Hoppa yfir valmynd
12. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Umræður um stefnuræðu forstætisráðherra 12. september 2018

Ásmundur Einar Daðason - myndVelferðarráðuneytið

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra,
í umræðum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra.

Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Veturinn sem nú er að hefjast mun án efa litast af kjarasamningum enda renna nánast allir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði út núna í lok árs, auk þess sem samningar á opinberum vinnumarkaði eru allflestir lausir í mars á næsta ári. Margir segja að undiraldan sem nú er í gangi sé ekkert frábrugðin því sem alltaf gerist í aðdraganda kjarasamninga. Hins vegar bendir margt til þess að umræðan nú sé þyngri en verið hefur í langan tíma. Ári fyrir fall bankanna blöskraði mörgum hvernig toppar samfélagsins voru komnir á himinhá laun með risabónusum. Dæmi voru um að árslaun sumra einstaklinga væru hærri en verkamaður getur látið sig dreyma um á heilli starfsævi.

Eftir fall bankanna tóku allir á sig byrðar til að rífa upp efnahagslífið. Nú hafa margir á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og að skilja eigi eftir bæði millistéttina og lægri tekjuhópa. Já, það er þyngra en tárum taki að til sé fólk og börn í þessu landi sem geta ekki stundað tómstundir, geti ekki haldið fermingarveislur og fleira sökum lágra tekna foreldra sinna. Þegar slíkar sviðsmyndir finnast enn er verk að vinna.

Ágætu Íslendingar. Ég hef að undanförnu verið að fara yfir og reyna að skilja launauppbygginguna í þessu ágæta landi okkar. Ég hef m.a. átt fund með stjórnarformönnum þeirra opinberu fyrirtækja sem hafa verið að hækka laun forstjóranna. Í flestum tilfellum eru hækkanir rökstuddar með því að laun forstjóra verði að vera í takt við það sem gerist hjá einkafyrirtækjum. Í ljósi þessa er fróðlegt að skoða hækkanir á einkamarkaði hjá stórum fyrirtækjum og bera saman við lægstu laun. Sem dæmi má nefna hækkuðu laun þriggja lægst launuðu hópanna um 8–9% milli áranna 2015 og 2016. Í krónum talið eru þetta hækkanir að meðaltali undir 40.000 kr. á mánuði. Sú hækkun er hins vegar 25 sinnum lægri en t.d. hækkun launa forstjóra N1 á milli áranna 2015 og 2016, en þá hækkaði forstjórinn um rúmlega 1 millj. kr. á mánuði. Á sama tíma og þetta gerðist var þetta ágæta fyrirtæki í meirihlutaeigu íslensku lífeyrissjóðanna, rúmlega 50%. Nú berast okkur fréttir af því í dag að þetta ágæta fyrirtæki ætli að taka upp kaupaukakerfi á nýjan leik, bónusgreiðslur, sem eigi að fara fyrir hluthafafund síðar í þessum mánuði. Ég segi við lífeyrissjóðina og aðra sem eiga í þessu fyrirtæki að þessari vitleysu verður að ljúka. Þessa tillögu verður að draga til baka.

Samhliða þessum veruleika eru ýmis teikn á lofti í íslensku atvinnulífi. Ferðaþjónustan hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Flugfélögin glíma við rekstrarerfiðleika og hljóðið í atvinnurekendum víða í kringum landið er þyngra en verið hefur í tvö til þrjú ár. Það versta sem gæti gerst við þessar aðstæður væru hækkanir sem yrðu í framhaldinu étnar upp af verðbólguskoti. Ég er sannfærður um að það er hægt að forðast þá sviðsmynd, en til þess að svo geti orðið verða allir að taka á. Við sem erum, samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar, með hæstu tekjur samfélagsins í opinbera geiranum verðum að horfa í eigin barm. Samhliða því verða verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur að fara yfir óeðlilegar hækkanir hjá forystufólki þeirra fyrirtækja sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna.

Góðir Íslendingar. Þrátt fyrir að kjarasamningar heyri ekki beint undir stjórnvöld hafa stjórnvöld komið að með einhverjum aðgerðum til að liðka fyrir að kjarasamningar náist. Líkt og forsætisráðherra fór yfir hefur ríkisstjórnin lagt ríka áherslu á gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins hér eftir sem hingað til. Ég hef átt gott samstarf við verkalýðshreyfinguna um ýmis mál og hugmyndir þeirra um skattkerfisbreytingar, ýmsar breytingar í velferðarmálum, róttækari nálgun á húsnæðismálin en við höfum séð undanfarin ár eru allt eitthvað sem rímar mjög vel við stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar.

Stöðugleiki efnahagslífsins og aukinn jöfnuður í samfélaginu getur farið saman í komandi kjarasamningum en til þess að svo geti orðið verða allir að leggja eitthvað af mörkum, ekki bara sumir. — Góðar stundir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum