Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. ágúst 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Háskóli Reykjavíkur

29. ágúst 2002

Ávarp forsætisráðherra við setningu
Háskóla Reykjavíkur 29. ágúst 2002


Lögfræðin er í eðli sínu lifandi fræðigrein, því hún getur aldrei gert kröfu til þjóðfélagsins um að það falli inn í lokaðan ramma lögfræðilegra kennisetninga. Ný álitamál koma upp á hverjum degi og reyndar mörg á dag, sem fást þarf við. En lögfræðin getur kennt mönnum glímutökin, hvernig menn eiga að bera sig að við að leita hinnar réttu niðurstöðu. Og best þykir mönnum takast í fræðigreininni, þegar leikreglurnar eru svo runnar þeim í merg og bein, að þeir
muna ekki lengur eftir því að hafa lært þær.

Ég er þeirrar pólitísku skoðunar að farsælast sé að eignarhald á sem flestu í tilverunni liggi ljóst fyrir. Og dauðir hlutir og líkamalaus fyrirbæri eigi sig ekki sjálfir nema í algjörum undantekningartilvikum. En um lögfræðina gildir á hinn bóginn að hana á enginn einn. Hún er í svo nefndri dreifðri eignaraðild. Meira að segja hæstiréttur landsins á ekki meira í henni en blaðburðarbarn, þótt honum sé að sönnu falið að vera þegar best lætur endapunktur allra lögfræðilegra deilna. Og það getur hæstiréttur út af fyrir sig gert líka með því að hafa lögfræðilega rangt fyrir sér. Úr líkunum á slíku er reynt að draga með því að skipa sem hæfasta einstaklinga, þrútna af lærdómi og fróðleik, til að manna þessa endastöð lögfræðilegra álitaefna. Sama gildir um uppeldisstöðvar í lögfræði. Þar þurfa víðlesnir menn, helst með mikla reynslu af hinum daglega vígvelli, að leiða menn áfram. Fyrir slíkum hljóta laganemar að bera virðingu, þótt óþarft sé að trúa öllu sem þeir segja.

En hvers vegna gerast menn lögfræðingar? Ekkert eitt svar gefst við þeirri spurningu. Ef skoðað er lið íslenskra lögfræðinga frá öndverðu til þessa dags kennir margra grasa og þar eru einnig liljur, rósir og krónumikil tré. Sumir urðu bara lögfræðingar, hvað sem það nú þýðir. Aðrir fóru í kaupmennsku og fjársýslu af mörgu tagi. Bestu skáld landsins og leikarar eru í þessum fríða hópi og svo eru þeir sem enginn vildi hafa neitt með að gera og enduðu í stjórnmálum. Ég hef gegnum tíðina lesið viðtöl við menn úr öllum þessum hópum eða endurminningar þeirra. Undantekningarlítið ber þeim saman um að lögfræðin hafi gagnast þeim vel á lífsgöngunni, jafnvel í þeim tilvikum þar sem lagasafnið var aldrei opnað að prófi loknu.

Lagadeild Háskóla Íslands hefur að fornu og nýju verið hornsteinninn í laganámi á Íslandi og þar hefur mikið og gott starf verið unnið. Sá merkilegi atburður, sem nú er að verða hér í Háskóla Reykjavíkur er fjarri því að vera nokkur áfellisdómur fyrir þá mætu kennslu- og vísindastofnun. Hann er fyrst og fremst vitnisburður um tvennt. Vébönd lögfræðinnar færast til og víkka og viðfangsefni hennar má nálgast með ólíkum aðferðum. Og í annan stað er mikil þörf fyrir þessa fræðigrein í nýjum myndum í hinu frjóa og lifandi samfélagi sem nú þrífst á Íslandi. Það er enginn vafi á því í mínum huga, að samkeppnin geri Lagadeild þeirri, sem ég er í þekkingarskuld við, mikið gagn og muni efla hana til átaka og starfa. Tilvera lagadeildarinnar í Háskóla Íslands, saga hennar og virðing, er einnig til þess fallinn að hvetja fræðimenn og nemendur á þessum nýja vettvangi til þess að setja markið hátt og slaka hvergi á kröfum til sjálfra sín og deildarinnar sem heildar. Ríkisvaldið hefur það ekki á sinni könnu að stofna til samkeppni eða stýra henni. En á hinn bóginn er eðlilegt að tryggja að þeir sem keppa, í bestu merkingu orðsins, búi við heilbrigð skilyrði og að ríki sjálft forðist að skekkja myndina með því að gera keppendum mishátt undir höfði.

Ég vil leyfa mér að óska forráðamönnum Háskólans í Reykjavík, forystu lagadeildar hér og kennurum og þeim nemendum sem hingað munu sækja sér veganesti í lögvísindum allra heilla í bráð og lengd. Land okkar byggir á lögum, að ráði bestu manna. Vel menntuð sveit lögfræðinga gegnir því lykilhlutverki á Íslandi framtíðarinnar. Hér hafa menn því þarft verk að vinna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum