Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. mars 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Að flytja út Ísland

3. mars 1999



Ávarp forsætisráðherra, Að flytja út Ísland,
á Nýsköpunarverðlaunum Rannsóknarráðs og Útflutningsráðs



Ávarp.

Það er orðið hluti af vorverkum Rannsóknarráðs og Útflutningsráðs að sæma einhvern nýsköpunarverðlaunum fyrir frumlegt framtak. Það er vel til fundið og hvetur fólk og fyrirtæki til dáða, og ýtir undir ný tækifæri og nýja þekkingu.

Við getum verið nokkuð stolt af því hvernig rannsóknum og þróunarstarfi hefur undið fram hér á landi síðustu ár. Í upphafi þessa áratugar voru flestir á einu máli um að við Íslendingar verðum ekki nægjanlegu fé til slíkra verkefna. Minna var rætt um að sumt af því fé var að auki nýtt í lítt grundaða eða ofmetna hluti. Peningar eru reyndar ekki algild mælistika í þessu sambandi. Fyrst og síðast er nauðsynlegt að viðfangsefnin séu gagnleg og að þeir fjármunir sem þó er úr að spila séu markvisst nýttir.

En peningamælistikan segir þó þrátt fyrir allt sína sögu. Á þann mælikvarða hafa umskiptin orðið mikil. Á þessum áratug hafa útgjöld á Íslandi til rannsókna og þróunarstarfs aukist um 10-12% á ári, sem er afar ör vöxtur. Hvergi innan OECD er kúrfan jafn brött. Vissulega munar þar mestu um aukinn hlut atvinnulífsins og er það vísasta bendingin um að verkefnavalið sé skynsamlegt. Menn verja sjaldnast eigin fé til verkefna sem þeir hafa takmarkaða trú á. Menn eru á hinn bóginn örlátari á annarra fé.

En ríkisvaldið hefur einnig bætt umtalsverðu við, einkum nú hin síðustu ár og úr því hefur of lítið verið gert. Árið 1997 vörðum við Íslendingar samtals 9 milljörðum í þessu skyni. Það var þá meira en nokkru sinni fyrr, bæði í peningum talið og sem hlutfall af landsframleiðslu, og síðan hefur þetta framlag enn vaxið.

Og allar vísbendingar um nánustu framtíð benda í sömu átt. Það hefur ekki farið fram hjá neinum í þessum sal að ríkisstjórnin hefur ákveðið að auka ráðstöfunarfé RANNÍS um fjórðung og veita 580 milljónum til sérstakra rannsókna og þróunar á sviði umhverfismála annars vegar og upplýsingatækni hins vegar. Á þessum tveimur sviðum getum við Íslendingar almennt vel við unað og erum ekki eftirbátar annarra. En fjármunir til slíkra hluta verða aldrei svo miklir að við komumst hjá að nýta styrkleika okkar til fulls, í stað þess að dreifa kröftunum um of.

Í umhverfismálum blasa við spennandi og aðkallandi verkefni. Nefna má sveiflur í náttúrufari, sem skipta okkur miklu máli í bráð og lengd. Við höfum tekist á hendur verkefni innan hins norræna samstarfs, ekki síst fyrir frumkvæði vestur-norrænu landanna, sem lúta að hitabreytingum í hafinu. Það er mikið í húfi að vitneskja okkar um þá þætti verði sem víðfeðmust. Þá eru þarfar rannsóknir á aðlögun fyrirtækja að umhverfiskröfum. Íslendingar hafa afar jákvæða ímynd í umhverfismálum, og er furðulegt að heyra menn halda því fram opinberlega að við séum erlendis taldir umhverfislegir óþurftarmenn. Ekkert er fjær sanni.

Notkun upplýsingatækninnar breytist ört. Við þurfum því að halda vöku okkar viljum við áfram vera í fremstu röð. Slíkir þættir skipta meira máli fyrir íbúa eyjar í Norður-Atlantshafi en ýmsa aðra. Kostnaður okkar við langlínusamtöl er sem betur fer lágur og fer lækkandi, tölvulæsi og aðgangur að veraldarvefnum eru afar útbreidd og þáttaskil hafa orðið skólastarfi á þessu sviði. Til mikils er að vinna að halda slíkri samkeppnishæfni. Fyrir dyrum er átak í gerð íslensks kennsluhugbúnaðar og nýgerður samningur við tölvurisann Microsoft er sérstakt fagnaðarefni. Sá samningur hefur undirstrikað að upplýsingatæknin gefur færi á að sinna hugðarefnum sem erfitt er að meta af nákvæmni til fjár. Þar á ég meðal annars við hvernig okkur getur tekist að veita nokkra viðspyrnu í byggðamálum með fjarvinnu af ýmsum toga.

Markáætlunin um upplýsingatækni og umhverfismál mun einnig ýta undir og auka alþjóðlega samvinnu Íslendinga í rannsóknum og þróunarstarfi. Sá þáttur er mikilvægur í sífellt opnari heimi. Í því sambandi er rétt að muna að útflutningur Íslendinga hefur breyst hratt á undanförnum árum. Sjávarafurðir og ál skipta vissulega enn sköpum. Við hefur hins vegar bæst að hátækni, ekki síst tengd sjávarútvegi, er öflug. Eins hefur útflutningur á vörum til lækninga og á ýmsum stoðtækjum aukist. Þá hefur hugbúnaður orðið hástökkvarinn í íslenskum útflutningi á síðustu árum. Við munum síðan örugglega sjá líftæknina eflast myndarlega á næstu misserum. Það er vísast engin tilviljun að síðustu handhafar nýsköpunarverðlauna Rannsóknarráðs og Útflutningsráðs koma einmitt úr framannefndum greinum. Þannig er rannsóknarstarfið að skila sér með beinum hætti inn í hagtölurnar. Enda hefur, að frumkvæði menntamálaráðherra, verið ákveðið taka menntun, rannsóknir og þróun í vaxandi mæli inn í grundvöll þjóðhagsáætlana.

En hvert stefnir og hvað er framundan? Við erum vissulega að auka fjárveitingar til sköpunar nýrra tækifæra, en sem fyrr segir er það ekki allt. Við hljótum að velta því rækilega fyrir okkur hvert kraftar okkar eiga að beinast. Ég viðurkenni að ég verð stundum tortrygginn þegar ég heyri stjórnmálamenn lýsa svonefndri framtíðarsýn sinni með útbelgnum hætti, og þá jafnvel í nákvæmu og ítarlegu máli, rétt eins og framtíðin væri í þeirra farteski og jafnvel fullkomlega á þeirra valdi. Þegar slíkar vitranir verða að veruleika breytast þær oftast nær í einhliða opinbera stýringu á athafna- og rannsóknarlífi, sem engum hugnast. Frægustu framtíðarsýnirnar, fimm ára áætlanirnar sálugu, biðu eftirminnilegt skipbrot, og urðu fáum harmdauði.

Hið opinbera er, og á að vera, óbeinn þátttakandi í þróun nýsköpunar og útflutnings. Það skiptir því miklu að opinberir aðilar stígi í takt en vinni ekki óvart eða ómeðvitað hver gegn öðrum. Hér vil ég nefna til sögu sex atriði sem nokkru skipta.

Hið fyrsta tengist því að fyrir um 15 árum var hlutfall ungmenna í háskólanámi á aldrinum 20 til 24 ára um og yfir 20%. Nú stefnir þetta hlutfall í 40%. Ríkið er langsamlega stærsti aðilinn í landinu sem rekur háskólastarfsemi og því er sérstaklega mikilvægt að þar takist vel til. Mikilvægt er að hlutirnir séu gerðir rétt, en enn mikilvægara er að verið sé að gera réttu hlutina.

Samkeppni á háskólastigi mun aukast á næstu áratugum. Samkeppnin mun bæði koma að utan og frá innlendum aðilum. Slík þróun er æskileg og ríkið á að ýta undir hana en ekki streitast á móti. Íslenskir skólar á háskólastigi eru margir og sennilega þarf að sameina þar krafta, eða að minnsta kosti auka samvinnu á milli skóla. Um leið þarf að leggja enn meiri rækt við alþjóðlegt samstarf, bæði í rannsóknum, kennslu og stúdentaskiptum.

Það er áleitin spurning hvernig stendur á því að háskólamenntað fólk leiti í svo miklum mæli til hins opinbera um störf að námi loknu. Ég held að ég fari rétt með að af þeim okkar sem erum með háskólagráðu vinni um 60% hjá opinberum aðilum. Vissulega eru heilbrigðisstéttirnar þar fjölmennar og ekki bjóðast hlutfallslega mörg starfstækifæri hjá einkaaðilum enn sem komið er á því sviði. Hins vegar má vera að skólakerfið geri fólk of áhættufælið, og þekkingin og aðferðirnar nýtist því ekki jafn vel og ella. Ef fótur er fyrir þessari órökstuddu kenningu er þýðingarmikið að hvetja unga mennta- og vísindamenn til nýsköpunar sem útheimtir þekkingu þótt áhætta fylgi. Þessi samkoma hér í dag er einmitt einn liður í því. Við erum vissulega að eyða talsvert fleiri milljörðum í dag í menntakerfið en við gerðum fyrir nokkrum árum. En við komum að því aftur og aftur, að höfuðmáli skiptir hvernig við nýtum hina auknu fjármuni. Falla þeir í grýtta jörð eða frjóa?

Sem fyrr greinir verður höfuðáhersla hins opinbera, í rannsóknum og þróunarmálum, á upplýsingatækni og umhverfismálum á næstunni. Það er sígild spurning, hver þáttur grunnrannsókna eigi að vera, nú þegar svo hart er krafist hagnýts gildis þeirra fjármuna sem dreift er út. Menntamálaráðherra er að láta gera víðtæka úttekt á þessum hætti hér á landi. Næstu skref munu byggjast á þeim niðurstöðum. Þá er stefnt að auknu vægi þverfaglegra rannsókna með auknu samstarfi rannsóknarstofnana atvinnuveganna.

Skipan þessara stofnana tengist þriðja atriðinu sem ég vil ræða. Það er bakstuðningur stjórnvalda við ýmsa kima atvinnulífsins og hvernig heppilegast sé að haga honum. Ég hef áður gert að opinberu umtalsefni að rekstur stofnana á borð við Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóð, Útflutningsráð, Rannsóknarráð, rannsóknarstofnanir, fjárfestingaskrifstofur, Ferðamálaráð er ekki endilega sjálfgefinn í óbreyttri mynd. Ég held reyndar að allir geti verið sammála um að margt gott verk hafa þessar stofnanir unnið. Þessu kerfi má samt breyta, ef við teljum okkur geta nýtt takmarkað fé okkar betur og haft þessa umgjörð hagkvæmari eða einfaldari. Hluti af núverandi fyrirkomulagi átti mjög vel við þegar nýsköpun hér á landi, og reyndar efnahagsmál í heild sinni, voru með allt öðrum hætti en þau eru í dag. Þarna þarf því að fara fram endurmat á næstu misserum.

Fjórða atriðið er einnig skylt. Hvar viljum við hafa sendiráð okkar og viðskiptaskrifstofur í framtíðinni? Ýmsir vilja fara sér hægt í að auka opinbera viðveru út um heim. Margt bendir þó til þess að nauðsynlegt sé að koma okkur fyrir á fleiri stöðum en nú er. Slíkar ákvarðanir geta haft áhrif þróun íslensks útflutnings. Það eru spennandi og vannýttir möguleikar fyrir okkur víða, í Afríku, Suður-Ameríku, Norður-Ameríku, Asíu, Austur-Evrópu, Suður-Evrópu og jafnvel Rússlandi þegar fram líða stundir. Ég held ég sé núna búinn að nefna nær allan heiminn nema Suðurpólinn. Við getum ekki verið með sendiráð úti um allt og sá kostur er oft dýrari en aðrir sem koma til álita. Við erum einfaldlega of fámenn. Þarna verður hið opinbera að haga ákvörðunum sínum með sæmilega fyrirsjáanlegum hætti, en einkum þó hagkvæmum hætti.

Fimmta atriðið sem ég vil nefna, og skiptir afar miklu, er hvaða lagalega umgjörð er sett rannsóknum, nýsköpun og útflutningi. Til dæmis: Hvernig horfum við á sköpun nýrrar þekkingar? Suma þekkingu má nota bæði til góðs og ills. Tökum dæmi sem allir þekkja. Við vitum að heilbrigðisgögnin margumræddu má keyra saman og nýta til hugsanlegra framfara í læknisfræði, til að auka forvarnir og til að líkna sjúkum. Við vitum líka að aldrei er hægt að tryggja fullkomlega að gögnin verði ekki misnotuð. Er þess vegna rétt að koma í veg fyrir að slík þekking sé mynduð? Þessu svara menn á mismunandi hátt. Það er auðvitað grundvallaratriði að við berjumst gegn misnotkun en óttinn við hana á ekki einn að ráða niðurstöðunni. Við hljótum að tryggja eins vel og við getum að ný þekking sé ekki nýtt á annarlegan eða jafnvel glæpsamlegan hátt, en verðum um leið að gefa um leið víðtækt svigrúm fyrir nýja þekkingarleit.

Í þessu sama máli, gagnagrunnsmálinu svokallaða, er annað atriði sem sýnir snertiflöt laga og rannsókna, en það eru sérleyfi á þekkingu eða aðferðafræði. Auðvitað á að setja sem fæstar skorður í heimi vísinda og nýsköpunar. Stundum er hins vegar augljóst að ný þekking getur ekki orðið til nema hið opinbera veiti vernd í ákveðinn tíma. Menn leggja ekki út í kostnaðarsamar rannsóknir, sem óvíst er að nokkru skili, ef við bætist að þeir eiga á hættu að aðrir hirði á augabragði allan afraksturinn af þekkingarleitinni, ef og þegar hún skilar einhverju verðmæti. Þessi staðreynd á ekki síst við sýndarveruleika hugverkaiðnaðarins, líftækninnar og upplýsingaiðnaðarins, og þarna verðum við þess vegna að vera tilbúin að veita skjól, ef við viljum ekki að tækifærin feykist burt.

Og enn annað í lagalegum grundvelli skiptir máli fyrir nýsköpun og útflutning. Það er hvort við gefum á Íslandi færi á þeirri tegund alþjóðlegra viðskipta, sem fara fram utan lögsögu og stundaðar eru víða um heim. Nú liggur fyrir frumvarp til laga um slík viðskiptafélög, sem færa mun til landsins þekkingu á þessu sviði og reyndar um leið nýta þekkingu sem þegar er til í sjávarútvegi og sérhæfðri skráningu í landinu. Ef við látum þetta eftir okkur verður í framhaldinu til enn meiri þekking, sér í lagi á sviði fjármála og skattamála, og í sömu andrá færi á útflutningi á þjónustu henni tengdri. Þarna bíða okkar stórkostlegir möguleikar, að minnsta kosti meðan við erum utan Evrópusambandsins.

Í sjötta lagi þurfum við að gera upp við okkur hvað af séríslenskri þekkingu við viljum gera útflutningshæfa. Til dæmis mun Ágúst Þór Jónsson verkfræðingur ræða hér á eftir um hugsanlegan útflutning á íslenskri stjórnsýslu. Við vitum að Ísland hefur í gegnum tíðina ekki haft efni á mörgum óþarfa deildum, stofnunum eða ákvarðanastigum í stjórnsýslu sinni. Neyðin kennir naktri konu að spinna. Við höfum neyðst, góðu heilli, til að stýra okkar kerfum með sæmilega einföldum og hagkvæmum hætti. Að hve miklu leyti eigum við að halda þessari þekkingu fyrir okkur, og að hve miklu leyti getum við gert þetta að útflutningsafurð? Og hvernig getum við gert verðmæti sem hraðast úr þessari þekkingu, sem liggur á víð og dreif? Þessi umræða er spennandi, og rétt að hefjast.

Góðir gestir.

Ísland hefur verið lýðveldi í 55 ár. Það neitar því enginn að okkur hefur tekist sæmilega, lýðveldistilraunin lukkaðist, ef svo má segja. Menn voru þó ekki alltaf vissir í sinni sök og ýmsir spáðu því að svo lítil þjóð fjarri öðrum hlyti að missa sín mál úr eigin höndum. Og stundum hefur munað litlu. Enginn heyrist þó minnast á það í dag. Það felast vissulega ýmsir veikleikar í smæð okkar, en þar eru líka ýmsir stórir kostir, eins og framkvæmdastjóri RANNÍS drap hér á.

Nú vilja margir vinna að því að flytja Ísland út, og það er vel. En við megum ekki gleyma að flytja Ísland heim. Unga fólkið okkar hefur nú fleiri tækifæri til starfa um víða veröld en nokkru sinni fyrr. Það þarf að finna heimþrá sinni heilbrigðan grundvöll. Ísland þarf einfaldlega að vera samkeppnishæft um fólk.

Við höfum ekki miklar áhyggjur af svokölluðum landflótta eins og stundum þegar efnahagsástand var hér sem verst. Það flytja reyndar fleiri Íslendingar hingað heim þessi misserin en hinir eru sem fara utan. Við viljum síst af öllu fá fólk í einhvers konar andlegum nauðungarflutningum heim og ég tel ekki að Ísland sé endilega verr sett þótt góðir og gegnir Íslendingar kjósi að dvelja um lengri eða skemmri tíma erlendis. Ísland nýtur iðulega góðs af velgengni Íslendinga í útlöndum. Fáir eru viljugri en þeir að aðstoða landa sína og land sitt þegar svo ber undir. Og færri eru betri landkynning. Í allri umræðunni um að flytja Ísland út er aðalatriðið einfaldlega það að flytja það dálítið heim í leiðinni, með því tryggja að hér sé gott að búa og ekki lakara en þar sem best er annars staðar.

Hinn nýi efnahagslegi þróttur þjóðarinnar hefur að undanförnu ýtt undir auknar rannsóknir. Aukinn útflutningur hugverka og þekkingar sprettur upp úr stöðugum og kraftmiklum efnahagslegum jarðvegi hér á Íslandi. Fyrirtæki leggja ekki í kostnaðarsamar rannsóknir ef óstjórn er á hagkerfinu og fáu er að treysta. Ef fjármálamarkaðurinn er stífur og lokaður fá góðar hugmyndir ekki fé jafn auðveldlega og nú tíðkast. Ef hið opinbera á ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum og sogar til sín lánsfé, verður þröngt um fjármagn í nýja athafnamennsku.

Hvort sem við lítum á aukið þróunarstarf sem tæki eða markmið, er okkur nauðsynlegt að halda efnahagslegum skilyrðum stöðugum og traustum. Aðeins þá hafa Íslendingar þol og þrek til að leggja í nýsköpunina títtnefndu, sem sjaldnast skilar arði jafn harðan, en getur til lengdar ráðið úrslitum um fengsælt og farsælt mannlíf í landinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum