Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Öflugt velferðarkerfi er undirstaða samfélagsins

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur á verksviði sínu flest þeirra verkefna sem brýnust eru framundan um velferð einstaklinga og fjölskyldna í landinu.

Við búum að því að Jóhanna Sigurðardóttir, forveri minn í starfi, hrinti í framkvæmd margvíslegum félagslegum úrbótum meðan enn áraði vel í landinu. Breytingar voru gerðar á sviði almanntrygginga, sem hafa komið lífeyrisþegum til góða, einkum þeim tekjulægstu, ásamt ýmsum öðrum aðgerðum til hagsbóta fyrir fatlaða, aldraða, heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Unnið hefur verið að endurskoðun almannatryggingakerfisins og ég mun halda þeirri vinnu áfram. Eitt stærsta verkefnið framundan er þó án efa að styðja við heimilin í landinu og lágmarka fjárhagslegan og félagslegan skaða fólks af völdum efnahagsástandsins.
Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar hef ég nú sett á fót velferðarvakt til að fylgjast með fjárhagslegum og félagslegum afleiðingum bankahrunsins. Þetta er mikilvægt forvarnarstarf enda er vaktinni ætlað að kortleggja erfiðleikana sem líklegir eru til að mæta fólki og gera tillögur um viðbrögð stjórnvalda og samhæfingu aðgerða þeirra.

Heimili fólks varin með öllum ráðum

Mikilvægt er að verja heimili fólks, sporna gegn vaxandi atvinnuleysi og bæta aðstæður þeirra sem misst hafa vinnuna. Margt hefur verið gert í þessu skyni.

Strax við upphaf bankahrunsins voru heimildir Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum rýmkaðar, ýmsu í verklagi hans var breytt og innheimtuaðgerðir mildaðar. Tekin var upp greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignalána sem gerir fólki kleift að létta tímabundið greiðslubyrði af lánum. Þá var lánstími lána sem veitt eru vegna greiðsluerfiðleika lengdur úr 15 árum í 30 og hámarkslánstími lengdur úr 55 árum í 70.

Fyrirbyggja þarf að fólk missi húsnæði sitt vegna greiðsluerfiðleika. Ef til þess kemur þarf að tryggja öryggi heimila og fjölskyldna. Í þessum tilgangi var Íbúðalánasjóði veitt heimild til að leigja eða fela öðrum að annast leigumiðlum íbúðarhúsnæðis sem sjóðurinn leysir til sín á nauðungarsölu. Þetta gerir fólki kleift að búa áfram á heimilum sínum gegn leigu.
Þá hefur starfsemi Ráðgjafastofa heimilanna verið efld, starfsfólki fjölgað og opnunartími lengdur.

Barist gegn atvinnuleysi

Vinnumálastofnun hefur verið efld til að mæta vaxandi álagi og bæta þjónustu. Með lagabreytingu var heimilað að greiða fólki sem er í hlutastarfi tekjutengdar atvinnuleysisbætur í lengri tíma en áður og skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf var felld niður. Þetta hefur hvatt atvinnurekendur til að semja við starfsfólk um lægra starfshlutfall í stað þess að grípa til uppsagna. Einnig var fólki sem starfar sjálfstætt veittur rýmri réttur til atvinnuleysisbóta en áður.

Nýlega voru settar reglugerðir sem kveða á um nýja lánaflokka Íbúðalánasjóðs, rýmri útlánareglur og heimildir til veðlánaflutninga. Veittar voru heimildir til að veita lán til félaga, félagasamtaka og sveitarfélaga vegna endurbóta og viðhalds á leiguíbúðum. Þetta skapar aukið svigrúm til framkvæmda og mun ýta undir aukna atvinnu í byggingariðnaði.

Fólk án atvinnu haldi virkni sinni

Velferð einstaklinga og fjölskyldna byggist á mörgum þáttum. Fjárhagsleg staða er undirstöðuatriði en félagslegar aðstæður vega einnig þungt. Að missa atvinnu sína er ekki síður félagslegt áfall en fjárhagslegt. Því er það stór áskorun að bregðast við vaxandi atvinnuleysi með úrræðum sem gera fólki kleift að halda virkni sinni og takast á við uppbyggjandi verkefni sem styrkja það til atvinnuþátttöku á ný þegar úr rætist. Hlutverk Vinnumálastofnunar á þessu sviði hefur verið aukið. Stendur hún fyrir fjölbreyttum verkefnum á borð við ýmis konar nám og námskeið, atvinnutengda endurhæfingu, starfsþjálfun, ráðningar til reynslu, frumkvöðlastörf auk sérstakra átaksverkefna sem fólk án atvinnu getur stundað og fengið atvinnuleysisbætur greiddar samhliða. Nánari upplýsingar um þessi verkefni má finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Mikilvæg verkefni framundan

Eitt af hlutverkum félags- og tryggingamálaráðuneytisins heyrir að vinna að því að úrræði vegna greiðsluerfiðleika sem Íbúðalánasjóður getur boðið viðskiptavinum sínum standi einnig til boða þeim sem sem eru með fasteignaveðlán hjá ríkisbönkunum. Verið er að útfæra leiðir að þessu marki í við viðskiptaráðuneytið.

Starfshópur sem forveri minn skipaði um síðustu áramót til að gera tillögur um aðgerðir gegn atvinnuleysi skilaði fyrstu tillögum um síðustu mánaðamót og er vinna við að hrinda þeim í framkvæmd þegar hafin. Má sem dæmi nefna rýmri heimildir Íbúðalánasjóðs til útlána vegna viðhaldsverkefna, áform um að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt vegna vinnu manna á byggingarstað við viðhald og endurskoðun á lánareglum LÍN og samspil þeirra við reglur atvinnuleysistryggingasjóðs með það að markmiði að auðvelda atvinnulausum að stunda nám.

Samráð og samvinna

Öflugt og gott velferðarkerfi er mikilvæg undirstaða hvers samfélags og mikilvægi þess hefur sjaldan verið meira en nú. Ég hyggst því standa vörð um velferðarkerfið og styrkja þá þætti sem best styðja þá sem minnst bera úr býtum. Verkefnin framundan krefjast samráðs og samvinnu stjórnvalda, stjórnmálamanna, atvinnulífsins, samtaka launafólks, fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka og einstaklinga. Ég legg áherslu á þetta í starfi mínu sem ráðherra og óska eftir góðri samvinnu við alla þá sem geta og vilja leggja gott af mörkum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. febrúar 2009



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum