Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. júlí 2000 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Kristnihátíð á Þingvöllum árið 2000

Kristnihátíð á Þingvöllum
2. júlí 2000



Góðir Íslendingar,
Þingvellir við Öxará eru staður hinna stóru stunda í sögu Íslands. Hér voru úrslitin ráðin til góðs og ills. Stofnun lýðveldis var staðfest hér og hinn kristni siður lögtekinn. Tvö merk gæfuspor á göngu þessarar þjóðar.

Það horfði ískyggilega í upphafi þings árið þúsund. Miklar líkur stóðu til þess að borgarastyrjöld brytist út, enda höfðu heiðnir menn og kristnir slitið því sambandi sem komst á við stofnun Alþingis 70 árum fyrr. Heiðnir menn voru fleiri á þingstaðnum, en kristnir menn höfðu sinn bakhjarl og ógnvald í konungi Noregs. Kristinn siður var í sókn í Evrópu, en sú sókn hafði sums staðar kostað mikil átök og mikið blóð.

Þegar svo var komið á Íslandi höfðu kristnir menn kosið sér til forystu Hall af Síðu, sáttfúsan mann og góðgjarnan, en sá vitri maður Þorgeir Ljósvetningagoði fór fyrir heiðnum mönnum. Vafalítið hafa þeir tveir ráðið því að Þorgeiri var falið að leysa úr málinu. Þeim var sjálfsagt báðum ljóst að heiðnir menn yrðu að gefa meira eftir og því hyggilegt að láta þann er mest trausts naut í þeim herbúðum segja upp niðurstöðuna.

Þorgeir lagðist undir feld að hugsa ráð sitt. Ekki er vitað nú hve langt samningar þeirra Síðu-Halls voru gengnir og hvort Þorgeir var í senn að móta sáttargjörðina og semja ræðuna þar sem hvert orð gat ráðið úrslitum um hvort hún fengi stuðning eða ekki. Um það verður ekkert óyggjandi sagt, en hitt liggur fyrir að Þorgeir reyndist vandanum vaxinn og flutti á þinginu einhverja kjarnyrtustu og frægustu ræðu Íslandssögunnar og örugglega þá áhrifamestu. Ræða Þorgeirs lifir með þjóðinni og þarf ekki að endurtaka hana hér.

Sú málamiðlun, sem Þorgeir Ljósvetningagoði sagði upp hér á þessum helga stað, var viturleg - svo viturleg - að í þúsund ár hefur ekki verið hægt að benda á annan betri kost á þeirri ögurstundu. Íslendingar tóku hinn kristna sið, þótt þeir héldu fast í ýmsar fornar venjur.

Ákvörðun þingsins á völlunum þennan júnídag var giftumikil fyrir Íslendinga. Þá fengu þeir hlutdeild í háleitasta og göfugasta boðskap sem fram hefur komið, boðskap fjallræðunnar og hófu að tileinka sér þann skilning að allir menn hafi sál og geti orðið hólpnir. Að allir menn séu jafnir, í dýpsta siðferðilega skilningi þess orðs, því þeir séu skapaðir í mynd Guðs og séu jafnir fyrir honum. Það er engin tilviljun að mestu framfarirnar s.l. þúsund ár hafa orðið með kristnum vestrænum þjóðum. Þar haldast einstaklingshyggja og samkennd í hendur. Þar getur enginn veraldlegur valdamaður komið í stað Guðs eða talað í nafni hans. Í skilningi orðsins eru allir menn bræður, en þeir þurfa ekki að lúta valdi Stóra bróður.

Þorgeir Ljósvetningagoði sagði í ræðu sinni að konungar grannríkja okkar vildu ólmir berjast hver við annan en þegnarnir vildu frið. Hér gætir sömu hugsunar og hjá Einari Þveræingi að konungar hafi stundum aðra hagsmuni en alþýða manna. Á þeirri hugsun, að varast beri víðtækt vald á eins hendi eða fárra, var íslenska þjóðveldið einmitt reist.

Það heyrist stundum sagt að vísindin hafi kippt stoðunum undan kristinni trú. Því fer fjarri. Vísindin hafa veitt okkur svör við margvíslegum spurningum og leyst marga gátuna. Lífsgátan sjálf er þó langt handan þess sem vísindin geta höndlað svo stórkostleg og góð sem þau eru. Kastljós vísindanna beinist að veruleikanum og lýsir hann upp, en í þeim mikla og mikilvæga geisla sést ekkert um tilgang lífsins og í þann geisla getum við heldur ekki sótt athvarf, skjól eða huggun. Vísindin geta orðið þeim, sem sjá þau ein, sem hin "vonar snauða viska, sem veldur köldu svari". Kristnir menn sjá hins vegar tilgang með lífinu. Þeir sjá ekki fyrir sér ímynd hins siðferðilega tóms eða hrúgald ólíkra hugmynda, heldur lögmálsbundinn veruleika, þótt þau lögmál séu á stundum óáþreifanleg og jafnvel ósýnileg.

Kristnir menn vita að þeir eru dauðlegir og breyskir, en þeir eiga það, sem mest er um vert, trúna, vonina og kærleikann og af þessu þrennu er kærleikurinn mestur.

Svo ótalmargt hefur drifið á daga okkar Íslendinga síðan hinir miklu atburðir urðu hér fyrir 1000 árum en býsna vel hefur verið fyrir séð og úr ræst. Við hugsum til framtíðar á þessari helgu stund og biðjum um það veganesti sem Hannes Hafstein kallar eftir í kvæðinu Landsýn.
"Drottinn, lát strauma af lífssólar ljósi
læsast í farveg um hjartnanna þel.
Varna þú byljum frá ólánsins ósi.
Unn oss að vitkast og þroskast.
Gef heill, sem er sterkari en Hel."

Góðir Íslendingar, nær og fjær, gleðilega kristnihátíð.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum