Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. janúar 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ráðstefna Landverndar um hálendið

23. janúar 1999



Ávarp forsætisráðherra á ráðstefnu Landverndar um verndun og nýtingu hálendisins


Ávarp.

Ég er þakklátur fyrir það að fá að ávarpa þessa samkomu hér í dag. Kemur þar aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi er gleðiefni að samtökin sem standa fyrir ráðstefnunni hafa þróast vel á undanförnum misserum. Í öðru lagi, og það er aðalatriðið, er málefni dagsins sérstaklega mikilvægt. Það lýtur að því hvernig við nýtum og njótum hálendis Íslands, og hvernig við ræðum þau mál með rökrænum hætti.

Þegar litið er til ellefu alda sögu þjóðarinnar kemur á daginn að lengst af létu menn náttúru landsins afskiptalausa, hvorki nýttum við afl hennar né nutum stórbrotinnar fegurðar. Það er aðeins á þessari öld sem við byrjum að nýta hreinar orkulindir landsins. Við þreyjuðum þúsund ára fátækt, og við þær aðstæður datt engum í hug að hálendi landsins, afdrep útlaga og drauga, teldist til sérstakra verðmæta. Öld tækninnar breytti öllu. Skyndilega kom öflugur skipafloti, vissulega mikill mengunarvaldur, vegir með hundrað þúsund bílum og tilheyrandi mengun, flugvélar og iðjuver, og enn meiri mengun, tæknivæddur landbúnaður, langt í frá laus við mengun. Þannig hóf nútíminn innreið sína í landið með tilheyrandi lífsgæðum. Loks hafði þjóðin, fyrir meðalgöngu mengunarskapandi framtaks, efni á að njóta fegurðar öræfa landsins í fríum sem nú gefast loks frá brauðstritinu. Kaldhæðnislegt, kunna menn að segja. Og aðrir spyrja sjálfsagt: Hvað er maðurinn að fara? Er hann að halda því fram að mengunin sé upphaf mannsæmandi lífs í landinu og því meiri mengun því betra líf? Að sjálfsögðu er það ekki svo. Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á hverjar séu forsendur lífs í landinu og að nýtingarmenn og náttúruunnendur verði að eiga samleið, og hljóti að eiga samleið.

Síðan eru á þessu máli öllu fleiri hliðar, sem þessa dagana kunna að verka framandi á suma. Sú viðleitni okkar að nýta hringrásarkerfi vatnsins til að búa til hreina orku hefur stuðlað að minni loftmengun í heiminum, því án þessara framkvæmda hefði verið meiri þörf fyrir að nota mengandi orkugjafa annars staðar í veröldinni. En sem áður greinir nýtum við ekki aðeins hálendið, við höfum líka verið að njóta hálendisins og sá þáttur fer vaxandi. Þannig ferðast fleiri okkar nú á þær slóðir en áður. Helsta ástæða þess að vegir hafa víða verið lagðir upp um hálendið er reyndar sú að ráðist var í framkvæmdir, nýtinguna sem ég áður gat. Það er sem sagt eru ekki lengur aðeins á færi einstaka fjallgöngugarpa eða tröllajeppa að ferðast um víðerni miðhálendisins. Þá eru til þeir sem njóta hálendisins með því einu að vita af því stórbrotnu og óspilltu, jafnvel þótt hinir sömu fari nær aldrei út fyrir byggð sjálfir. Ekki ber að gera lítið úr þeirra rétti. Okkur finnst einfaldlega gott til þess að vita að gætt sé að þeim einstæðu náttúruperlum, sem finnast á landinu okkar, jafnvel þótt við eigum sjálf eftir að vitja þeirra, og komum því kannski ekki í verk, meðan við dveljum hérna megin grafar.

Í þessu sambandi er reyndar athyglisvert að fylgjast með frændum vorum Dönum. Ég átti þess kost fyrir tveimur árum að fljúga í þyrlu yfir alla Danmörku þvera og endilanga ásamt starfsbróður mínum þar í landi. Í þeirri ferð sást glöggt, að varla er lófastór blettur í öllu landinu sem lengur er í því ástandi sem skaparinn skildi við hann. Danir hafa breytt öllu sínu landi í þágu nýtingarinnar. Þeir telja sig þó framarlega í umhverfismálum og fengu sem slíkir umhverfiskommisar Evrópu í sinn hlut. Þessar miklu umbreytingar Dana á náttúrunni eru okkur Íslendingum ekki til eftirbreytni. Þær vekja hins vegar athygli á að náttúruvernd þarf ekki eingöngu að ganga út á það að hrófla hvergi við. Maðurinn er hluti af náttúrunni, en ekki aðskotahlutur, og þarf því ekki að fá samviskubit í hvert sinn sem hann veltir við steini. Oft er framtak okkar reyndar beinlínis í þágu umhverfisverndar, svo sem þegar við berjumst gegn uppblæstri eða sáum eða gróðursetjum til skógar. Allt er það inngrip í náttúrulega þróun, þótt stundum séum við aðeins að greiða gamla skuld.

Það dylst hins vegar engum að íbúar landsins hafa nú mun meiri áhuga á hálendinu en áður var. Það er mikið fagnaðarefni. Stjórnvöld, einstaklingar, fyrirtæki, samtök, og aðrir sem tengjast hálendinu með einhverjum hætti, fá þannig meira aðhald en fyrr. Á síðasta ári voru til að mynda samþykkt ýmis lög sem setja nýjan ramma um þennan málaflokk. Lífleg skoðanaskipti urðu í þjóðfélaginu um það starf og margir voru ósáttir við einstök atriði. Urðu sumir stóryrtir mjög af þessu tilefni, ekki síst þeir sem að jafnaði eru stóryrtir við slíkar aðstæður. Ég býst við að fleirum sé farið sem mér, að hlusta minna á orðhákana en hina sem af hógværð tala. Reyndar gætti á köflum nokkurs misskilnings í umræðunni svo sem verða vill, auk þess sem nálægð sveitarstjórnarkosninga jók aðeins á titringinn.

Lagafrumvörp þessi voru vissulega margbrotin og víðfeðm og því var um það rætt á Alþingi að nauðsyn bæri til að kynna fyrir þjóðinni hver skipan málefna hálendisins væri. Því verður í næstu viku gefið út smárit, sem hér liggur frammi og heitir Hálendi Íslands – fjársjóður þjóðarinnar, og því verður dreift inn á þorra heimila í landinu. Að auki verður bæklingurinn aðgengilegur þeim sem ekki hafa aðgang að eintaki í gegnum hina almennu dreifingu. Ætlunin með þessari kynningu er ekki að rökstyðja þennan eða hinn kostinn sem taka þarf afstöðu til á næstu árum og misserum. Tilgangurinn er að útskýra hvaða grunnur hefur verið lagður, hvaða umgjörð ríkir um ákvarðanatöku, hvert fólk getur leitað með spurningar, vafamál eða áætlanir sem tengjast hálendinu.

Í stuttu máli má segja að fernt hafi skýrst, bæði með lagasetningunni í fyrra og reyndar að auki með nokkrum atriðum sem nú er verið að leggja lokahönd á. Í fyrsta lagi er leyst úr óvissu sem ríkti um eignarhald á óbyggðum svæðum, með þjóðlendulögunum svokölluðu. Slík afgerandi úrlausn var löngu tímabær, enda höfðu lengi staðið deilur og jafnvel málaferli um ýmsa skika landsins sem Hæstarétt skorti skilyrði til að greiða úr. Nú hefur tekið til starfa svokölluð óbyggðanefnd sem mun á næstu árum skera kerfisbundið úr um mörk eignarlanda og þjóðlendna og skýrgreina ýmis áunnin réttindi. Þá lúta öll svæði, í byggð sem óbyggð, nú sveitarstjórnarlegu valdi sem er nauðsynlegt vegna stjórnskipunar landsins. Enda höfðu iðulega komið í ljós gallar þess að sums staðar var engin ábyrgð, stjórnsýsla eða löggæsla. Til að mynda höfðu mörg hundruð mannvirki verið reist inni á hálendinu án þess að nokkur fengi rönd við reist. Ný skipan færir þessi atriði til betra horfs. Þá liggur nú fyrir tillaga um svæðisskipulag miðhálendisins sem unnið hefur verið að síðastliðin fimm ár. Að auki ráðgera stjórnvöld að skipa sérstaka nefnd sem varanlega mun fjalla um svæðisskipulag á hálendinu. Hún fylgist með að samræmis sé gætt milli skipulags hálendisins annars vegar og skipulagstillagna sveitarfélaga hins vegar, og að innbyrðis samræmi ríki þegar valdmörk sveitarstjórna skarast. Þá eru nú komnar til framkvæmda samræmdar og skýrar reglur um nýtingu auðlinda í jörðu. Þannig á að tryggja að auðlindirnar verði nýttar í almannaþágu og að sjónarmið um umhverfisvernd séu höfð að leiðarljósi við nýtinguna. Að auki eru í vinnslu frumvörp til laga um raforkuvinnslu, um umhverfismat og til náttúruverndarlaga. Það er sérstaklega áríðandi að þessi rammi laga og stjórnsýslu sé skýr, en á það hefur lengi skort. Það er kunn staðreynd að óvissa getur verið ávísun á sóun og leitt til óbætanlegra spjalla á gæðum. Að auki þarf að leitast við að þessi opinbera umgjörð sé fólki ljós á komandi árum, þegar taka þarf afstöðu til ýmissa vandasamra úrlausnarefna.

Það er í nokkurri tísku að láta sem deilurnar um hálendið séu sérlega illvígar. Hvar eru þær deilur og hverjir deila? Og um hvað er nákvæmlega deilt? Við því er ekkert eitt svar, enda er það svo, að engin ein eða afmörkuð umræða fer fram. Þegar viss svæði eiga í hlut hafa sumir mjög skýra skoðun um vernd eða nýtingu, landbætur eða landamörk. Önnur álitamál eru í umræðunni á öðrum svæðum. Það hlýtur að vera fengur að því að búið er skapa stjórnskipulegan farveg fyrir slík úrlausnarefni. Breytingin er sú að nú á að vera ljóst hvar tiltekin mál eru leidd til lykta, með hvað hætti og af hverjum, að minnsta kosti þegar hið opinbera hefur aðkomu að málinu. Af þjóðmálaumræðunni mætti reyndar einstaka sinnum skilja að fyrrnefnd deila lúti almennt að því hvort við eigum á annað borð að nýta orkulindir okkar, og þá að því er virðist virkja sem víðast, á hinn bóginn að hafast ekki neitt að og láta þessar hreinu orkulindir í friði. En þarna verðum við að gæta okkar. Valkostirnir eru hvorki svo einfaldir né heldur svo afgerandi. Það er málefnum hálendisins ekki til framdráttar að stilla kostunum svona upp, eins og öruggt sé að þeir geti ekki farið saman. Fólk fer þá að ímynda sér að brýnast sé að tryggja að annar hvor andstæði póllinn muni að lokum verða ofan á en ekki hinn. Öfgar fela sjaldnast í sér lausnir og örugglega ekki í þessu álitaefni.

Öfgar eru hins vegar ekki það sama og tilfinningar. Ég hef áður látið þess getið að í umræðunni um verndun og nýtingu hálendisins eigi tilfinningaleg rök fremur rétt á sér en í flestum öðrum ágreiningsefnum. Hin borðföstu hagkvæmnirök ber vissulega að skoða, en ekki þau ein. Ég hef stundum líkt þessu við þau rök sem notuð voru í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga fyrr á öldinni. Þá voru það ekki síður tilfinningaleg sjónarmið sem knúðu fólk til dáða, en hin beinhörðu efnahagslegu rök. Í hálendisumræðunni eru ekki síður til staðar álitamál sem ekki verða reiknuð út eða fundin ein óumdeild niðurstaða um. Við viljum gæta að náttúruperlum landsins, m.a. af tilfinningalegum ástæðum. Við viljum líka að landsbyggðin fái að styrkja sig og efla með því að nýta tækifæri á hálendinu. Þessi skoðun byggist m.a. á tilfinningalegum sjónarmiðum. Þá viljum við einnig að í stað mengandi orkugjafa verði í heiminum sem mest notað af grænni orku, og þar erum við í hlutverki veitandans. Sú skoðun byggist að minnstu leyti á hagkvæmnirökum. Ég tel með öðrum orðum ekki rétt að gera lítið úr sjónarmiðum á þeirri forsendu að þau styðjist ekki eingöngu við beinhörð efnahagsleg rök. En hinu má ekki gleyma að tilfinningarökin hrannast ekki eingöngu á aðra vogarskálina, eins og sumir virðast ætla.

Ágætu gestir.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að í málefnum hálendisins ægir saman ýmsum sjónarmiðum sem ekki virðist alltaf létt að samrýma. Hagsmunir bænda, atvinnurekenda, ferðamanna, náttúruunnenda, ferðaþjónustu og einstakra byggðalaga geta verið mjög mismunandi frá einu svæði til annars. Hins vegar ég ósammála þeim fjölmiðlum sem því halda fram, að hálendið muni valda stórfelldum þjóðfélagsdeilum í landinu á næstu árum. Þá skoðun mína byggi ég í fyrsta lagi á því að sá rammi, sem mótaður hefur verið með löggjöf og stjórnsýslu, vísar nú veginn við úrlausnir. Í öðru lagi er ekki grundvallarágreiningur í málinu. Ég leyfi mér að fullyrða að allur þorri Íslendingar vilji annars vegar að við verndum perlur hálendisins og höldum merkum náttúrufyrirbærum ósnortnum, og hins vegar að við nýtum hreinar orkulindir hálendisins, andrúmsloftinu og byggðum landsins og öllum almenningi il hagsbóta. Það er með öðrum orðum gerð krafa til þeirra sem með ákvörðunarvald fara, að sanngjarnar lausnir séu fundnar, sem taki ríkt tillit til þeirra þátta sem helst skarast. Menn eru ekki alls staðar sammála um útfærslur á þessum meginmarkmiðum, meira að segja alveg fullkomlega ósammála þegar viss svæði eiga í hlut, en grundvallaratriðin eru nær alls staðar þau sömu. Reyndar getur verið að einhverjir telji sig hafa tímabundinn hag af því að gera sem mest úr þeim ágreiningi sem þó er fyrir hendi. Til langframa tel ég hins vegar að fáir muni leggja sig í líma við að halda deilum gangandi eða magna þær, deilnanna einna vegna.

En orð og sameiginlegur skilningur eru til alls fyrst. Nú er að störfum auðlindanefnd með þátttöku allra stjórnmálaflokka þar sem meðal annars er rætt um nýtingu og verndun hálendisins. Það er eitt skref í rétta átt. Útgáfa ríkisstjórnarinnar á kynningarefni, þar sem farið er yfir hver er lagaleg skipan málefna hálendisins eftir nýlegar breytingar, er annað skref. Enn annað skref er að Landvernd, sem er félagsskapur sem ekki byggir á trúarsetningum heldur faglegri umræðu, heldur í dag þessa athyglisverðu ráðstefnu þar sem hálendismál eru rædd frá mörgum gagnmerkum sjónarhornum. Fleiri slík skref verða síðar stigin. Með æsingalausum aðferðum af þessu tagi komast menn helst að því hvar þeir eru sammála og hvar þurfi að leita niðurstaðna. Ég bind því nokkrar vonir við að næstu misseri verði umræðan um hálendi Íslands í senn rökræn og ábyrg, og um leið leyfi tilfinningum að komast að, vilji menn eiga fagurt land og frítt, en auðgast um leið af afli þess og orku. Þúsund ára þekkingar- og nýtingarleysi á hálendi Íslands gaf þeim um tveimur milljónum Íslendinga, sem hafa búið í landinu á undan okkur, ekkert í aðra hönd eða til unaðar. Við skulum tryggja að næstu tvær milljónir Íslendinga sem eftir okkur koma geti notið hvors tveggja.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum