Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. október 2001 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ræða forsætisráðherra á 53. þingi Norðurlandaráðs 2001

Kaupmannahöfn
29. október 2001

Ræða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra
í almennum umræðum
á 53. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn
29. október 2001

Ég vil byrja á að þakka Kjell Magne Bondevik fyrir góða stefnuræðu og framsýna formennskuáætlun fyrir ríkisstjórnasamstarfið næsta ár undir yfirskriftinni "Morgendagens Norden", Norðurlönd framtíðarinnar. Hún samræmist vel þeirri þróun sem hefur átt sér stað í samstarfinu undanfarin ár í átt að sveigjanlegra samstarfi þar sem fjallað er um það sem efst er á dagskrá hverju sinni.

Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september stendur alþjóðasamfélagið anspænis nýjum áskorunum. Stríðið gegn hryðjuverkaöflum er til að refsa þeim sem bera ábyrgð á hryllilegum glæp en einnig til að koma í veg fyrir fleiri ódæðisverk. Í baráttunni verður að beita ýmsum aðferðum auk hernaðaraðgerða gegn óvini sem hefur hreiðrað um sig víða um heim með starfsemi sína og stuðningsmenn. Þá er ljóst að alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi þrífst ekki nema til séu ríki sem leyfi að hryðjuverkasamtök starfi innan sinna landamæra.

Til að ná því markmiði að veröldin búi ekki við ógn frá öflum af því tagi sem bera ábyrgð á árásunum á Bandaríkin þarf alþjóðlega samstöðu. Norðurlöndin hafa lýst stuðningi við þá baráttu enda er verið að verja þau grundvallargildi sem norrænu þjóðirnar hafa í heiðri.

Á Balkanskaga hafa Norðurlöndin lagt fram fjármuni og mannafla til friðargæslu og uppbyggingarstarfs til að taka þátt í að tryggja frið og lýðræði eftir mannskæðustu átök í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þegar kemur að því hvernig tryggja beri frið og stöðugleika í Evrópu til frambúðar ræður mestu framgangur tveggja ferla. Þeir eru stækkun Evrópusambandsins og stækkun Atlantshafsbandalagsins.

Ég tel og eðlilegt að Norðurlönd taki upp samstarf og samráð um þær aðgerðir sem grípa þarf til innanlands til að auka innra öryggi á ýmsum sviðum vegna ástandsins í heiminum.

Áherslur samstarfsins eru nú til endurskoðunar á grundvelli ágætrar skýrslu Vitringahópsins, en viðbrögð við henni eru til umræðu hér á þinginu. Ég lýsi ánægju með starf samstarfsráðherranna en þeir leggja til að fimm tiltekin breið svið njóti sérstaks forgangs næstu ár.

Meðal þeirra fimm sviða sem ætlunin er að njóti forgangs er samstarf við grannlönd og grannsvæði Norðurlanda, ekki bara Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland, heldur í raun svæðið allt í kringum Norðurlönd. Áherslan verður eftir sem áður á samstarf við Eystrasaltsríkin. Samfara nánari tengslum þessara landa við ESB mun norrænt samstarf við þau að sjálfsögðu breytast. M.a. eru uppi hugmyndir um að þau muni í framtíðinni taka þátt í norrænu samstarfi við önnur austlæg grannríki og -svæði sem skemur eru komin í lýðræðis- og efnahagsþróuninni.

Áformað er og að styrkja norrænt samstarf um málefni Norðurskautssvæðanna og tengja það störfum Norðurskautsráðsins. Markmið þess starfs er að bæta umhverfi og lífsskilyrði þeirra sem byggja norðlæg strjálbýl svæði, bæði vestan hafs og austan.

Ráðagerðir um samstarfsverkefni með þátttöku frá strandhéruðum vestlægra grannlanda eru meðal tillagna um viðbrögð við Vitringaskýrslunni. Norrænt samstarf við vestlæg grannlönd um verndun sjávarumhverfis Norður-Atlantshafsins, þar sem okkar helstu fiskimið eru, er mikilvægt fyrir Vestur-Norðurlönd.

Velferðarmál í breiðum skilningi eru enn eitt áherslusvið. Það fellur vel að áætlun Noregs um að málefni barna og ungmenna í þjóðfélagi morgundagsins verði efst á dagskrá samstarfsins næsta ár. Eins er mikilvægt að vinna áfram undir sömu formerkjum að réttindamálum þeirra, sem flytja milli Norðurlanda, en nú munu ekki færri en 250 þúsund Norðurlandabúar búa í öðru norrænu landi en heimalandi sínu.

Í heildina tekið er norrænt samstarf frjósamt og gagnlegt. Þau fjölmörgu mál sem fyrir þinginu liggja, sýna breidd þess og pólitískan vilja til að takast á við málefni líðandi stundar. Ég vil þakka Finnlandi fyrir góða forystu meðal ráðherra landanna þetta ár.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum