Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. maí 1995 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Aðalfundur VSÍ 1995

16. maí 1995


Ræða Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra

á aðalfundi Vinnuveitendasambands Íslands
16. maí 1995


Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er lýst helstu markmiðum og verkefnum ríkisstjórnarinnar á sviði efnahags- og atvinnumála. Að þessum markmiðum verður unnið á þeim grunni stöðugleika og bættra starfsskilyrða atvinnuveganna, sem lagður hefur verið á undanförnum árum.

Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar í þessum málum eru:
  • Að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir hagvöxt.
  • Að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu.
  • Að vinna að nýskipan í ríkisrekstri.
  • Að taka upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á skattakerfinu.
  • Að leggja fram áætlun um verkefni á sviði einkavæðingar sem unnið verður að á kjörtímabilinu.
  • Að tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu.
  • Að tryggja hagsmuni Íslands varðandi veiðar utan fiskveiðilögsögunnar.
  • Að skapa svigrúm til aukinnar hagræðingar í landbúnaði og úrvinnslugreinum hans.
  • Að efla byggð í landinu með traustum og góðum samgöngum þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar nýtist með hagkvæmum hætti.
  • Að endurskoða vinnulöggjöfina með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum einstakra félagsmanna í stéttarfélögum.
  • Að móta heildarstefnu í samvinnu við fulltrúa atvinnulífsins um upplýsingatækni og -miðlun er miði að því að auka framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
  • Að vinna að frekari erlendri fjárfestingu í atvinnulífinu.
  • Að treysta samskiptin við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
  • Að leggja áherslu á markaðssókn um allan heim og leita leiða til að virkja íslenskt framtak til verkefna á erlendum vettvangi.

Hér er af mörgu að taka. Einstakar aðgerðir verða undirbúnar á næstu vikum og kynntar með verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar í haust.

Skemmst er frá því að segja að ástand og horfur í efnahagsmálum eru um margt uppörvandi um þessar mundir. Stöðugleiki ríkir í verðlagsmálum, afgangur er á viðskiptum við útlönd og hagvöxtur hefur náð sér á strik. Jafnframt virðast atvinnuvegirnir vera í sókn á mörgum sviðum og atvinnuleysi er í rénum, þótt of hægt miði enn í þeim efnum. Við bætist að skilyrði virðast vera fyrir því að hagvöxtur haldi áfram og lífskjör batni á næstu árum ef rétt er á málum haldið.

Verðlagsþróun hefur verið hagstæð að undanförnu. Verðlag hefur verið stöðugt frá því í byrjun árs og vísitala neysluverðs er nú aðeins 1,3% hærri en hún var fyrir ári. Verðbólga hefur óvíða verið minni en hér á landi. Spáð er að verðbólga verði 1 1/2 - 2 1/2% á þessu ári. Þetta er svipuð verðþróun og reiknað er með að meðaltali í aðildarríkjum OECD. Verðbólga á þessu bili er ekki áhyggjuefni, en við þekkjum það af biturri reynslu hversu snögg umskipti geta orðið í þessum efnum ef við gætum ekki að okkur.

Viðskiptin við útlönd skiluðu afgangi í fyrra og hittiðfyrra og einnig stefnir í afgang á þessu ári. Ekki hefur áður verið afgangur á viðskiptajöfnuði í þrjú ár í röð frá stofnun lýðveldisins. Þessi hagstæða þróun endurspeglast í skuldastöðu þjóðarbúsins. Í fyrra lækkuðu erlendar skuldir þess hvort sem talið er í krónum, reiknað að raungildi eða mælt sem hlutfall af landsframleiðslu. Skuldalækkun á alla þessa mælikvarða samtímis hefur án efa ekki átt sér stað síðastliðin fimmtíu ár. Og horfurnar fyrir þetta ár lofa góðu.

Hagvöxtur hér á landi að undanförnu stenst fyllilega samanburð við það sem hefur verið að gerast annars staðar. Landsframleiðsla jókst í fyrra um 2,8% og áætlað er að hún aukist um 3% á þessu ári. Þetta eru nánast sömu hagvaxtartölur og að meðaltali í aðildarríkjum OECD fyrir sömu ár. Jafnframt er efnahagur Íslendinga traustari en oft er látið í veðri vaka. Þannig er landsframleiðsla á mann nú um 7% meiri en að meðaltali í OECD og 23% meiri en að meðaltali í Evrópuríkjum OECD. Sé aðildarríkjum OECD raðað eftir verðmæti landsframleiðslu á mann er Ísland nú í 8. sæti af 25 ríkjum.

Enginn vafi er á því að atvinnulífið er að styrkjast og sækja fram á mörgum sviðum. Til marks um þetta má meðal annars nefna að afkoma þess hefur batnað stórlega. Á árunum 1992 og 1993 var hagnaðurinn áætlaður 1 - 11/2% af tekjum en í fyrra er talið að hann hafi verið um 3%. Í krónum talið er hér um að ræða breytingar frá 5-10 milljarða króna hagnaði á ári 1992-1993 til rúmlega 20 milljarða í fyrra. Áætlað er að afkoma atvinnuveganna verði ekki lakari á þessu ári en í fyrra. Þessi bati gerir það að verkum að afkoma íslenskra fyrirtækja er nú líkari því sem algengast er í helstu viðskipta- og samkeppnislöndum. Afkomubatinn mun smám saman leiða af sér aukna fjárfestingu en fyrirtæki virðast hafa verið nokkuð hikandi í þessum efnum þrátt fyrir hagfelldar aðstæður.

Betri afkoma og samkeppnisstaða hafa örvað vöxt í mörgum atvinnugreinum. Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að útflutningsiðnaður, ferðaþjónusta og ýmsar samkeppnisgreinar hafa eflst verulega. Vegna hagstæðra almennra starfsskilyrða og stöðugleika hafa orðið stakkaskipti í þessum greinum. Þetta er mjög þýðingarmikið því að vöxtur og viðgangur í þessum greinum mun án efa ráða miklu um lífskjör hér á landi í framtíðinni. Við þetta bætist svo að nú standa yfir viðræður við eigendur ÍSAL um stækkun álversins í Straumsvík. Of snemmt er að segja til um niðurstöður en stækkun ÍSALS hefði veruleg efnahagsleg áhrif og mundi styrkja stöðu okkar í frekari nýtingu orkulindanna.

Aukin atvinna hefur fylgt batanum í efnahagslífinu. Störfum hefur fjölgað, meira er auglýst eftir starfsfólki og meiri bjartsýni ríkir nú ávinnumarkaði en um langt skeið. Þannig sýnir könnun Þjóðhagsstofnunar á fjölda lausra starfa í apríl síðastliðnum að fyrirtæki vilja bæta við sig fólki. Þetta er í fyrsta skipti síðan 1992 sem slíkar kannanir sýna áhuga atvinnurekenda á fjölgun starfsmanna. Engu að síður er atvinnuleysið enn mikið. Venjulega er það svo að atvinnuleysi fer ekki að minnka að ráði eftir þrengingartíma fyrr en hagvöxturinn hefur náð að festa rætur og bjartsýni ríkir um framhald hans.

Meginverkefnið í efnahagsmálum á næstunni er að tryggja að vaxtarskeiðið, sem hófst í fyrra, vari sem lengst. Í því skyni skipta tvö grundvallaratriði mestu máli. Annars vegar að hér ríki stöðugleiki og jafnvægi og hins vegar að hagskipulagið og leikreglur efnahagslífsins hvetji til sem mestra framfara. Ríkisstjórnin mun leggja sitt af mörkum á báðum þessum sviðum.

Til þess að tryggja stöðugleikann og viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskapnum er brýnt að koma opinberum fjármálum í viðunandi horf. Án sérstakra aðgerða stefnir í vaxandi halla á næstu árum og ef það gengi eftir væri hætt við að menn lentu í sjálfheldu hárra vaxta og óróleika í gengismálum eins og ýmsar þjóðir hafa upplifað að undanförnu. Ríkisstjórnin mun koma í veg fyrir þetta. Í því skyni hefur þegar verið hafin vinna að gerð langtímaáætlunar í ríkisfjármálum sem hefur það að markmiði að koma jafnvægi á í ríkisbúskapnum á kjörtímabilinu. Þessi áætlun verður kynnt með fjárlagafrumvarpinu í haust.

Sveiflur í þjóðarbúskapnum og óvissa um starfsskilyrði atvinnulífs hafa skert hagvaxtargetu þjóðarbúsins. Þessu þarf að breyta. Ég hef skipað nefnd með þátttöku atvinnulífsins til að gera tillögur um hagvaxtarstefnu sem miðar að því að skapa sem best vaxtarskilyrði fyrir þjóðarbúskapinn til lengri tíma. Grundvallaratriði er að halda verðbólgu í skefjum og jafna sveiflur í þjóðarbúskapnum. Í því skyni þarf bæði almennar ráðstafanir og sérstakar til að draga úr áhrifum sveiflna sem eiga upptök sín í sjávarútvegi. Ef nefndinni tekst að finna viðunandi frambúðarlausn í þessum efnum munu skilyrðin til hagvaxtar á næstu árum nýtast betur en ella. Góð samkeppnisstaða og trú á því að hún muni ekki breytast til hins verra á næstu árum mun leggja grunn að framfarasókn í atvinnulífinu. Fjárfesting í atvinnulífinu þarf að aukast til þess að það geti borið uppi viðunandi hagvöxt í framtíðinni.

Þau auknu umsvif sem nú eru sjáanleg víða í þjóðarbúskapnum eru reist á þeim grunni sem lagður hefur verið á síðustu árum. Stöðugleikinn hefur verið treystur með aðgerðum stjórnvalda og skynsamlegum kjarasamningum. Ýmsar breytingar í átt til aukins frjálsræðis og meiri samkeppni eru nú að skila árangri og áfram verður haldið á þeirri braut. Starfsskilyrði atvinnuveganna, ekki síst skattakjör þeirra, hafa batnað verulega og eru nú í veigamiklum atriðum svipuð og hjá helstu keppinautunum.

Kjarasamningar ASÍ-félaga og vinnuveitenda skapa öryggi um framvindu á vinnumarkaði á þessu og næsta ári. Lykilatriði er að aðrir samningar fylgi sömu línum og þar voru lagðar. Kjarasamningar síðustu ára bera vott um víðtækan skilning á því að áframhaldandi stöðugleiki er nauðsynleg forsenda raunhæfra kjarabóta. Þeir sýna það einnig að samskipti aðila vinnumarkaðarins byggjast í vaxandi mæli á gagnkvæmum skilningi á heildarhagsmunum þjóðarbúsins alls. Þótt þetta hafi gerst innan gildandi vinnulöggjafar, sem nú er orðin meira en hálfrar aldar gömul, þá er nú ástæða til þess að endurskoða þessa löggjöf í ljósi breyttra aðstæðna. Markmiðið með þeirri endurskoðun er að stuðla að stöðugleika og ábyrgð samningsaðila í hvívetna og auka áhrif einstakra félagsmanna í stéttarfélögum.

Því miður eru nú blikur á lofti í samskiptum sjómanna og útvegsmanna og verkfall yfirvofandi. Það veldur áhyggjum ef stöðugur ágreiningur og deilur eru um þær aðferðir og leiðir sem nota á til að gera út um tekjuskiptinguna í sjávarútvegi. Eðlilegt er að ágreiningur sé um skiptinguna en það þarf að vera sátt um þær aðferðir sem nota skal við að skipta verðmætunum. Hér þurfa allir aðilar að leggjast á eitt um að ná niðurstöðu, gera grein fyrir sínum sjónarmiðum og leita lausna.

Þessar deilur eru uppi á sama tíma og Íslendingar standa í deilum við nágranna sína um veiðar á úthafinu, veiðar sem skipta okkur miklu máli og miklir hagsmunir eru í húfi um alla framtíð. Því miður hafa ekki tekist samningar við Norðmenn og aðra samningaaðila í þessu máli vegna óbilgirni þeirra. Vonandi verður hér á breyting fljótlega svo koma megi á ábyrgri fiskveiðistjórn á úthafinu.

Ég hefi hér að framan gert nokkra grein fyrir framvindu og horfum í efnahagsmálum um þessar mundir, margháttuðum úrbótum í starfsskilyrðum atvinnuveganna á undanförnum árum og stefnu nýrrar ríkisstjórnar í efnahags- og atvinnumálum.

Ég fullyrði að nú sé komið besta tækifæri sem Íslendingar hafa fengið um langt skeið til að hefja varanlega sókn til bættra lífskjara. Ríkisstjórnin hefur mótað stefnu sína og mun hrinda henni í framkvæmd. Hvernig okkur tekst að nýta þessi tækifæri veltur hins vegar fyrst og fremst á fyrirtækjunum sjálfum, stjórnendum þeirra og starfsfólki. Einungis öflugt starf fyrirtækjanna getur skilað okkur fullri atvinnu og varanlegum lífskjarabata.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum