Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Evrópska vinnuverndarvikan – Ávarp félagsmálaráðherra

Vinnueftirlit rikisins 25. október 2005
Vinnueftirlit rikisins 25. október 2005

Ágætu fundarmenn.

Evrópsk vinnuvika er að þessu sinni tileinkuð hávaða á vinnustöðum undir yfirskriftinni Niður með hávaðann! Ég geri ráð fyrir að þegar þetta viðfangsefni ber á góma telji margir að einungis sé átt við störf í verksmiðjum og ef til vill í byggingariðnaði. Við sjáum fyrir okkur fólk að störfum með heyrnarhlífar til að komast hjá hávaða frá vélum sem eru í gangi allt í kring.

Þegar rýnt er betur í málið kemur í ljós að það eru mun fleiri starfsgreinar sem verða fyrir áhrifum frá hávaða við störf sín. Þegar ég kem inn í stórar verslanir eða veitingastaði þar sem tónlist er spiluð allan daginn hef ég til dæmis velt því fyrir mér hvernig starfsfólkinu líður – ég skal játa að ég er í það minnsta stundum feginn þegar ég kemst út. Einnig hefur hávaði verið viðurkenndur sem vandamál við símaþjónustu og í skólum.

Hávaði getur haft neikvæðar afleiðingar fyrir heilsu starfsmanna en heyrnartjón af völdum hávaða er einn algengasti atvinnusjúkdómurinn í Evrópu. Enn fremur getur hávaði leitt til eyrnarsuðs og ýtt undir streitu. Þá eykur hávaði hættuna á vinnuslysum þar sem hann torveldar til dæmis starfsmönnum að heyra og skilja viðvörunarhljóð eða hefur truflandi áhrif á einbeitingu starfsmanna við störf sín þannig að líkur á mistökum verða meiri.  

Vinnueftirlit ríkisins 25. október 2005Mikilvægt er því að atvinnurekendur taki tillit til áhrifa hávaða í vinnuumhverfi við gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd. Þar skipta forvarnir miklu máli en finna þarf leiðir til að koma í veg fyrir hávaðann eða draga úr honum eins og frekast er kostur. Í þessu sambandi skiptir ekki síður máli að árangur forvarna sé metinn reglulega til að komast megi að hvort þær séu raunverulega að virka.  

Ég hef oft sagt það að mannauðurinn sé það dýrmætasta sem hver þjóð á og við Íslendingar erum þar engin undantekning. Hvert unnið handtak skiptir máli við að viðhalda jákvæðri efnahagsþróun hér á landi. Þess vegna skiptir máli að fólki sé tryggt öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi þannig að því líði vel á vinnustaðnum. 

Fólk þarf hvatningu til að halda störfum sínum áfram og þar með framleiðni fyrirtækjanna. Um leið er það að stuðla að áframhaldandi hagsæld þjóðarinnar, einstaklinganna sem og heildarinnar. Við megum ekki gleyma þeirri staðreynd að fyrirtækin eru oftast lítið annað en fólkið sem starfar innan þeirra. Þetta langar mig að biðja ykkur að hafa hugfast í annríki hversdagsins.  

Lykillinn að árangri við vinnuvernd starfsmanna er að mínu mati góð og náin samvinna starfsmanna og atvinnurekenda. Á þessari meginreglu byggjast lög okkar og reglur sem fjalla um vinnuvernd og er mikilvægt að fyrirtæki sjái sér hag í því að fylgja þeim eftir. Það á ekki síður við um starfsmennina sjálfa. Þýðingarmikið er því að atvinnurekendur og starfsmenn vinni sameiginlega að því markmiði að greina þær hættur sem geta leynst í vinnuumhverfinu svo draga megi úr þeirri áhættu sem þeim kann að fylgja.

Fyrr í haust vakti umfjöllun í einu dagblaðanna athygli mína en þar voru áhrif áhættugreiningar gerð að umfjöllunarefni. Þar kom meðal annars fram að það að starfsmenn hefji vinnu sína á því að gera áhættugreiningu fyrir daginn hafi komið í veg fyrir alvarleg slys sem leitt hefðu til fjarveru starfsmanna. Þarna geta nokkrar mínútur á hverjum degi skipt sköpum. Hlýtur það að teljast vera til hagsbóta bæði fyrir fyrirtækið sem í hlut á sem og starfsmennina sjálfa.

Um leið og ég segi þessa vinnuverndarviku setta vonast ég til að fleiri fyrirtæki sjái sér hag í að uppfylla skyldur sínar samkvæmt vinnuverndarlögum um gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem felur bæði í sér gerð áhættumats og áætlun um heilsuvernd.  

Gangi ykkur vel.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum