Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. október 2000 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ársfundur Samtaka atvinnulífsins

Erindi forsætisráðherra á ársfundi Samtaka atvinnulífsins
11. október 2000


Þegar litið er til langs tíma ráðast lífskjör þjóðar fyrst og fremst af framleiðni – afköstum hagkerfisins. Samanburður á lífskjörum þjóða sýnir þetta glöggt. Þar sem framleiðnin hefur aukist mest hafa lífskjörin batnað hraðast og þar sem hún hefur ekki aukist hafa þau staðið í stað. Þetta eru einfaldar staðreyndir.

Það er því við hæfi að Samtök atvinnulífsins taki fyrir nýja hagkerfið, eins og það hefur verið kallað, á þessum fyrsta ársfundi sínum. En nýja hagkerfið snýst einmitt um framleiðni, þ. e. hagnýtingu upplýsingatækninnar til að auka afköst atvinnu- og efnahagslífs. Enginn vafi er á því að nýja hagkerfið hefur þegar lagt mikið af mörkum til aukinnar framleiðni í mörgum löndum. Þannig er til að mynda talið að um þriðjung hagvaxtarins í Bandaríkjunum frá miðjum tíunda áratugnum megi rekja til þessa magnaða fyrirbæris.

Ekki fer á milli mála að nýja hagkerfið hefur átt drjúgan þátt í einstaklega hagfelldri þróun efnahagsmála hér á landi undanfarin ár. Í því sambandi nægir í raun að nefna mikla uppbyggingu og framfarir í líftækniiðnaði og hugbúnaðargerð. Fjölgun starfa í þessum greinum síðustu fimm ár er talin vera um 1400, þar af nálægt 400 í líftækniiðnaði og um 1000 í hugbúnaðargerð. Við bætast svo auðvitað áhrifin sem verða til þegar "gömlu greinarnar" færa sér í nyt tækniframfarirnar sem tengjast upplýsingabyltingunni. Því nýja hagkerfið er ekki einungis hátæknifyrirtæki. Nýja hagkerfið er miklu fremur sú þróun að hefðbundnar atvinnugreinar nýti sér í ríkara mæli en áður upplýsingatækni, fjarskipti og menntun starfsmanna. Gott dæmi um þetta er fjármálastarfsemi. Fyrir nokkrum árum byggðu íslenskar fjármálastofnanir starfsemi sína á að veita viðtöku sparifé landsmanna og útdeila því síðan til lántakenda. Í dag er fjármálastarfsemi mun umfangsmeiri og flóknari og byggir hún nú mjög á upplýsingatækni og hugviti starfsmanna.

Annað dæmi er tæknifyrirtæki í kringum sjávarútveginn. Fyrir fáum árum var þetta lítil iðngrein sem byggði afkomu sína á viðskiptum við innlend sjávarútvegsfyrirtæki. Í dag er um umtalsverðan iðnað að ræða sem byggir afkomu sýna fyrst og fremst á útflutningi og hefur haslað sér völl víða um heim.

Möguleikar Íslendinga til að taka þátt í nýja hagkerfinu eru miklir. Menntun er hér góð, tækniskilningur mikill og útbreiðsla netsins og farsímanotkun ein sú mesta í heiminum, allt þættir sem stuðla að skjótri upptöku nýrra viðskiptahátta. Sennilega hafa fjármála- og fjarskiptafyrirtækin á Íslandi nýtt hvað best upplýsingabyltinguna af hefðbundnum greinum gamla hagkerfisins.

Ljóst er að þjóðhagslegur ábati af nýja hagkerfinu er meiri en sem nemur einkaábatanum. Við höfum þegar gert ráð fyrir þessu að einhverju leyti í hagskipulagi okkar með því t.d. að hvetja einstaklinga til náms með því að veita þeim ókeypis skólagöngu og námslán og með opinberum rannsóknasjóðum. Að menntun slepptri er skynsamlegast fyrir hið opinbera að einbeita sér að því að búa fyrirtækjum réttlátar og góðar leikreglur og láta markaðinn um að þróa fyrirtækin í átt að nýja hagkerfinu, auk þess sem hefðbundin hagstjórnarmarkmið sem stuðla að stöðugleika verða áfram á oddinum. Markaðurinn veit sínu viti og alltof mörg dæmi eru um að hið opinbera hafi einungis tafið framþróun með því að halda sig vita betur.

En þótt markaðurinn viti sínu viti er hann ekki alvitur og margar skaðlegar skammtíma raunir má rekja til hans. Og til eru dæmin og æði mörg, um að menn hafi beitt markaðinn brögðum og haft illa fenginn gróða upp úr krafsinu. Sannir vinir þróaðs markaðar eiga að sameinast um að taka hart á slíku. Með sama hætti og rónarnir komu óorði á brennivínið eru þeir mammons menn til sem koma óorði á markaðinn. Ekkert er líflegum markaði þýðingarmeira en traustið sem til hans er borið.

Til marks um hagfellda þróun efnahagslífsins undanfarin ár er að hagvöxtur hefur verið að meðaltali nær 5% á ári á árunum 1996-2000. Til samanburðar var hagvöxtur í Bandaríkjunum á sama tímabili rúmlega 4%. Að baki liggur að jafnaði um 2-3% aukning framleiðni í báðum þessum ríkjum. Fólksfjölgun og þátttaka í vinnumarkaðinum hefur hins vegar verið mismunandi. Það gerir í raun árangurinn enn meiri hér á landi að litið er svo á, eins og kunnugt er, að í Bandaríkjunum hafi verið einstakt blómaskeið á umræddu tímabili. Því til stuðnings má meðal annars nefna að í Evrópusambandinu var hagvöxtur á sama tíma um 2S% á ári og í Japan rúmlega 1%.

Aðrir mælikvarðar segja sömu sögu. Þannig hefur störfum fjölgað um 15.000 frá 1995 og atvinnuleysi hefur minnkað úr 5% af vinnuaflinu niður í 1,5% það sem af er þessu ári. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur á þessum árum aukist um 23%, enda hefur einkaneysla aukist um 110 milljarða eða sem samsvarar 1,5 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Verðstöðugleiki hefur ríkt þótt verðbólga hafi verið nokkru meiri en æskilegt er á síðustu misserum. Þá hefur hallarekstri hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) verið snúið í afgang. Þannig var um 13 milljarða króna halli á árinu 1995 en á þessu ári stefnir í um 19 milljarða króna afgang. Viðsnúningurinn er mun meiri þegar litið er eingöngu til ríkissjóðs. Þar hefur náðst meiri árangur en dæmi eru um í sögu lýðveldisins.

Þetta er meiri árangur en bjartsýnustu menn þorðu að vona fyrir fimm árum og þóttu þá úr hófi bjartsýnir. Eins og gefur að skilja liggja margar ástæður hér að baki en lykilhugtökin eru þó án efa markaðsumbætur, samkeppni, opnun hagkerfisins og stöðugleiki. Við bætist hreyfiafl nýja hagkerfisins; áhrif þess hafa lagst á sömu sveif. Þessir þættir hafa leitt af sér mikla framleiðniaukningu og fyrir vikið glætt vöxt á mörgum sviðum efnahagslífsins.

Undanfarin misseri hafa hins vegar birst hættumerki sem benda eindregið til að hægja þurfi um sinn á vexti efnahagslífsins. Þessi hættumerki eru skýrust á sviði verðlags og viðskiptahalla. Tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs fór hækkandi frá því síðla árs 1998 og náði hámarki í apríl síðastliðnum í 6%. Frá þeim tíma fór hún lækkandi þar til nú að verðbólgan tók nokkurn kipp en árshækkunin er þó komin niður í rúmlega 4%. Þá stefnir viðskiptahallinn í 54 milljarða króna á þessu ári eða sem svarar til 8% af landsframleiðslu. Þótt ýmsar skýringar megi færa fram á þessari þróun, s. s. stórfelldar bensínverðshækkanir og miklar fjárfestingar, er nauðsynlegt að taka þessi merki alvarlega og bregðast við þeim. Að auki hefur verið mikil spenna á vinnumarkaði.

Af þessum sökum hefur ríkisstjórnin fylgt aðhaldssamri efnahagsstefnu að undanförnu. Hinum öra hagvexti síðustu ára var skilað hratt út til alls almennings og hefur það leitt til mikils álags á efnahagskerfið og fyrir vikið þarf um sinn að hægja á vexti eftirspurnar. Íslenska hagkerfið hefur að undanföru farið hratt yfir, líkast viljugum góðhesti á þöndu skeiði. "Nú ægjum við fyrst ögn" sagði Hannes Hafstein við gæðagamminn Létti, sem átti brekkuna eftir. Vegir íslensks efnahagslífs munu líka liggja um brekkur á langri leið inn í framtíðina og þá hollt að æja ögn svo menn sprengi það ekki þegar þyngist fyrir fæti. Ríkisstjórnin fer eftir þessari forskrift. Á forsendum efnahagsstefnunnar sem kynnt hefur verið í fjárlagafrumvarpi og þjóðhagsáætlun spáir Þjóðhagsstofnun nú 1,6% vexti þjóðarútgjalda á næsta ári og ætti það að nægja til að draga verulega úr þenslunni og búa í haginn fyrir aukinn hagvöxt næstu árin þar á eftir.

Nýlegar vísbendingar sýna að þenslan í þjóðarbúskapnum er í rénun, þótt ekki sé enn tímabært að slaka á aðhaldinu. Til marks um slíkar vísbendingar má nefna ýmsar upplýsingar um veltubreytingar, meðal annars má sjá þetta af þróun greiðslukortaviðskipta, veltuskatta og innflutnings. Jafnframt hefur dregið úr hækkun húsnæðisverðs og verð hlutabréfa hefur verið stöðugt að undanförnu. Þetta bendir til að betra jafnvægi sé að myndast á eignamörkuðum. Þótt þannig megi sjá merki um minnkandi þenslu á ýmsum sviðum er nauðsynlegt að hafa í huga að á öðrum sviðum virðist spennan ekki hafa minnkað. Þetta gildir ekki síst um vinnumarkaðinn. Þar fjölgar enn lausum störfum, atvinnuleysi fer minnkandi og tekjuþróun samkvæmt staðgreiðslugögnum er í sama takti og áður. Þá er vöxtur peningastærða enn mjög mikill, einkum virðast útlán til fyrirtækja aukast ört.

Þótt útlit sé fyrir að hagvöxtur verði hægari á komandi ári en hann hefur verið undanfarin ár, er það ekki áhyggjuefni í ljósi mikils vaxtar undanfarin ár. Þetta er einfaldlega nauðsynlegt til að tryggja viðunandi jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Á hinn bóginn þarf að huga að því að dregið hefur úr vexti framleiðni. Að hluta á það sér eðlilegar skýringar. Ytri skilyrði þjóðarbúsins hafa versnað nokkuð að undanförnu, meðal annars vegna olíuverðsþróunar og minni sjávarafla, og fyrir vikið er framleiðniþróunin ekki eins öflug og áður auk þess sem langtíma kjarasamningar hlutu að kosta sitt. En fleira kemur til. Þenslu fylgir að jafnaði hægari framleiðnivöxtur. Gott jafnvægi þarf því að vera í efnahagslífinu þegar til lengri tíma er litið.

Af þessum ástæðum er brýnt að íhuga gaumgæfilega hvernig má auka framleiðni í atvinnulífinu; auka afkastagetu efnahagslífsins þegar litið er til næstu ára.

Ég vil taka undir með þeim sem lagt hafa áherslu á nauðsyn þess að auka framleiðni atvinnulífsins. Það er grundvallaratriði að aukinni vinnaflsþörf verði mætt með aukinni framleiðni, þ. e. færri hendur vinni þau störf sem unnin eru í dag og þannig verði svigrúm myndað fyrir ný og arðbær störf. Þetta er undirstaða þess að lífskjör geti áfram farið batnandi í takt við það sem þau hafa gert undanfarin ár.

Ég tel jafnframt að góð og gild rök megi færa fyrir því að slíkur árangur geti náðst ef vel er á málum haldið. Tækifærin eru til staðar. Í því sambandi læt ég nægja að nefna hér fimm atriði. Í fyrsta lagi er hagnýting upplýsingatækninnar enn skammt á veg komin. Nýja hagkerfið gefur margvíslega möguleika til sóknar, bæði fyrir hefðbundnar atvinnugreinar og nýjar. Í öðru lagi eiga ýmsar skipulagsbreytingar, meðal annars á sviði fjármála og fjarskipta, eftir að skila sér í aukinni framleiðni. Í þriðja lagi eru góðar horfur á því að fjárfest verði frekar í stóriðju á næstu árum, þótt endanlegar ákvarðanir liggi ekki nú fyrir í þeim efnum. Það er líklega hvergi í Evrópu jafn hagstætt að byggja nýtt álver og á Austurlandi. Í fjórða lagi er talið að mikilvægir fiskstofnar séu í góðum vexti og hlýtt sé í hafi og mun það skila sér á næstu árum. Síðast en ekki síst blasir það verkefni við starfandi fyrirtækjum almennt að gera betur og nýta sér hagfelldar aðstæður til að bæta árangur sinn. Þá er ekki vafi að stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru miklu betur undirbúnir til starfa sinna en var fyrir fáeinum áratugum og er þó ekki gert lítið úr brautryðjendunum, en í þeim hópi voru djarfir snillingar sem við minnumst með þakklæti.

Þessi atriði - og önnur sem ekki vinnst tími til að telja upp hér - geta lagt grunninn að 2-3% árlegri framleiðniaukningu á næstu tíu árum. Þetta er sami vöxtur og á síðustu árum og hann gæti tryggt jafnaðarhagvöxt á bilinu 3-4% á ári. Slíkur vöxtur tryggði okkur sæti áfram í samfélagi efnuðustu þjóða. Spáð er að hagvöxtur verði til jafnaðar á bilinu 2S-3% á ári aðildarríkjum OECD þegar til lengri tíma er litið. Það ætti að vera markmið okkar að ná að minnsta kosti þessum vexti og ágæt skilyrði virðast vera til þess. Vala vann bronsið með glæsilegu stökki - við skulum reyna að ná silfrinu eða jafnvel gullinu á heimslistanum yfir efnuðustu þjóðir heims. Það er enginn óravegur úr fimmta sætinu í það fyrsta.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum