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt viðeigandi sérfræðingum og fulltrúum notenda.
Tímabil: 2024–2026.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin miðist við fyrri aðgerðaáætlun. Hún samræmist ríkisstjórnarsáttmála, 3. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um heilsu og vellíðan og 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð.
Staðan 30. apríl 2024
Á grundvelli samnings ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu vegna þjónustu við fatlað fólk hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið forystu um áframhaldandi vinnu við að afmá grá svæði í velferðarþjónustu, m.a. í þjónustu við börn með fjölþættan vanda og öryggisvistun.
18. Vellíðan ungra barna og barnafjölskyldna.
Verkefnismarkmið: Stuðlað verði að bættum hag ungra barna og fjölskyldna þeirra innan sveitarfélaganna.
Stutt lýsing: Þjónusta ríkis og sveitarfélaga við börn og barnafjölskyldur fyrstu ár ævinnar verði greind og endurskoðuð í því skyni að bæta þjónustu við þennan hóp. Hugað verði sérstaklega að aðstæðum barna í viðkvæmum hópum, til að mynda barna með andlegar og/eða líkamlegar skerðingar, barna af erlendum uppruna og barna í erfiðum félagslegum og/eða efnahagslegum aðstæðum.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar: Innviðaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga o.fl.
Tímabil: 2024–2028.
Samhæfing við aðrar stefnur og áætlanir: Aðgerðin samræmist ríkisstjórnarsáttmála, lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, 1. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um enga fátækt og 10. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð.
Staðan 30. apríl 2024
Mennta- og barnamálaráðuneytið og innviðaráðuneytið vinna að því að greina verkefnið.
Sjá einnig:
Lög, reglugerðir o.fl.
Tölfræði
Tenglar
Ítarefni
Sveitarstjórnarmál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.