Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. maí 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ráðstefna Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs

15 maí 1999


Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á ráðstefnu Samtaka um vestræna
samvinnu og Varðbergs í tilefni af fimmtíu ára afmæli Atlantshafsbandalagsins



Í heimsstyrjöldinni síðari skipti orrustan um Atlantshaf sköpum í átökunum á meginlandi Evrópu. Það varð ljóst að kæmi enn til stórveldastríðs í álfunni mundi hildarleikurinn berast út á hafið og ógna öryggi Íslands vegna hernaðarlegs mikilvægis landsins milli Evrópu og Norður-Ameríku. Engin vernd yrði í hlutleysisstefnu.

Þessar staðreyndir höfðu rík áhrif á stefnu Íslands þegar ógnin frá kommúnismanum óx stöðugt á fyrstu árunum eftir stríð. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu var rökrétt skref við þær aðstæður. Þótt þetta væri erfið ákvörðun fyrir vopnlaust ríki og vitað væri að stefnan mundi mæta andófi innanlands og kynda undir ofstæki kommúnista í garð samstarfs við vestræn ríki, biluðu leiðtogar lýðræðisflokkanna ekki. Þeir vissu að tryggja yrði öryggi þjóðarinnar og höfðu ennfremur sannfæringu fyrir því að henni bæri að skipa sér í bandalag lýðræðisríkjanna því með þeim ætti hún sameiginleg örlög og gildi.

Sameiginleg gildi eru undirstöður Atlantshafsbandalagsins, einkum trú á að lýðræðið sé traustust forsenda friðar milli þjóða. Og þrátt fyrir allt er það svo að eftir kalda stríðið stendur lýðræði styrkari fótum í Evrópu en nokkru sinni fyrr. Því er mögulegt að koma á fót nýju öryggiskerfi í álfunni sem hvíli á meginreglum lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins. Markmið ríkja Atlantshafsbandalagsins er að breyta þessari sýn í veruleika.

Til þess að svo megi verða þarf að hafa þor til að standa vörð um forsendur friðarins. Saga þessarar aldar er til vitnis um hvað það kostar þegar vilja brestur að þessu leyti og það var einmitt til að koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig að Atlantshafsbandalagið var stofnað. Þá kvaðst Harry Truman, Bandaríkjaforseti, viss um að hefði viðlíka bandalag verið til 1914 og 1939 hefði mátt stöðva öflin sem hrundu tveimur heimsstyrjöldunum af stað.

Hernaðaraðgerðir Atlantshafsbandalagsins gegn Júgóslavíu lúta ekki einungis að Kósóvó eða Balkanskaga heldur hvort til staðar er vilji til að stöðva þá sem ógna möguleika á haldgóðu öryggiskerfi í Evrópu. Margra mánaða tilraunir til að finna friðsamlega lausn höfðu mistekist og ljóst að stjórnvöldum í Belgrad var ekki treystandi. Ekki var um annað að ræða en grípa til hernaðaríhlutunar og Atlantshafsbandalagið eitt hafði getu og vilja til verksins. Framkvæmd hernaðaraðgerða bandalagsins er vissulega ekki fullkomin og í upphafi voru ekki allar afleiðingar fyrir séðar, en menn áttu þess ekki kost að annað hvort taka áhættulausar ákvarðanir eða hafast ekki að.

Hefði bandalagið setið aðgerðalaust hjá hefði það legið undir sívaxandi ámæli og fyrr en síðar orðið að hefja íhlutun í átökin vegna voðaverka Serba, flóttamannavanda og hættu á útbreiðslu átakanna til nágrannalanda, en í verri stöðu en nú og vel líklega of seint til að koma í veg fyrir enn meiri ófrið á Balkanskaga með skelfilegum afleiðingum. Með aðgerðaleysi hefðu bandalagsríkin hætt öllu því sem bandalagið stendur fyrir og stefnir að.

Loftárásirnar hafa þegar sýnt að einræðis- og kúgunaröfl geta ekki treyst á að fá frítt spil og tjón Serba eykst dag frá degi. Atlantshafsbandalagið verður að sýna áfram staðfestu í málinu og ná settum markmiðum um frið í Kósóvó undir vernd alþjóðlegs herliðs. Í bandalaginu er full eining um þessa stefnu eins og kom skýrt fram á leiðtogafundi þess í Washington í síðasta mánuði.

Þegar Kósóvó-stríðinu lýkur bíður Atlantshafsbandalagsins og annarra samtaka mikið verk við að hefja endurreisnarstarf og stuðla að stöðugleika. Íslendingar, sem þegar hafa lagt sitt af mörkum bæði vegna Bosníu og Kósóvó, verða þá eins og aðrar bandalagsþjóðir að vera reiðubúnir til að liðsinna við það erfiða og dýra starf að tryggja varanlegan frið á Balkanskaga.

Þátttaka Íslands í Atlantshafsbandalaginu hefur eflst og þróast á undanförnum árum í samræmi við breyttar aðstæður eftir kalda stríðið og síauknar kröfur til bandalagsins. Ísland hefur tekið þátt í nýjum verkefnum á vettvangi þess frá virkri þátttöku í samstarfi við ríki utan bandalagsins í Félagskap um frið til friðargæslu og neyðarhjálpar í Bosníu og Kósóvó.

Ísland hefur frá upphafi eindregið stutt stækkun bandalagsins, sem er þýðingarmikill hluti af aðlögun þess að breyttum aðstæðum og er hafin með aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands. Sá kostur að daufheyrast við óskum nýfrjálsu ríkjanna um aðild að bandalaginu hefði verið á skjön við markmið og hugsjónir bandalagsins og grafið undan stöðugleika í álfunni. Um leið verður auðvitað að gæta þess að ný ríki séu tekin í bandalagið þannig að stækkun veiki það ekki með neinum hætti.

Stækkun Atlantshafsbandalagsins felur í sér sögulegt tækifæri fyrir bandalagið til að eiga stóran þátt í að festa í sessi breytingarnar miklu sem fylgdu í kjölfar falls kommúnismans og skapa nýja Evrópu á næstu öld. Í kalda stríðinu var þjóðum Mið- og Austur-Evrópu haldið föngnum í lokuðu heimsveldi sem skar á forn tengsl þeirra vestur á bóginn. Því er í húfi réttur þeirra til að snúa aftur á sinn rétta stað á kortinu, ef svo má að orði komast.
Þá er það svo að möguleiki á aðild hefur þegar haft jákvæð áhrif í umsóknarríkjunum með því að hraða umbótum í þeim, treysta lýðræði og með því að hvetja til þess að þau setji niður deilur við nágrannaríki. Kveðið er á um slík atriði í skilyrðum sem sett hafa verið fyrir þátttöku í bandalaginu.

Stuðningur Íslands við málstað Eystrasaltsríkjanna er kunnur og hagsmuna þeirra í stækkunarferlinum verður áfram gætt af okkar hálfu. Þá leggjum við ríka áherslu á það, einmitt vegna Eystrasaltsríkjanna, að ætíð sé skýrt í stefnu bandalagsins að engir utan þess hafi neitunarvald yfir stækkuninni. Yfirlýsingar rússneskra stjórnvalda um að þau muni ekki fallast á að Eystrasaltsríkin fái aðild að Atlantshafsbandalaginu eru óásættanlegar. Í yfirlýsingu leiðtogafundarins í Washington kemur fram að engin ríki verði útilokuð frá aðild óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Ljóst er að þetta orðalag á sérstaklega við Eystrasaltsríkin og sama á við þar sem segir að sérhvert ríki hafi rétt til að ákvarða sjálft með hvaða hætti það tryggir öryggi sitt.

Enn einn þáttur í breyttum aðstæðum lýtur að samrunaþróuninni í Evrópusambandinu þar sem í auknum mæli er kallað eftir því að hún nái til öryggis- og varnarmála. Það eru jafnvel uppi raddir um að setja Vestur-Evrópusambandið, öryggismálasamtök Evrópusambandsríkja, undir ESB. Ástæða er til að gefa þessum málum náinn gaum.

Ísland hefur lagað stefnu sína að þróun aukinnar samvinnu milli ríkja Vestur-Evrópusambandsins með aukaaðild að því. Við viðurkennum að ESB stefnir að nánari samvinnu á sviði öryggismála en gerum þá kröfu að gætt verði réttinda þeirra ríkja sem eru aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Þau eru nú auk Íslands, Noregur, Tyrkland, Pólland, Tékkland og Ungverjaland, það er þau Evrópuríki í Atlantshafsbandalaginu sem standa utan ESB.

Ástæða þess að slíkum ríkjum var á sínum tíma boðin aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu, einkum fyrir tilstilli Bandaríkjamanna, var að tryggja að samvinna Evrópuríkja Atlantshafsbandalagsins næði til þeirra allra, ekki eingöngu þeirra sem væru í ESB. Af hverju? Jú, til þess ekki síst að tryggja að þróunin yrði ekki á þann veg að hópur ríkja myndaðist innan bandalagsins sem mótaði afstöðu innan ESB og kæmi með hana til leiks í Atlantshafsbandalaginu. Meginatriðið í þessu máli öllu er að Atlantshafsbandalagið verði áfram í reynd vettvangur fyrir samráð og ákvarðanir í málum sem snerta öryggishagsmuni allra bandalagsríkjanna.

Með stofnun Atlantshafsbandalagsins tóku höndum saman ríki sem höfðu sameiginlega sannfæringu og gildi og vilja til að verja þau. Þeir sem stóðu að verki fyrir fimmtíu árum voru þess fullvissir að nú yrðu lýðræðisríkin að fylkja liði gegn einræði og kúgun ef koma ætti í veg fyrir að styrjöld riði enn yfir Evrópu og reyndar veröld alla.

Í kalda stríðinu tókst að hefta einræði kommúnismans og sigra að lokum. En það reyndist auðvitað hvorki ódýrt né hættulaust og kallaði um áratuga skeið á hugrekki og erfiðar ákvarðanir. Undir lok aldarinnar gegnir bandalagið enn lykilhlutverki og nú við að taka þátt í að byggja nýja Evrópu á meginreglum lýðræðis og tryggja þannig öryggi í álfunni allri.

Mikilvægi bandalagsins í þeim efnum ræðst af því að máttur þess og vilji er einstakur, og af því að þótt verkið sé flókið og taki á, býr bandalagið áfram að fyrstu gerð.

Í því mikla verki sem Atlantshafsbandalagið á fyrir höndum fyrir öryggi og framtíð Evrópu skiptir stöðugleiki og festa í öryggisstefnu aðildarríkjanna sköpum. Engu þeirra kemur til hugar að hafa þá stefnu að aðildin að bandalaginu ráðist frá einu kjörtímabili til annars eins og virðist hvarfla að sumum hér á landi. Við núverandi aðstæður væru skilaboð frá Íslandi um að Atlantshafsbandalagið væri einhver bráðabirgðasamtök bæði röng og hættuleg. Öll umræðan snýst um vaxandi mikilvægi Atlantshafsbandalagsins og flest Evrópuríki utan þess sækjast ákaft eftir inngöngu í bandalagið.

Þrátt fyrir að oft hafi þátttaka Íslands í varnarsamvinnu vestrænna þjóða valdið deilum hér á landi, þó einkum að undirlagi háværs minnihluta, hefur ætíð verið rík samstaða um stefnuna þegar á reyndi. Þar eiga Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg drjúgan hlut að máli.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum