Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. apríl 2000 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Opnun Þjóðmenningarhússins

Ávarp forsætisráðherra við opnun Þjóðmenningarhússins á skírdag
20. apríl 2000

Mennirnir hafa sál, um það er ekki deilt, þótt enginn viti um lögun hennar eða lit, né heldur hvar hún sé nákvæmlega staðsett í skrokknum, þótt heilinn liggi undir grun. En ég var kominn yfir tvítugt þegar ég heyrði frá mönnum sem mark var á takandi að hús hefðu sál. Ég var þá sem stúdent fastagestur í þessu húsi og þóttist vera að lesa lögfræði. Innanhúsmaður hér, fræðimaður sem gekk um á töflum, hafði verið að sýna gestkomandi salarkynni og er þeir kvöddust hér í anddyrinu heyrði ég að annar sagði við hinn að þetta hús hefði ekki bara sál, heldur mikla sál. Þetta voru mér töluverð undur en síðan hef ég ekki dregið slíkar kenningar í efa. En spyrja má sjálfan sig hvort hús sem hafa sál svo ekki sé talað um mikla sál, geti ekki líka haft samvisku, en samviskan er elsta systir sálarinnar. Ég hallast að því. Ef svo er, þá má þetta hús hafa góða samvisku því hér fóstraði það stofnanir sem hafa síðar vaxið hátt úr grasinu.

Þjóðarbókhlaðan á melunum hýsir einn þáttinn og hann ekki lítinn í glæsilegum húsakynnum. Nú er verið að setja mikla fjármuni úr ríkissjóði til að sjá Þjóðminjasafninu borgið af metnaði og myndarskap. Þjóðskjalasafnið hefur fengið ófáa fermetrana fyrir sig og þar er jafnt og þétt unnið að endurbótum. Náttúrugripasafn hlýtur að vera næst í röðinni, því það býr enn við of þröngan kost. Og nú þegar móðurhúsið hefur svo myndarlega komið ungviðinu frá sér er því fengið nýtt hlutverk og það ekki lítið og bíður þess prúðbúið og vel til haft að takast á við það.

Allt hefur verið gert svo að form og fegurð þessa mannvirkis fái notið sín. Það sem áður var lokaður heimur fárra lykst nú upp landsmönnum öllum til ánægju. Ég spái því að þeir sem hingað koma næstu vikur og mánuði verði töluvert hissa - þægilega hissa á þessu húsi og því sem það hýsir.

Íslendingar hafa blessunarlega verið að mestu lausir við það óhóf í mannadýrkun sem tíðast með sumum þjóðum. En stolt erum við engu að síður yfir árangri og atgervi margra þeirra sem góð áhrif höfðu á sögu þjóðarinnar, þokuðu málum hennar til góðs eða héldu nafni hennar á lofti. Hús þetta var í öndverðu ekki síst tengt minningu Snorra Sturlusonar og nú verða tvær stofur hússins helgaðar þeim Jóni Sigurðssyni og Hannesi Hafstein. Sigurður Nordal bendir á hvernig öld af öld hafi borið "skugga Íslands óhamingju á æfi þeirra, sem máttu þykja kjörnastir forvígismenn, en með Jóni Sigurðssyni eignuðust Íslendingar mann sem lánaðist - varð bæði gæfumaður sjálfur og gæfa þjóð sinni" eins og Sigurður orðaði það. Á það hefur verið bent að Hannes Hafstein hafi orðið næsti þjóðforingi Íslendinga eftir Jón Sigurðsson sem mikils gengis varð auðið. Það fer vel á því að þessum velgjörðarmönnum Íslendinga sé sómi sýndur á þessum stað. En fyrst og síðast verður þetta hús helgað þjóðinni allri, menningu landsins og sögu þess. Eins og áðan var vikið að þá þykja sum hús hafa sál og heilu þjóðirnar eru stundum taldar búa við eina sameiginlega sál. Hin íslenska þjóðarsál má gjarnan eiga lögheimili sitt í þessu húsi um langa framtíð og verður ekki séð að henni verði vísað á annan og betri sess. Í upphafi þessarar aldar varð þetta hús táknmynd þess, hvernig hin fátæka þjóð myndi láta drauma sína rætast þegar hún fengi loks sjálf ráðið sínum málum. Nú við aldarlok verður hlutverk þess að minna okkur á fortíðina, auka okkur gleði líðandi stundar og fylgja næstu kynslóðum Íslendinga inn í framtíðina. Með þessum orðum lýsi ég yfir því að hið gamla og góða Safnahús, nú Þjóðmenningarhús, er opnað.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum